Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að beðið er um þessa umræðu eru sífelldar yfirlýsingar ráðamanna þjóðarinnar, þó einkum hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. í fjölmiðlum um erfiðleika Sambands ísl. samvinnufélaga. Ég er hér með útskrift úr Morgunblaðinu frá 17. sept., Morgunblaðinu frá 6. jan. og DV frá sama degi og nægir að lesa það sem þar kemur fram, en þar segir hæstv. forsrh. orðrétt:
    ,,Þetta er grafalvarlegt mál fyrir þjóðarbúið allt. Ég endurtek, málið er grafalvarlegt. Það hefur ekki komið til kasta ríkisstjórnarinnar, ekki formlega, en hlýtur að gera það ef svo heldur fram sem horfir. Allt þetta mál varðar alla íslensku þjóðina, ekki síst vegna þess að mikið af erlendum lánum Sambandsins eru ekki með neinum veðum og þjóðin getur bara varla látið þau lán falla. Hver yrði staða landsins erlendis eftir það?``
    Ég rifja jafnframt upp að hæstv. fjmrh. sagði frá því fyrir um það bil ári að það stefndi í gjaldþrot Sambandsins eftir 12--16 mánuði. Hann var spurður í DV 6. jan. um það mál og sagði orðrétt: ,,Það hefur ekkert gerst sem breytir þeirri skoðun minni sem fram kom í ræðunni á Alþingi í fyrra.``
    Tíminn, málgagn Framsfl., sagði sama dag, 6. jan., orðrétt: ,,Jafnframt er ríkisstjórnin væntanlega einn aðili málsins hvað varðar samninga við erlenda lánardrottna, hvort sem tilboði Landsbankans verður tekið eða hafnað.``
    Þá vil ég geta þess að það hefur verið staðfest að hæstv. fjmrh. var sá sem fyrstur orðaði það við bankastjóra Landsbankans, þegar hann boðaði þá til sín, að Landsbankinn falaðist eftir kaupum á hluta Sambands ísl. samvinnufélaga í Samvinnubankanum. Og það liggur enn fyrir staðfest að hæstv. viðskrh. sagðist hinn 6. jan. sl. í samtali við forráðamenn Sambands ísl. samvinnufélaga ætla að beita sér fyrir vaxtagreiðslum á kaupverði Landsbankans frá 1. sept. til 1. jan. Þess yfirlýsing varð til þess að tilboð Landsbankans var samþykkt af meiri hluta stjórnar SÍS.
    Þá hefur það gerst áður en fjárlög voru samþykkt fyrir yfirstandandi ár að hæstv. ríkisstjórn ákvað að kaupa aukinn hlut í Aðalverktökum sf. Hv. formaður fjvn., Sighvatur Björgvinsson, hefur lýst því yfir að ekki þurfi að koma til kasta Alþingis af þeim sökum. Ég tel að það sé á misskilningi byggt, enda eru Aðalverktakar sameignarfélag en ekki hlutafélag. Af þessum ástæðum, m.a., vil ég spyrja hæstv. forsrh. og aðra þá hæstv. ráðherra sem hér eru viðstaddir eftirfarandi spurninga og óska svara við þeim:
    1. Ætlar hæstv. ríkisstjórn að aðstoða Samband ísl. samvinnufélaga með sérstökum fjárhagslegum aðgerðum?
    2. Hefur Sambandið óskað eftir einhvers konar afskiptum ríkisvaldsins við losun eigna og hver eru þau afskipti?
    3. Hafa forustumenn SÍS beðið um ríkisábyrgð á erlendum lánum fyrirtækisins?
    4. Hvers vegna hafði hæstv. ríkisstjórn afskipti af

sölu SÍS á hlut sínum í Samvinnubankanum?
    5. Hvers vegna vill hæstv. ríkisstjórn kaupa meiri hluta í Aðalverktökum?
    6. Verður frv. um það lagt fyrir þingið?
    7. Hvaða ráðuneyti á að fara með hlut ríkisins í stjórn Aðalverktaka ef af samningi verður?
    8. Hve mikils eru eignir Aðalverktaka metnar, en það er ljóst að viðskiptavildin er búin til með bréfi utanrrn. en samkvæmt því hafa Aðalverktakar sf. einokun á verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli?