Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég er sammála því sjónarmiði sem fram kom hjá hæstv. forsrh. að ummæli bandaríska sendiherrans í umræddu viðtali voru óeðlileg. Í þeim ummælum fólst tilraun til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku íslenskra stjórnvalda umfram það sem talið er eðlilegt af erlendum sendimönnum. Ég verð því miður einnig að lýsa mig algjörlega ósammála þeirri yfirlýsingu og skoðun hæstv. viðskrh. að umrætt viðtal í Morgunblaðinu hafi verið persónulegt viðtal. Það var öllum ljóst sem þetta viðtal lásu að hér var um að ræða formlegt viðtal við nýskipaðan sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, fyrsta opinbera viðtalið sem stærsta blað Íslendinga á við sendiherrann og sendiherrann ræddi málin sem sendiherra Bandaríkjanna í viðtalinu aftur og aftur. Það kemur einnig fram í viðtalinu að hann hafi sem sendiherra Bandaríkjanna rætt við aðila í bandarísku viðskiptalífi, hann ætli sér sem sendiherra Bandaríkjanna að bjóða þeim ásamt iðnrh. til fundar og lýsir sem sendiherra Bandaríkjanna skoðunum sínum á því hverjar verði afleiðingar fyrir Ísland ef ekki verður samþykkt forkönnun á varaflugvelli á Íslandi. Það er ekki hægt að halda því fram með nokkrum rétti að í þessu viðtali hafi persónan, Bandaríkjamaðurinn, íþróttamaðurinn fyrrverandi, eingöngu verið að tjá sínar persónulegu skoðanir sem ekkert komi við sendiherraembætti hans á Íslandi.
    Mér þykir afar leitt að þurfa að lýsa slíkum ágreiningi við minn ágæta samstarfsmann í hæstv. ríkisstjórn en það er óhjákvæmilegt að gera það fyrst þessi ummæli komu hér fram. Hér var um formlegt viðtal við sendiherra Bandaríkjanna að ræða og ég tek undir þá skoðun hæstv. forsrh. að það er óeðlilegt og óheppilegt vegna nauðsynjar á batnandi sambúð í heiminum á milli allra ríkja að erlendir sendimenn tali með þessum hætti.