Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Þetta mál er þess eðlis að það mundi eilítið minnka misréttið í þjóðfélaginu ef það yrði samþykkt. Þetta er spor í þá átt og gæti líklega í mörgum tilvikum reynst mjög æskilegt spor eins og málum hjá okkar þjóð er nú háttað. En því virðist fara mjög fjölgandi að hjón slíta samskiptum og þess vegna bendir allt til þess að þessir einstaklingar, sem eins og kom fram hjá hv. frummælanda hér áðan eru venjulega konur, sem eru þá með börnin þó að hitt sé að vísu til, og mig undrar að það skuli nú ekki vera meira heldur en kom fram í máli frummælanda, af því að ég veit um nokkuð mörg tilvik þar sem feður eru með börn þannig að ég hafði það á tilfinningunni að þeir væru miklu fleiri en hér hefur fram komið og skýrslur sýna.
    Ég vil sem sagt mæla með því að þetta frv. verði samþykkt en það þarf að skoða það nánar. Ég hef ekki haft aðstæður til þess að gera það, en frv. í þessa veru ættu nú hv. þm. að manna sig upp í að samþykkja.