Fjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á málflutningi hæstv. menntmrh. í sambandi við Leikfélag Akureyrar. Það er ljóst að með þessari afgreiðslu fjárlaga sem nú liggur fyrir og með afgreiðslu fjáraukalaga fyrir þetta ár hefur ríkisvaldið ekki staðið við þau fyrirheit sem Leikfélagi Akureyrar voru gefin. Þar stendur upp á núv. hæstv. ríkisstjórn. Ég skil á hinn bóginn að hæstv. menntmrh. skuli reyna að fela skömm sína í þessu máli en sannleikurinn er sá að ekki hefur verið staðið við þau fyrirheit sem fólkinu á Akureyri voru gefin. Ég lýsi yfir fullum stuðningi við það fólk sem er að reyna að halda uppi atvinnuleikhúsi á Akureyri og segi að sjálfsögðu já.