Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Stefán Guðmundsson):
    Virðulegi forseti. Það er dálítið merkilegt sem ég var að uppgötva núna en kannski mátti hafa séð fyrr. Það virðist eins og hér sé eitthvert thermostat sem gefur það til kynna að eftir því sem menn tala hér hærra og láta meira í ræðustól, þá kvikna ljós sjónvarpsins og magnast og skína alltaf skærar og skærar eftir því sem menn hafa hærra og hærra. Það er út af fyrir sig nokkurt rannsóknarefni en við skulum geyma okkur þá umræðu þangað til eftir áramótin.
    Hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson sagði það hér áðan, og þess vegna kem ég nú hingað upp, að einhverjir hefðu verið með hótanir um að ekki verði staðið að öðrum málum þingsins. Ég kannast ekki við þetta. Það hefur þá verið gert í hans eigin flokki. En ég kannast ekki við þetta og ekkert slíkt kom fram í nefndarstarfinu þannig að ég get ekki séð annað en hér sé um hugaróra eina að ræða.
    Ég endurtek því þakkir mínar til nefndarinnar fyrir vel unnin störf og vísa því algerlega á bug sem einnig kom fram að nefndarmenn hafi ekki kynnt sér þetta mál. Ég tók það fram í upphafsorðum mínum að auðvitað hafa nefndarmenn gert það. Menn hafa lesið þetta mál og eftir að það kom frá Nd. hafa menn auðvitað verið að kynna sér þetta mál. Starf nefndarinnar var hins vegar mjög friðsamt og bar þess augljóst vitni hvaða dagar fara í hönd.