Almannatryggingar
Föstudaginn 22. desember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál sem varðar stórútgjöld sem ríkið verður fyrir og er nauðsynlegt að koma á skýrari reglum þar að lútandi. Um það er ekki ágreiningur. Hins vegar gefst allt of lítill tími til að velta fyrir sér þeim leiðum sem þarna er stungið upp á. Það kom líka fram í umfjöllun heilbr.- og trn. neðri deildar að þær tölur sem áætlað er að sparist með þessum aðferðum eru í raun hreinar ágiskanir. Og það hafa komið fram ýmsar aðrar leiðir sem enginn tími var til að gaumgæfa. Málið ber of hratt að og við kvennalistakonur treystum okkur ekki til að styðja þetta mál, þó að grunnhugmyndir þess séu að mörgu leyti ágætar, nema að fá til þess betri tíma. Þess vegna höfum við tekið þá afstöðu að sitja hjá við málið en munum styðja þær brtt. sem fram komu frá meiri hl. því að þær eru að mörgu leyti óviðkomandi efni upphaflega frv. og byggjast á samkomulagi þeirra aðila sem málið varðar.
    Ég hef ekki meira um málið að segja, en vísa að öðru leyti til nál. á þskj. 441 sem fulltrúi Kvennalistans í neðri deild skrifaði þegar málið var til umfjöllunar þar.