Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það og tók reyndar undir það í mínu máli með hv. þm. Pálma Jónssyni, 2. þm. Norðurl. v., að flugmálaáætlunin var á sínum tíma tímamótaplagg og einmitt þess vegna rakti ég nokkuð aðdraganda málsins. Ég vildi undirstrika það í minni ræðu að ég tel að samþykkt flugmálaáætlunarinnar á sínum tíma og málafylgja forvera míns, hv. 1. þm. Vestf., hafi verið til fyrirmyndar í því máli og stendur síst til af minni hálfu að draga úr því. Ég held að hér hafi vel til tekist og það hilli undir sambærilega betri tíð í vinnubrögðum hvað uppbyggingu flugmálanna snertir eins og ég tel að hafi gert og hafi fylgt í kjölfar samþykktar langtímaáætlunar um vegagerð á sínum tíma nokkrum árum fyrr, enda þarf ég ekki að taka það fram að ég var einn í hópi þeirra þingmanna sem studdu eindregið áætlunina eins og hún var lögð hér fyrir og lögfest á sínum tíma.
    Í sambandi við rekstrarvanda Flugmálastjórnar get ég tekið undir það að það eru vissulega vonbrigði og alvarlegt að stofnunin hefur nú ekki náð endum saman með sama hætti og áður gerðist og tókst nokkuð vel um árabil. Ég hef þó ástæðu til að ætla að það sé við tímabundna erfiðleika að etja sem við náum fyrir og ég greindi frá því að sérstakur starfshópur hefur nú hafið störf til að fara rækilega ofan í saumana á því máli. Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar rekstur Flugmálastjórnar er sérstaklega skoðaður og er til umræðu. Þar er um nokkuð sérhæfða starfsemi að ræða. Yfirvinna lýtur þar til að mynda öðrum lögmálum en víða annars staðar. Hana er ekki unnt að skera niður með pennastrikum án þess að það geti haft umtalsverðar afleiðingar í sambandi við flugþjónustuna og jafnvel komið inn á öryggisþætti þeirrar starfsemi sem eru, eins og öllum er kunnugt, mjög viðkvæmir. Það er því af ýmsum ástæðum e.t.v. ekki jafnauðvelt að ná í skyndingu með einhverjum pólitískum ákvörðunum markmiðum um sparnað þegar starfsemin lýtur lögmálum af því tagi sem gerist í flugrekstrinum og er mjög samtvinnuð við annars vegar öryggisþætti og hins vegar umsamda þjónustu sem við veitum í alþjóðlegri flugumferðarstjórn. Þetta veit ég að hv. þm. er kunnugt og þarf ekki að útskýra frekar en veldur því að nauðsynlegt er að fara mjög vandlega yfir þessi mál, og ekki er í skyndingu unnt að taka þar ákvarðanir um miklar sviptingar í rekstri. Ég fagna því einmitt sérstaklega í þessu sambandi að tillagan gengur til hv. fjvn. og þar er þá hinn rétti vettvangur til þess í samráði við samgrn. og fjmrn. að fara yfir þessi mál.
    Með hv. 3. þm. Vestf. tek ég undir að Ísafjarðarflugvöllur er auðvitað gríðarlega mikilvægur flugvöllur í þeim landshluta og það er slæmt að ekki skuli unnt, samkvæmt þessari tillögu, að setja meira fjármagn til framkvæmda þar. Brautin þar er að vísu eins og fjölmargar aðrar ákaflega ófullkomin miðað við það sem við stefnum að að flugbrautir verði í lok

flugmálaáætlunar, en það hefur orðið niðurstaðan, byggð á þeirri vinnu, sem ég gerði grein fyrir, og þeirri forgangsröð sem Flugmálastjórn, flugráð og Félag ísl. atvinnuflugmanna settu upp, að endanlegur frágangur flugbrauta er aftarlega í áætluninni. Ýmis önnur öryggisatriði, svo sem flugleiðsögutæki og búnaður við vellina, urðu þar framar. Þetta varð sem sagt sérfræðileg niðurstaða sem á stundum getur virst stangast á við þarfir líðandi stundar hvað flugreksturinn sjálfan snertir, en þar er það oft hið sýnilega, flugbrautirnar og vandræðin sem þar eru á ferðinni, sem menn einblína á. Hinu má þó ekki gleyma að hið ósýnilega getur verið fullt eins mikilvægt og jafnvel enn þá mikilvægara fyrir þá sem að endingu eru ábyrgir fyrir örygginu, flugmennina sjálfa og flugrekendurna.
    En síðan er það svo, hv. þm., að e.t.v. kunna að gerast þeir hlutir að menn vilji taka uppbyggingu flugmannvirkja á Vestfjarðasvæðinu norðanverðu til endurskoðunar. Samgöngubætur á landi geta auðvitað haft þar sambærileg áhrif eins og ég gerði grein fyrir að nú ættu sér stað með Ólafsfjarðarflugvöll. Þar telja menn ekki lengur sömu forsendur fyrir hendi að setja þar fjármagn í uppbyggingu flugvallar eins og áður var þegar komnar eru öruggar samgöngur á landi til miklu fullkomnari flugvalla eins og þar er að gerast. Ég hef þó síður en svo á móti því að hv. fjvn. og þá gjarnan í samráði við sérfræðinga Flugmálastjórnar skoði það hvort unnt væri að færa eitthvað til fjármagn þannig að um meiri fjárveitingar en þær sem þarna getur gæti orðið að ræða til flugvallarins á Ísafirði.
    Ég hygg að ég hafi þá svarað þeim hv. þm. sem beindu sérstaklega máli sínu til mín og hafi mér láðst að geta þess í fyrri ræðu, virðulegur forseti, þá legg ég að sjálfsögðu til að tillögunni verði vísað til hv. fjvn. sem ég veit að mun vinna vel að þessu máli eins og öllum öðrum sem hún tekur fyrir af sinni alkunnu snilld.