Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef því miður ekki við hendina einhverja sérstaka skrá yfir símaviðtöl embættismanna fjmrn. og annarra ríkisstofnana og efast satt að segja um að slík skrá sé haldin. Hins vegar get ég fullvissað hv. þm. um það að ég gekk rækilega úr skugga um að slíkt símtal hefði farið fram. ( HBl: Hvenær?) Ég gekk úr skugga um það í morgun áður en ég svaraði þessari fsp. að slíkt samtal hefði farið fram. Ég hafði nú satt að segja ekki hugmyndaflug til þess að spyrja að því hvenær það hefði farið fram, hv. þm., en sjálfsagt er hægt að leita sér upplýsinga um það þó að ég telji það ekki vera aðalatriði málsins. ( HBl: Það er nú kjarni málsins.) Hvenær símtalið fór fram? Ef það er allt í einu orðið kjarni málsins hvenær símtalið fór fram en ekki efnisatriðið sjálft ( HBl: Af hverju segirðu þá ekki ...) þá er ég hættur að skilja hv. þm.
    Ég vil hins vegar vegna orða hans um efnisatriði vitna hér í ummæli hæstv. viðskrh. þegar hann svaraði hv. þm. í efri deild 10. maí sl. Og ég ætla að lesa það hér, með leyfi hæstv. forseta. ( Forseti: Það verður að vera örstutt.) Örstutt, en ég tel að það sé nauðsynlegt, virðulegi forseti, að lesa það vegna þess sem hv. þm. sagði hér. Hæstv. viðskrh. segir, með leyfi forseta:
    ,,Hv. 2. þm. Norðurl. e. beindi til mín spurningu um það hvort lántökuskattur yrði tekinn af sérstökum erlendum lánum Byggðastofnunar vegna skipaviðgerða hér á landi. Ég get vel staðfest það enn á ný að ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma eins og hv. þm. er vel kunnugt að þessi skattur yrði ekki á lagður, enda væri um að ræða skipaviðgerðir samkvæmt áætlun þeirri sem ríkisstjórnin og stjórn Byggðastofnunar hafa samþykkt og varðaði þetta ár.``
    Það er þess vegna alveg ljóst að það hefur verið skýrt og greinilega tilkynnt hæstv. Alþingi, m.a. í þessum tilvitnuðu ummælum hæstv. viðskrh., að hér var um sérstaka aðgerð að ræða, bundna tilteknum lánum, eins og fram kom í svari mínu.