Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 21. desember 1989


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Þá liggur hér frammi fyrir augum allra jólaboðskapur hæstv. ríkisstjórnar sem eitt sinn gerðist svo djörf að kenna sig við jafnrétti og félagshyggju þó að flestir séu að vísu hættir að tengja þessi hugtök við hana. Sá boðskapur inniheldur ekki fullvissu um gleðileg jól, gott og farsælt nýtt ár, eins og menn gjarnan segja hver við annan á þessum árstíma, því fer fjarri. Að þessu sinni mun þjóðin halda sín jól í skugga atvinnuleysis og kvíða um afkomu sína. Og fyrir þjóðina í heild eru ekki horfur um farsæld á komandi ári. Slíkur er sá boðskapur sem væntanleg fjárlög ársins 1990 bera öllum landsins lýð.
    Nú við lokaafgreiðslu þessa máls liggur í rauninni ljóst fyrir að fæstir eru sáttir við þau fjárlög sem á að fara að samþykkja. Margir af fulltrúum stjórnarflokkanna eru engu síður ósáttir við þá stefnu sem þau boða en við sem erum í stjórnarandstöðu. Stefnu skattaáþjánar og niðurskurðar, ómarkvissra sparnaðartilrauna og hæpinna aðgerða við tekjuöflun. Samt munu þeir hlýða og samþykkja. Við höfum nú séð tekjuáætlun fyrir næsta ár sem er nokkuð breytt frá því sem var í upphafi og nemur nú rúmlega 91 milljarði, hefur hækkað um rúmlega 1,1 milljarð frá því fyrsta. Þessi hækkun kemur svo sem augljóst er fram í auknum álögum á almenning. Alls staðar er leitað leiða til tekna fyrir ríkissjóð og fullyrða má að aldrei hafi verið seilst svo djúpt í vasa almennings sem nú. Má kalla það harkalegar aðgerðir á tímum slíks samdráttar sem nú er í þjóðfélaginu og fyrirsjáanlega verður á næsta ári. Bifreiðaskattar og bensíngjald hækka stórkostlega og ljóst er að tekjulágt fólk kemur varla til með að hafa efni á að eiga og reka bíl. Tel ég því hæpið að treysta á að þessar fyrirhuguðu tekjur skili sér svo sem áformað er. Tekjuskattar hækka frá fjárlögum þessa árs um 2,8 milljarða. Af heildarupphæðinni er orkuskattur 250 millj. kr. sem hlýtur að valda því að gjaldskrá orkuveitna hækki og sú hækkun
fer auðvitað beint út í verðlagið hvað svo sem menn segja um það og halda fram. Þjónustufyrirtækjum og eftirlitsstofnunum er gert að stórhækka sértekjur og skila í ríkissjóð og fyrir því fær almenningur einnig að finna. Svo langt er gengið í þessum efnum að afnotagjöld af símtækjum sem Póstur og sími innheimtir renna öll í ríkissjóð, 500 millj. kr. Öll þessi skattheimta er óverjandi. Hún ýtir undir verðbólgu, gengur of nærri gjaldþoli manna og vinnur þannig á móti markmiðum sínum. Ríkisvaldið er þegar komið á ystu nöf í skattheimtunni. Þegar svo langt er gengið að heimili geta ekki haldið uppi því sem við teljum eðlilega neyslu þá dregst innheimtan óhjákvæmilega saman. Tekjurnar nást ekki og of hart er gengið að almenningi. Þegar einnig er litið til spár Þjóðhagsstofnunar um atvinnuleysi á komandi ári virðast líkurnar á því að áformuðum skatttekjum verði náð enn dvína.
    Hið nýja ljós í myrkrinu í skattáformum ríkisstjórnarinnar, ljósið sem ætlað er að leiða

landsmenn til einföldunar, réttlætis og skilvirkni í skattamálum, verður nú tendrað um áramótin, virðisaukaskatturinn. Rétt er að ítreka það enn einu sinni hér að kvennalistakonur hafa frá upphafi verið mótfallnar þessum skatti og talið að ókostir hans gerðu meira en að vega upp á móti hugsanlegu hagræði af honum. Allar hafa spár okkar ræst. Nú þegar er komið í ljós að þær forsendur sem taldar voru honum til gildis eru flestar brostnar. Einföldunin er horfin út í veður og vind með ótal undanþágum, gengið var á gefin fyrirheit með því að hafa skattprósentuna svo háa sem hún er, sem óhjákvæmilega býður heim alls konar svartamarkaðsviðskiptum og þar fauk réttlætið. Auk þess hafa einstaklingar, fyrirtæki og forsvarsmenn sveitarfélaga lýst því að þeir séu gersamlega vanbúnir að taka við þessari nýbreytni. Í ljósi þessa er sýnt að skilvirknin muni eitthvað láta á sér standa. Enda er það svo að fulltrúar fjmrn. hafa, ásamt fjölmörgum öðrum sem með fjármál fara, lýst því að fullkomin óvissa sé um hvernig til muni takast með innheimtu þessa skatts. Rétt er að minna á að kostnaðurinn við að koma á þessari skattbreytingu er orðinn óheyrilegur. Heilsíðuauglýsingar sem eiga að kenna landslýð að borga skatta með brosi á vör hafa birst dögum og mánuðum saman, áreiðanlega til lítils gagns. Stöðugildum á skattstofum fjölgar á meðan sjúkrastofnanir fá ekki nauðsynlegan mannafla. Öll skriffinnska eykst úr hófi fram en þrátt fyrir allan kostnaðinn ríkir þrúgandi óvissa meðal skattgreiðenda um hvernig þeir eigi að snúa sér í málunum. Kynning og fræðsla hefur ekki verið nógu markviss. Og hvernig sem allt fer þá er eitt augljóst, það er óhemju dýrt að fylgja þessu nýja skattkerfi eftir. Ég vil einnig ítreka það sem ég áður hef sagt og raunar er öllum ljóst að þessi skattur leggst á fjölmarga þætti umfram söluskattinn og hlýtur því að hækka verðlagið og þrengja enn kost almennings af þeim sökum. Þegar einnig er litið til þess að gengið er út frá verulegri kaupmáttarrýrnun á komandi ári í ofanálag á kaupmáttarrýrnun þessa árs þá vil ég lýsa fyllstu vantrú á að tekjuáætlun ríkissjóðs standist.
    Hvað varðar gjaldahliðina þá hefur hún vissulega tekið breytingum frá því sem upphaflega var ætlað. Niðurskurður af ýmsu tagi hefur verið knúinn fram með handafli, en aðrir liðir hækkaðir nokkuð og í heild eru áætluð gjöld nú
rúmlega 95 milljarðar. Af hálfu hæstv. fjmrh. hefur verið lögð ofuráhersla á að skráður fjárlagahalli yrði sem lægstur. Því hefur tekjuöflunarhliðin verið knúin upp svo sem ég hef lýst og að öllum líkindum umfram gjaldþol tekjustofnanna. Aftur á móti hefur rekstrarkostnaður ríkisstofnana verið skorinn harkalega niður og þeim gert að spara a.m.k. 300 millj. í launum og umfangi. En sparnaðarátakið sem átti að fara fram í ár á þann veg að lækka launakostnað um 4% náðist ekki nema að hálfu. Því hljóta menn að hafa efasemdir um að þetta átak nái fram.
    Lánasjóði ísl. námsmanna eru ætlaðar 400 millj. til að mæta fjárþörf sem ekki er undir 700 millj. og

sennilega nær 800 millj. Þessar 400 millj. á sjóðurinn að taka að láni og hljóta menn þá að fara að óttast um framtíð þessarar stofnunar sem sífellt er rekin á lánum. Afborganir og vextir verða á annan milljarð á komandi ári og ráðstöfunarfé fer minnkandi. Útgjöld vegna ríkisábyrgðar á launum hefur stórhækkað á þessu ári og í ljósi sífjölgandi og fyrirsjáanlegra gjaldþrota er sýnt að mikið vantar á að nægilega sé séð fyrir þeim lið á næsta ári.
    Ætlað er að ná fram umtalsverðum sparnaði með lækkun lyfjakostnaðar. Þessi áform hafa verið uppi um árabil án þess að þau hafi náð fram að ganga. Engin ástæða er til að ætla að það verði nú fremur en áður. Þar á ofan er augljóst að ríkisspítölunum dugar engan veginn það fé sem þeim er ætlað og þar mun vanta a.m.k. 150 millj. Tölur um atvinnuleysi eru hærri nú en áður hafa sést um áratugi og fyrirsjáanlegt er geigvænlegt atvinnuleysi á næsta ári. Í fjárlögum fyrir næsta ár er þannig búið að Atvinnuleysistryggingasjóði að fyrirsjáanlegt má telja að stórfé vanti á eigi honum að vera fært að gegna hlutverki sínu. Fyrirheit eru hjá stjórnvöldum um að matvöruverð lækki á næsta ári. Verði staðið við það og verði einnig staðið við þau loforð sem bændum hafa verið gefin eru niðurgreiðslur vanáætlaðar um 400--500 millj. kr. Auk þessa eru fjöldamargar smærri upphæðir vantaldar svo sem hv. 2. þm. Norðurl. v. kom að í ræðu sinni áðan.
    Það sem ég nú hef bent á sýnir ljóslega að inni í gjaldahliðinni eru vanáætlanir sem nema ekki minna en tveimur til þrem milljörðum. Kjarasamningar eru nú fyrir dyrum og því hefur mjög verið haldið fram að kjarabætur í beinum launahækkunum kæmu varla til greina. Raunhæfara væri að bæta kjör með öðrum hætti, með lækkun matvöruverðs, jafnvel skattaívilnunum. Ég fæ ekki séð að slíkar kjarabætur rúmist innan ramma fjárlaganna.
    Þjóðhagsstofnun hefur að vanda birt áætlun um þjóðarbúskapinn á komandi ári og ekki er sá boðskapur gleðilegur. Einkenni hans eru samdráttur á flestum sviðum og vaxandi atvinnuleysi. Staða fjölskyldna og heimila verður augljóslega erfið og er það vissulega nú þegar. Ég las í gær frétt frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur þar sem greint var frá hve hjálparbeiðnum færi sífellt fjölgandi og jafnvel væru þess ófá dæmi að fólk í fullri vinnu leitaði aðstoðar. Slíkt ber því auðvitað glöggt vitni sem við kvennalistakonur höfum þráfaldlega bent á að lágmarkslaun duga engan veginn til framfærslu. Skyldi þetta dæmi sem ég nefndi duga til að menn viðurkenni að svo sé. Nú býr fjöldi fólks við ótta um að missa atvinnu sína. Gera þeir sem hér eru inni sér grein fyrir því hvaða áhrif atvinnuleysi hefur á einstaklinga? Að ganga á milli manna og fyrirtækja í atvinnuleit og vera hafnað. Slík lífsreynsla brýtur niður sjálfstraust fólks, brýtur niður allt framtak, kyndir undir beiskju og neikvæðum viðhorfum, fólk lamast andlega. Hvað á að verða um þá sem nú hafa verið svo lengi atvinnulausir að bótaréttur þeirra er runninn út? Í þeim hópi eru konur fjölmennastar, auk þess sem meðal kvenna er mikið dulið atvinnuleysi. Á

þetta fólk að segja sig til sveitar?
    Þjóðhagsstofnun telur að bjart sé fram undan í efnahagsmálum í heiminum. Þar sé áframhaldandi vaxtarskeið meðan áfram verður samdráttur í þjóðarbúskap okkar. Þegar aðrar þjóðir búa við hagvöxt getum við ekki nýtt okkur hann af því að við höfum látið undir höfuð leggjast að leita leiða til að auka verðmæti mikilvægustu útflutningsvöru okkar með frekari fullvinnslu en flutt hana óunna út til atvinnusköpunar fyrir aðrar þjóðir. Svo eru útsendarar ríkisstjórnarinnar á harðahlaupum út um öll lönd í leit að einhverjum sem kynnu að vilja reisa álver sem án efa er dýrasti atvinnukostur sem völ er á. Bygging álvers mundi stórauka ríkisskuldir sem ekki er á bætandi. Hvert einstakt atvinnufyrirtæki við álver kostar að minnsta kosti 200 millj. Það er hægt að skapa mörg atvinnutækifæri í öðrum greinum fyrir slíka upphæð, ekki síst fyrir konur sem nú eru tvöfalt fleiri á atvinnuleysisskrá en karlar. Konur koma ekki til með að vinna við álframleiðslu í teljandi mæli. Ríkisstjórninni væri nær að verja fjármunum til markaðsöflunar á fiskvörum í fleiri löndum en hingað til hefur verið gert en einblína stöðugt á stóriðju svo sem álbræðslu. Menn virðast yfir höfuð ekki hafa gefið því gaum að aðrar Evrópuþjóðir vilja helst ekki hafa slík fyrirtæki innan sinna landamæra sökum mengunaráhrifa og annarra miður hollra samfélagsáhrifa.
    Góðæri í öðrum löndum, svo sem nú er samkvæmt þjóðhagsspá, hefur oft skilað sér í auknum ferðamannastraumi hingað og má vænta að svo verði á næsta ári. Ég
hef fyrr í umræðunni um fjárlagafrv. bent á hve hörmulega lítinn skilning stjórnvöld sýna ferðamannaþjónustu sem er nú ein af fáum atvinnugreinum sem vaxtarbroddur er í. Og hvernig var það með hæstv. samgrh., var hann ekki nýlega að setja með viðhöfn ferðamálaár Evrópu? Ég vil enn ítreka að svo má ekki búa að Ferðamálaráði að það geti ekki gegnt skyldum sínum en það er naumast fært um það. Það hefur ekki fjármuni til áætlanagerða og stjórnvöld sýna því greinilegt vantraust með því að negla niður til ákveðinna verkefna hvern einasta eyri sem því er veittur. Með þeim ráðstöfunum er allt frumkvæði heft og Ferðamálaráð fær í raun ekkert til að sinna þeim verkefnum sem það telur brýnust. Fjölsóttir ferðamannastaðir eru að fara í svað vegna óhóflegs ágangs og umgengni sem er of víða slík að vansæmd er að. Það kostar fé að færa þetta í lag en það fé verður að fást, annars er framtíð þessara staða í bráðri hættu.
    Ég hafði ekki hugsað mér að gera einstaka þætti frv. frekar að umtalsefni en eitt get ég ekki látið vera að minnast á. Ljóst er að starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands mun nánast leggjast af með fjárveitingu sem aðeins er 75 millj. kr., þar sem þeir fjármunir duga eingöngu til að standa við þegar gerðar skuldbindingar. Engin framtíðarverkefni verða undirbúin, ekki hægt að hefja framkvæmdir fyrir þessa fjármuni og því mun starf stofnunarinnar sem

henni er skylt, skv. gildandi lögum, að inna af hendi leggjast af á árinu 1990. Þegar hafa verið gefin vilyrði fyrir aðstoð við Namibíu og framhaldi ýmissa smærri verka á Grænhöfðaeyjum en þar er t.d. nýbyggt kvennahús sem bíður þess að starfsemi verði hafin. Nú er ekkert fé til þess, það verður ekki unnt að standa við þetta. Og hvað eiga Íslendingar, hvað á íslenska Þróunarsamvinnustofnunin og forsvarsmenn hennar að segja við þessar þjóðir? Það er alger smán fyrir Íslendinga, fyrst þeir á annað borð eru að taka þátt í slíku alþjóðastarfi, að veita jafnlitlum fjármunum til þessara mála. 75 millj. kr. eru örlítið prósentubrot af fjárlögum ársins 1990 og hlutfallið lækkar enn frá síðasta ári. Ályktun Alþingis frá 1985 um starfsemi stofnunarinnar er sýnd fullkomin fyrirlitning og það af þinginu sjálfu. Hver á að bera virðingu fyrir ályktunum þingsins ef það gerir það ekki sjálft? Stjórn og framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar hafa þungar áhyggjur af framtíð þessa starfs sem stofnuninni er skylt að inna af hendi og þar sem fjárveiting nær ekki 100 millj. mun stjórnin væntanlega neyðast til þess að vísa málefnum stofnunarinnar beint til ríkisstjórnar sem sjálf verður þá að axla þá ábyrgð sem fylgir því að framfylgja ekki þeim lögum sem um stofnunina gilda. Því að þó illa ári hjá okkur megum við ekki gleyma þeim sem við bágari hag búa en við og við höfum heitið aðstoð.
    Virðulegi forseti. Nú um rúmlega tveggja ára skeið hefur farið fram stórfellt uppgjör í þjóðfélaginu. Uppgjör á kostnaði fjárfestingarveislunnar. Stórkostlegar fjármagnstilfærslur hafa átt sér stað og víðtæk röskun á högum fólks og fyrirtækja við frágang á vandamálum sem ekki varð lengur slegið á frest. Þegar þetta uppgjör er yfirstaðið má vænta þess að farið hafi fram viss hreinsun og endurskipulagning. Vonandi hefur þessi eldskírn orðið til þess að mönnum hefur lærst að taka upp betri og hagkvæmari vinnubrögð. Menn eru vonandi farnir að skynja verðbólguna sem þann óvin sem hún er en ekki sem hjálpartæki. Vonandi draga menn þann lærdóm af þrengingum þessara ára að látið verði af þeim hugsunarhætti að hægt sé í sífellu að gera út á verðbólguna og vonina. Trúlega hafa fáir betri skilning og meiri reynslu af léttum pyngjum en konur. Eins og kunnugt er eru konur stærsti láglaunahópurinn í þjóðfélaginu. Þær verða því ætíð að sýna aðgæslu í meðferð þess fjár sem þær hafa til ráðstöfunar. Í aldanna rás hefur það fallið í hlut kvenna að gæta þess að eyða ekki um efni fram en sjá jafnframt til þess að allir í fjölskyldunni fái sinn skerf og nái að dafna. Konur hafa því mikla reynslu í því að gera raunhæfar áætlanir. Þær gæta þess að láta léttar pyngjur sínar aldrei tæmast alveg. Sú saga er gömul en virðist þó árlega ný að nú sé ríkiskassinn tómur og enn á ný skuli aðhalds gætt. Ár eftir ár stöndum við frammi fyrir því að stjórnvöld hafa farið ógætilega með sameiginlega fjármuni okkar og gert áætlanir sem ekki standast. Þegar líða tekur á árið vakna menn svo við vondan draum, hefja ákafa leit að nýjum tekjulindum fyrir ríkiskassann og leita leiða til að

skera niður útgjöld ríkisins. Sá niðurskurður getur aldrei orðið annað en handahóf því menn virðast alltaf sjá of seint í hvert óefni stefnir. Þess vegna næst heldur aldrei sá sparnaður sem stefnt er að.
    Sá niðurskurður sem fyrirhugaður er á árinu 1990 er hefðbundinn og kemur verst niður á þeim sem síst skyldi. Því fer fjarri að fjárlög næsta árs beri með sér kvenlegt yfirbragð. Það er andstætt hugsunarhætti kvenna að þrengt sé að börnum með þeim hætti sem ríkisstjórnin boðar með niðurskurði í skólakerfinu. Það virðist algjörlega hafa farið fram hjá höfundum frv. að í skólum landsins eru margir einstaklingar með fjölbreytilegar þarfir og það getur skipt sköpum um alla framtíð barnanna hvernig komið er til móts við þær þarfir. Hverjum manni ætti að vera ljóst að ekki er hægt að skera niður án minnsta tillits til þess hvers konar starfsemi fer fram innan veggja hinna
ýmsu stofnana. Í niðurskurði stjórnvalda til skólamála endurspeglast sá skortur á framtíðarsýn sem allt of lengi hefur þjáð stjórn landsins. Sú stöðnun, sjálfvirkni og sú forgangsröðun sem birtist í fjárlögunum fyrir 1990 er konum engan veginn að skapi. Kvennalistakonur hafa oft og iðulega minnt á stefnu hinnar hagsýnu húsmóður sem á ekki síður við um sameiginlega sjóði okkar allra en fjármuni hvers heimilis. Til þess að ná fram raunverulegum sparnaði verður að gera um hann áætlanir. Vonlaust er að grípa til óskipulegs niðurskurðar á elleftu stundu. Það stuðlar aðeins að því að gera vandann illleysanlegri en vera þyrfti. Með hugmyndaauðgi sinni og útsjónarsemi hefur konum einlægt tekist að leysa hið óleysanlega. Oft hefur þeim reynst árangursríkast að fara óhefðbundnar leiðir eins og m.a. hefur sýnt sig í sérstöku framboði kvenna til Alþingis. Konur hafa ekki komið svo nálægt ríkiskassanum að sjónarmið hinnar hagsýnu húsmóður hafi fengið að njóta sín í þágu okkar allra og þess gjöldum við nú.
    Fjárlög komandi árs boða okkur samdrátt í ríkisframkvæmdum, samdrátt í atvinnu, samdrátt og niðurskurð á flestum sviðum. Því hljóta menn að bera í brjósti ugg og kvíða um afkomu sína og sinna á komandi árum. Spá Þjóðhagsstofnunar kyndir enn undir þann kvíða. Hætt er við að þessar döpru framtíðarhorfur dragi úr kjarki og áræði manna til nýrrar sóknar í atvinnusköpun en þó var oft þörf en nú nauðsyn.
    Málefnasamningur ríkisstjórnarinnar, sem enginn kennir nú lengur við hennar fyrri einkunnarorð, gaf ákveðin fyrirheit um sérstök átök í málefnum landsbyggðarinnar, til hindrunar frekari byggðaröskunar og til eflingar byggðaþróunar. Vil ég nú enn einu sinni minna á það átak sem lofað var um atvinnuuppbyggingu vegna kvenna í dreifbýli. Ekki bólar þar á efndum frekar en í öðrum hlutum. Því hafa þingkonur Kvennalistans lagt fram brtt. við fjárlögin á þskj. 425 sem sýna vilja okkar í þessum efnum og verður mælt fyrir þeim hér á eftir.
    Virðulegi forseti. Þegar hæstv. núv. fjmrh. settist á ráðherrastól hafði hann uppi hástemmdar yfirlýsingar um að nú yrði brotið blað við fjárlagagerð. Fjármál

ríkisins yrðu tekin fastari tökum, nýr hornsteinn lagður að efnahagsmálum. Óneitanlega bundu margir vonir við að honum kynni að takast þetta. Nýr ráðherra úr flokki sem ekki hafði borið ábyrgð á fjármálastjórn ríkisins um nokkra hríð hafði þarna gullið tækifæri. Tækifæri til að hreinsa til í ríkisfjármálunum, segja við þá sem áður höfðu stjórnað: Nú geri ég dæmið upp, og lítið á: Hallinn á ríkissjóði og skuldirnar eru ykkar sök og nú er komið að skuldadögunum. Ríkissjóðshallinn sem þjóðin verður að greiða er af ykkar völdum og ég ætla að vinna okkur út úr vandanum þó að það kosti margvíslegar fórnir.
    En hver er svo niðurstaðan? Þessi fjárlög sem nú á að samþykkja eru alls ekki á þennan veg. Ótti hæstv. fjmrh. við að sýna þann raunverulega halla sem er á ríkissjóði veldur því að hann fellur í sömu gryfjuna og fyrirrennarar hans. Í stað þess að sýna heiðarleika og viðurkenna hvernig fjárhag íslenska ríkisins er í rauninni varið heldur hann uppi sama sjónarspilinu og aðrir hafa gert og dregur hvergi af. Talar enn af fjálgleik um fjárlögin sem hornstein efnahagslífsins, en nú er hann þegar orðinn að sandi og kraftaverkið er að engu orðið. Hvergi er hreinsað til fyrir jólin, ruslið er enn í hornunum og sumu hefur verið sópað undir gólfteppið.
    Fjárlög ársins 1990 verða með sama innbyggða hallanum og fjárlög undanfarinna ára. Innbyggðum halla sem stafar af vísvitandi vanáætlunum á gjöldum. Nú er ekki lengur hægt að skella skuldinni á aðra. Hæstv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, hefur glatað tækifærinu og honum gefst það aldrei aftur.