Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Þáltill. sú sem hér er til umræðu er flutt til að fá heimild Alþingis fyrir því að Ísland fullgildi samþykkt sem afgreidd var af 69. Alþjóðavinnumálaþinginu sem haldið var árið 1983 og fjallar um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra.
    Hér er um að ræða fyrstu þáltill. sem lögð hefur verið fram á sl. tæpum 10 árum til að afla heimildar til að fullgilda samþykkt sem gerð hefur verið á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO. Þó svo langt sé um liðið frá því að till. til þál. um heimild til að fullgilda ILO-samþykkt hefur verið lögð fyrir Alþingi hafa málefni stofnunarinnar komið reglulega til umfjöllunar hér á Alþingi í tengslum við skýrslu félmrh. um Alþjóðavinnumálaþingið sem síðast var fylgt úr hlaði í Sþ. 24. apríl sl.
    Í ræðu minni við það tækifæri gerði ég grein fyrir markmiði og skipulagi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem er að mörgu leyti sérstakt sé það borið saman við skipulag annarra alþjóðastofnana. Þó má minna á að það sem einkum skapar Alþjóðavinnumálastofnuninni sérstöðu er seta fulltrúa ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks í stjórnum og nefndum stofnunarinnar og þátttaka
þeirra á Alþjóðavinnumálaþinginu. Til skýringar má taka setu á Alþjóðavinnumálaþinginu. Samkvæmt stofnskrá ILO eiga fjórir fulltrúar rétt á að taka þátt í afgreiðslu þingsins, tveir fulltrúar ríkisstjórnar hlutaðeigandi aðildarríkis, einn fulltrúi atvinnurekenda og einn fulltrúi launafólks. Öll starfsemi stofnunarinnar byggist á samstarfi þessara þriggja aðila.
    Í athugasemdum með þáltill. kemur fram að eitt af mikilvægustu verkefnum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf er undirbúningur afgreiðslu Alþjóðavinnumálaþingsins á alþjóðasamþykktum og tillögum sem fyrst og fremst taka til aðstæðna í atvinnulífi og á vinnumarkaði. Alþjóðavinnumálaþingið hefur samtals afgreitt 169 alþjóðasamþykktir og 177 tillögur. Sumar þeirra hafa verið endurskoðaðar með nýjum samþykktum. Ísland hefur fullgilt 14 og stendur á því sviði langt að baki nágrannalöndunum, einkum öðrum Norðurlöndum.
    Líkja má tillögum ILO við reglugerðir sem settar eru með stoð í lögum. Ekki er unnt að fullgilda tillögur og eru þær þar af leiðandi ekki skuldbindandi. Þær eru ítarlegri en samþykktirnar. Litið er á tillögu sem nánari útfærslu á alþjóðasamþykkt eða sem tilmæli til aðildarríkjanna um stefnumótun á ákveðnu sviði.
    Markmið samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er að setja reglur um afmörkuð svið vinnumála, félagsmála eða mannréttinda. Með fullgildingunni axlar aðildarríkið tvíþætta skyldu. Annars vegar að vinna að framkvæmd ákvæða hlutaðeigandi samþykktar og hins vegar að samþykkja að haft sé alþjóðlegt eftirlit með framkvæmdinni. Skv. 22. gr. stofnskrár

Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skal aðildarríki senda alþjóðavinnumálaskrifstofunni reglulega skýrslu um aðgerðir sem það hefur gripið til í því skyni að hrinda í framkvæmd ákvæðum samþykktarinnar. Samkvæmt gildandi reglum skal taka þessar skýrslur saman annað hvert ár og senda alþjóðavinnumálaskrifstofunni. Sérfræðinganefnd á hennar vegum fer yfir skýrslur aðildarríkjanna og birtir niðurstöðu sína í árlegri skýrslu sem er til umfjöllunar í einni af fastanefndum Alþjóðavinnumálaþingsins. Frá því að Ísland gerðist aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1945 hefur félmrn. borið ábyrgð á samningu skýrslna um framkvæmd ILO-samþykkta sem Ísland hefur fullgilt.
    Aðdragandinn að afgreiðslu Alþjóðavinnumálaþingsins á samþykkt nr. 159, um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra, má rekja til ársins 1981. Á nóvemberfundi sínum það ár ákvað stjórnarnefnd ILO að taka starfsendurhæfingu til almennrar umræðu á vinnumálaþinginu árið 1982 þar sem þess yrði freistað að varpa ljósi á allar hliðar þessa málefnis. Árið eftir yrði stefnt að afgreiðslu viðauka við tillögu nr. 99, um atvinnuþjálfun fatlaðra manna, frá árinu 1955. Með þessari ákvörðun var viðurkennd sú breyting sem hafði átt sér stað á 25 árum á viðhorfum til málefna fatlaðra.
    Þótt fullgilding samþykktar ein sér bæti ekki aðstöðu á því sviði sem hún tekur til hvetur hún stjórnvöld til að móta ákveðna stefnu í hlutaðeigandi málaflokki og stuðlar að því að hún sé reglulega endurskoðuð. Þetta gildir ekki síst um samþykkt nr. 159, um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra.
    Í samþykktinni eru sett fram markmið um að stjórnvöld stuðli að því að fatlaðir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í þjóðlífinu með sama hætti og aðrir einstaklingar. Ábendingar um hvernig þetta skuli gert koma fram í II. og III. kafla samþykktarinnar en í þeim felast þær skuldbindingar sem leiða af fullgildingu. Helstu skuldbindingar eru:
    1. Aðildarríki samþykktarinnar skal móta og hrinda í framkvæmd og endurskoða með ákveðnu millibili stefnu ríkisins í starfsendurhæfingu og atvinnumálum fatlaðra.
    2. Umrædd stefna skal miða að því að tryggja að allir hópar fatlaðra hafi aðgang að endurhæfingarstarfsemi við sitt hæfi og að því að fjölga atvinnutækifærum fyrir fatlaða á almennum vinnumarkaði.
    3. Stefnuna skal byggja á þeirri reglu að fatlað launafólk hafi sömu tækifæri og launafólk almennt.
    4. Við framkvæmd stefnunnar skal hafa samráð við samtök atvinnurekenda og launafólks. Einnig skal hafa með í ráðum heildarsamtök fatlaðra og önnur samtök sem starfa fyrir þá.
    5. Hlutaðeigandi stjórnvöld skulu gera ráðstafanir til þess að koma á fót og gera úttekt á starfskynningu, starfsþjálfun, vinnumiðlun, atvinnu og annarri skyldri þjónustu til að gera fötluðum kleift að tryggja sér starf, halda því og vinna sig upp.
    6. Aðildarríki skal stefna að því að tryggja að endurhæfingarráðgjafar og annað menntað starfsfólk

sem sér um starfskynningu, starfsmenntun, vinnumiðlun og atvinnu fatlaðra hljóti þjálfun og sé tiltækt.
    Loks er rétt að minna á að í fullgildingu felst einnig sú kvöð, sem áður er getið, að alþjóðavinnumálaskrifstofunni sé gefin reglulega skýrsla um framkvæmd samþykktarinnar. Samþykktin er birt sem fskj. I með þáltill. Nánari útfærslu á efni samþykktarinnar er að finna í tillögu nr. 168 sem er birt sem fskj. II. Ekki er gert ráð fyrir að breyta þurfi lögum eða setja ný lög til að fylgja eftir ákvæðum samþykktarinnar hér á landi. Í því sambandi má benda á II. og VI. kafla laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.
    Í II. kafla er fjallað um þjónustu og stofnanir fyrir fatlaða. Í 6. gr. kemur fram að hæfing og endurhæfing, verkþjálfun og starfsþjálfun, iðjuþjálfun og atvinnuleit eru meðal þeirrar þjónustu sem stefnt skuli að á hverju svæði.
    Skv. VI. kafla 22. gr. skulu svæðisstjórnir fatlaðra stuðla að atvinnuleit fyrir fatlaða hver á sínu svæði og hafa það hlutverk að afla fötluðum atvinnu við sitt hæfi. Tekið er fram í greininni að atvinnuleitin skuli starfa í nánum tengslum við félmrn., vinnumiðlun hlutaðeigandi sveitarfélags, aðila vinnumarkaðarins og aðra hlutaðeigandi aðila. Í e-lið 8. gr. laga nr. 18/1985, um vinnumiðlun, er tekið fram að meðal hlutverka vinnumiðlunar sé aðstoð við atvinnuleit fatlaðra.
    Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að lagalegur grundvöllur fyrir að hrinda markmiðum samþykktarinnar í framkvæmd er traustur. Hins vegar hefur komið í ljós að með erfiðara ástandi á vinnumarkaðinum hefur tækifærum fatlaðra til að fá vinnu fækkað. Vegna þess var ákveðið í félmrn. að ráða starfsmann tímabundið til að gera úttekt á atvinnumálum fatlaðra, bæði að því er varðar almenna vinnumarkaðinn og verndaða vinnustaði. Sérstakur fimm manna starfshópur verður þessum starfsmanni til ráðuneytis, en í þessum starfshópi eiga sæti fulltrúar ASÍ, VSÍ, samtaka fatlaðra, Sambands ísl. sveitarfélaga og frá félmrn. Verkefnið er að gera úttekt á stöðunni í atvinnumálum fatlaðra og að lokinni þeirri úttekt hefur starfshópnum verið falið að leggja fram tillögu um úrbætur og stefnu í atvinnumálum fatlaðra. Ég lít því svo á að við séum vel í stakk búin til að standa fyrir samþykkt sem hér er mælt fyrir og sú vinna sem í gangi er sé undirbúningur að þeirri stefnumótun sem alþjóðasamþykkt nr. 159 mælir fyrir um í starfsendurhæfingu og atvinnumálum fatlaðra.
    Ég vil geta þess að umrædd samþykkt var send fjórum aðilum til umsagnar, Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Sambandi ísl. sveitarfélaga og samstarfsnefnd um málefni fatlaðra. Í samstarfsnefndinni eiga sæti fulltrúar Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Landssamtakanna Þroskahjálpar. Alþýðusamband Íslands og samstarfsnefnd um málefni fatlaðra mæla

með því að samþykktin verði fullgilt fyrir Íslands hönd. Vinnuveitendasamband Íslands mælir hins vegar gegn fullgildingu. Meginrök Vinnuveitendasambandsins eru þau að samþykktin bæti ekki réttarstöðu fatlaðra. Umsögn barst ekki frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Hinn 1. jan. 1989 höfðu 23 ríki fullgilt samþykktina, þar á meðal Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð.
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að þáltill. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn.