Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Herra forseti. Þó þegar hafi verið mælt fyrir áliti 1. minni hl. eru hér að auki nokkrar brtt. sem fulltrúar Kvennalistans í deildinni leggja fram og ég vildi gjarnan mæla fyrir auk þess að viðhafa nokkur orð um frv. sjálft.
    Um fyrri hluta frv. er kannski ekki ástæða til að hafa mörg orð svo ómarktækt plagg sem það er. Ekki þarf annað en að líta á mismuninn á þeim tölum sem lágu fyrir þegar lánsfjárlögin voru samþykkt fyrir sl. ár og var það þó ekki gert fyrr en í mars og tölunum þegar til niðurstöður lágu nokkurn veginn fyrir. Er skemmst að minnast að við samþykktum hér á Alþingi, fyrir tveimur vikum eða svo, breytingar við lánsfjárlög og enn eru tölur að breytast og munu sjálfsagt gera fram á síðasta dag ársins svo að miklu frekar er þetta nú einhvers konar áætlun, jafnvel óskhyggja, en að ástæða sé til að taka þetta alvarlega sem löggjöf.
    Óneitanlega væri skemmtilegra að hafa í höndunum marktækara plagg hvað áætlanir varðaði og gerði kannski ráð fyrir ýmsum möguleikum sem vissulega gætu upp komið á árinu og verð ég þá sérstaklega að nefna 3. gr. frv. um heimild til lántöku til Landsvirkjunar. Nú er það vitað mál að margir innan ríkisstjórnarinnar ala með sér þann draum að hér rísi álver hið fyrsta á Reykjanessvæðinu eins og hæstv. iðnrh. kaus að kalla það fyrir nokkrum dögum og var það vafalaust til þess að dreifa athygli landsmanna frá því að það væri á Reykjavíkursvæðinu. En ég held að þeir sem búa utan Reykjavíkursvæðisins séu nú betur að sér en svo í landafræði að þetta blekki þá mikið. Ef þessum mönnum verður að óskum sínum og draumar þeirra rætast er hætt við að Landsvirkjun þurfi meira fé en hér er tilgreint og þar sem þetta er bjargfastur ásetningur hluta ríkisstjórnarinnar hefði ekki verið úr vegi að með þessu frv. til lánsfjárlaga fylgdi einhvers konar áætlun um hversu mikið fé Landsvirkjun þyrfti ef til byggingar álvers kæmi.
    Nú getur vel verið að þetta sé einmitt birtingarmynd þess ágreinings sem er um þessi mál innan ríkisstjórnarinnar, og þar sem frv. til lánsfjárlaga kemur hugsanlega úr þeirri deild ríkisstjórnarinnar sem er ekki með jafnmikla glýju í augunum og margir aðrir sé það ógert látið að hafa þess konar áætlun hér með. En þetta mætti segja um ýmsa fleiri þætti. Þetta væri marktækara plagg til skoðunar, þó ekki væri nema í greinargerð eða athugasemdum við frv., ef því fylgdu áætlanir um ýmsar framkvæmdir sem hugsanlega eru á dagskrá. Jafnvel þó það sé ekki komið lengra en svo að einhvern langi til að sjá eitthvað komast í framkvæmd væri hægt að glöggva sig á því í athugasemdum með þessu frv. hvernig dæmið liti þá út. En slíkar breytingar sem geta orðið á framkvæmdaáætlun yfir árið og annað sem upp á kemur gerir það að verkum að ekki er ástæða til að fjölyrða um áreiðanleika þessara laga utan þess að það má treysta áreiðanleika II. kafla frv., þ.e. ,,þrátt

fyrir``-kaflans. Þar er nú ekki lausungin og það sem þar er boðað stendur ábyggilega. Það hlýtur náttúrlega að vera undrunarefni að enn skuli verið að setja í lög að marka skuli stofnunum eða framkvæmdum tekjustofna. Það ætti að vera öllum ljóst að ekki er staðið við þau ákvæði og sæmst væri auðvitað að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að fara í gegnum lögin og hreinsa þau af þessum mörkuðu tekjustofnum svo að ekki þyrfti að grípa til þessa óyndisráðs hér á hverju ári að vera með þennan langa kafla um svik við eigin lög eða brot á eigin lögum.
    Það er líka umhugsunarefni varðandi þessi skerðingarákvæði hvað kemur fyrst í ákvörðuninni um upphæð. Þó að fjh.- og viðskn. hafi ekki getað fengið lista yfir hverjar upphæðir hefðu verið hefði ekki komið til skerðingar, þá hljóta að liggja fyrir einhverjar slíkar tölur, a.m.k. er hægt að sækja þær aftur í tímann. Það væri fróðlegt að vita hvort tekjustofnarnir eru í rauninni markaðir í upphafi með tilliti til þarfa þess málaflokks sem í hlut á eða hvort gripið er til einhvers ákveðins hlutfalls --- burt séð frá því í rauninni hvað það gerir í upphæðum. Það er hreint ekki víst að það sé sama niðurstaða og fengist ef ekki væru fyrir hendi þessir mörkuðu tekjustofnar og þyrfti að taka afstöðu til upphæða hverju sinni. Manni segir því svo hugur um að þarna sé komið gjörsamlega aftan að hlutunum með því að einhver upphæð ákvarðist af tekjustofnum, sem síðan eru skornir niður, fremur en af þörf. Það er nú ekki eins og Alþingi hafi látið af þessum vana að marka tekjustofna því að síðast í vor voru samþykkt hér á Alþingi lög um málefni aldraðra og þar voru einu sinni enn sett ákvæði um markaðan tekjustofn, meira að segja í formi nefskatts, en þrátt fyrir það er hér boðuð skerðing. Lögin sem sett eru halda sem sagt ekki einu sinni út árið.
    Það væri eflaust hægt að gera að umtalsefni næstum hvern lið í II. kaflanum, ,,þrátt fyrir``-kaflanum, en ég mun að mestu einskorða mig við þær þrjár greinar sem við kvennalistakonur flytjum brtt. við. Eins og fyrri daginn er það hreint ekki allt sem við hefðum kosið að breyta en öllu skal í hóf stillt í þeirri von að e.t.v. nái það frekar eyrum einhverra en ef of vítt er farið yfir völlinn.
    Þarna er enn einu sinni að finna skerðingarákvæði við 22. og 23. gr.
útvarpslaga. Við kvennalistakonur höfum ár eftir ár flutt tillögur um að aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum rynnu, eins og til er ætlast, til Ríkisútvarpsins sjálfs, en kusum að gera það ekki í þetta sinn þar sem fyrir lá einhvers konar loforð ríkisins um skuldajöfnun við Ríkisútvarpið. Það stendur til, eins og hv. þm. Matthías Bjarnason nefndi hér á undan mér, að jafna út launaskuldir Ríkisútvarpsins við ríkissjóð upp að 318 millj. kr. Og það er kannski ekki hægt að ætlast til meira á einu ári. Þetta mun ætlunin að gera í gegnum Tryggingastofnun ríkisins með því að ríkið taki að sér að greiða afnotagjöld þeirra sem undanþegnir eru því gjaldi vegna heimildar frá Tryggingastofnun ríkisins.

Það var út af fyrir sig fróðlegt að heyra fulltrúa Ríkisútvarpsins lýsa því í gær hvernig Ríkisútvarpið hefur ekkert um þessi mál að segja sjálft, verður einungis að taka við þeim tilmælum sem koma frá Tryggingastofnun í formi heimilda um niðurfellingu afnotagjalds. Það er nokkuð sérkennileg ráðstöfun að ein stofnun skuli með þessum hætti geta í rauninni ávísað á aðra. Þó að enginn amist við því að þeir sem eiga undir högg að sækja og þurfa að sækja hjálp til Tryggingastofnunar ríkisins fái niðurfellingu á afnotagjöldum, sem og ýmsum öðrum gjöldum, er náttúrlega með öllu óþolandi að stofnun eins og Ríkisútvarpið sem sjálf er ekkert aflögufær skuli boðið að taka á sig þessar skerðingar. Það er auðvitað ríkið sjálft sem verður að gera það en ekki vísa því bara yfir á Ríkisútvarpið.
    Hv. þm. Matthías Bjarnason gerði að umtalsefni dreifikerfi Ríkisútvarpsins út um land allt sem þarfnast bæði viðhalds og nýframkvæmda, en ekki er síður ástæða til þess að hafa áhyggjur af dagskrá Ríkisútvarpsins sjálfs og hvaða fé er til ráðstöfunar til framleiðslu innlends efnis. Það er langt í frá að þar geti menn staðið að verki eins og þeir kysu helst. Þrátt fyrir góðan ásetning eru ýmis dagskrárefni sem er með öllu óverjandi hvernig ástatt er um. Vil ég þá enn og aftur nefna barnaefni sem ég hef margoft gert hér að umtalsefni, ekki síst að varla skuli vera til innlend framleiðsla á barnaefni. Og þó að það sé svo sem sárabót að í auknum mæli skuli vera sett íslenst tal við það óendanlega flæði útlendra teiknimynda, sem börnunum er skammtað til þess að horfa á í sjónvarpi, nægir það engan veginn vegna þess að tilgangurinn er ekki bara að fylla upp í tíma sem börnin hafa ekkert annað að gera við. Það hlýtur að vera ásetningur að þarna sé bæði fræðsla og skemmtun á ferðinni og ekki síst ættu börnin í gegnum sjónvarp að geta kynnst eigin landi og eigin menningu með einhverjum hætti. Það er ekki nóg að segja eitthvað á íslensku. Það skiptir líka máli hvað sagt er á málinu. Og allt málræktarátak, og nú er ég ekki að sneiða að málræktarátaki hæstv. menntmrh. heldur einungis að nota þetta orð sem í þessu tilfelli er fólgið í því að talsetja efni, er marklaust ef það tekur ekki til innihalds þess sem þetta tungumál á að ná yfir og tjá.
    Það er vonandi að ríkið sjái sér fært að veita aðflutningsgjöldum aftur til útvarpsins. Fulltrúi útvarpsins var nú svo hógvær á fundi með fjh.- og viðskn. í gær að hann stakk sjálfur upp á því að greinin yrði orðuð svo að þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. útvarpslaga skyldi helmingur af tekjum á árinu 1990 renna til Ríkisútvarpsins. Það var ljóst að þarna, eins og í mörgu öðru, fylgdi gamninu nokkur alvara og trúi ég ekki öðru en að hann hefði fremur kosið að sjá það allt renna til Ríkisútvarpsins þannig að sá draumur gæti ræst að sjónvarpið gæti flutt inn í nýja útvarpshúsið og þeir gætu gert nauðsynlegar betrumbætur á dreifikerfi landsmanna.
    Að svo mæltu sný ég mér að brtt. Kvennalistans. Við höfum látið nægja að gera þrjár brtt.

    Sú fyrsta er við 23. gr. laganna sem kveður á um að 38,6 millj. kr. skuli renna til Ferðamálasjóðs og til sérstakra verkefna Ferðamálaráðs. Eftir 3. umr. Ed. er upphæðin orðin 38,6 millj. kr. sem er örlítið skárra en það sem upphaflega var í frv., þ.e. 36 millj. kr. Kvennalistinn leggur til að í stað 38,6 millj. kr. komi 66 millj. kr. Ef tekið er tillit til þeirra verkefna sem Ferðamálaráði er ætlað að vinna að duga 38,6 millj. kr. engan veginn til. Vegur þá kannski þyngst í fjárskorti Ferðamálaráðs að ekki skuli renna til þess 10% af sölu í Fríhöfninni í Keflavík eins og til er ætlast. Þessi upphæð, 38,6 millj., nægir varla fyrir þeim útgjöldum sem Ferðamálaráð hafði af starfseminni sl. ár. Þetta er nokkuð einkennileg ráðstöfun þar sem þetta er sú starfsgrein sem margir líta til vonaraugum sem eins helsta vaxtarbroddsins í íslensku atvinnulífi og vegna gjaldeyristekna. En það er eins og skorti skilning á því að þetta sé atvinnugrein sem líka þurfi einhverja aðstoð og umhyggju líkt og aðrar greinar. Það er ekki nóg að halda bara uppi flugi og samgöngum milli Íslands og annarra landa. Það er ýmislegt sem leiðir af þessum mikla innflutningi ferðamanna og líka auknum ferðalögum Íslendinga um Ísland. Og miðað við þær tekjur sem bæði landsmenn og ríkið hafa af ferðamönnum er framlag til ferðamála óneitanlega skorið æðimikið við nögl.
    Það kann að vera að þessi grein nyti örlítið meiri virðingar ef hún væri ekki borin uppi af konum í jafnríkum mæli og hún er. Má t.d. nefna að nýmæli innan þessarar greinar, þ.e. bændagisting, er að sjálfsögðu svo til eingöngu borið uppi af konum.
    Við flytjum einnig brtt. við 24. gr. laganna, um framlög til Kvikmyndasjóðs. Kvikmyndasjóði eru ætlaðar 71 millj. á árinu. Þar af munu um 15 millj. fara í kostnað við rekstur Kvikmyndasjóðs og eru þá 56 millj. eftir. Nú þegar liggja fyrir Kvikmyndasjóði umsóknir sem samtals eru að upphæð 400 millj. Nú dettur auðvitað engum í hug að öllum þeim umsóknum eigi að sinna, langt í frá, en eitthvað má nú á milli vera. Ef þeir sem standa fyrir því að framleiða kvikmyndir á Íslandi skæru ekki allan sinn kostnað niður eins og mögulegt er og reyndu að halda öllum kostnaðaráætlunum í lágmarki væru þessar 56 millj. nokkurn veginn eðlilegt framlag til einnar kvikmyndar. Að vísu hafa menn, eins og ég sagði, haldið þannig niðri kostnaði að sl. ár var hægt að setja í gang tvær kvikmyndir, en það hefur færst í vöxt að Kvikmyndasjóður verði þá að hlaupa undir bagga næsta ár líka til þess að unnt sé að ljúka við myndir.
    Ég er víst farin að ganga freklega á tímann þannig að ég ætla ekki að fjölyrða mikið um Kvikmyndasjóð, en þarna er kannski spurning um hvort við ætlum yfirleitt að vera að myndast við að styrkja kvikmyndaframleiðslu, hvort ekki er, ef svo á að standa að málum, jafngott að sleppa því og reyna þá frekar að einbeita sér að innlendu efni í sjónvarpi svo að hægt verði að standa sæmilega að einum flokki myndmáls. Nú er ég auðvitað ekki að mæla með

þeirri lausn en mér sýnist að þessi fjárveiting sé einhvers konar yfirklór sem í raun gerir ekkert annað en halda mönnum volgum, halda þeim við efnið, en ekkert geti svo orðið úr. Menn skyldu aðeins staldra við og hugleiða á hverju við höfum efni.
    Við höfum komist að þeirri niðurstöðu, í Kvennalistanum, að í því flóði erlendra kvikmynda, sérstaklega frá einu menningarsvæði, sem við búum við höfum við ekki efni á að reyna ekki að styðja við bakið á þessari yngstu systur í samfélagi listanna. Við leggjum þess vegna til að þessi grein falli brott.
    Síðasta brtt. er um að 30. gr. falli brott. Hún tekur til Framkvæmdasjóðs aldraðra og gerði ég það þegar að umtalsefni hér fyrr í ræðu minni hvernig staðið hefur verið að því að efna þau lög sem eru orðin rétt rúmlega hálfs árs gömul og fá ekki einu sinni að renna árs skeið áður en þau eru brotin.