Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Hæstv. utanrrh. hefur dvalið langdvölum erlendis og að því er virðist með þeim afleiðingum að hann er hættur að skilja það sem sagt er hér á hinu háa Alþingi Íslendinga. A.m.k. ætla ég honum ekki að snúa út úr máli manna vísvitandi, það hlýtur að vera af öðrum ástæðum og þá sennilega þessum.
    Ég hafði engin orð um það að hæstv. viðskrh. hefði gefið einhver loforð um skýrslu. Hér liggur fyrir samkvæmt ákvæðum þingskapa beiðni um skýrslu um fyrirhuguð kaup Landsbankans á hlut SÍS í Samvinnubankanum. Þeirri skýrslu er hæstv. viðskrh. rétt og skylt að skila hér inn á Alþingi og óskað hefur verið eftir því að umræður fari fram um hana. Hér þarf engin loforð, hér þarf það einungis að gerast að hæstv. ráðherra uppfylli skyldur sínar samkvæmt þingsköpum. Ég hafði hins vegar vænst þess og búist við því að hæstv. viðskrh. hefði lokið þessu verki þannig að unnt væri að ræða skýrsluna þegar í þessari viku. Það kom mér því á óvart að það skyldi ekki hafa gerst. Ég vona að ekki verði mikill dráttur þar á. Ummæli hæstv. utanrrh. um þetta eru hreinn útúrsnúningur, væntanlega vegna þess að hann hefur ekki skilið vegna utanlandsferða það sem hér var sagt. Hv. 1. þm. Reykv. hefur svo svarað öðrum útúrsnúningum hæstv. utanrrh. Það liggur hér allt fyrir um frumkvæði hæstv. ríkisstjórnar að þessu máli. Það liggur hér fyrir efnislega hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur reynt að hækka það tilboð sem Landsbankinn gerði í þessi hlutabréf. Ekki síst fyrir þá sök er mikilvægt að þessi umræða fari hér fram og ég vænti þess að það gerist efnislega þegar skýrslan kemur til umræðu. En ég hefði raunverulega átt von á því að hæstv. utanrrh. bæðist svo afsökunar á þeim ótilhlýðilegu dylgjum í garð hv. 1. þm. Reykv. um störf hans í bankaráði Landsbankans. Viðskiptamenn Landsbankans eiga ekki viðskipti við bankaráð heldur bankastjóra og það ætti hæstv. utanrrh. að vita.