Útbreiðsla svæðisútvarps á Austurlandi
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Svæðisútvarpið á Austurlandi nær frá Vopnafirði suður til Djúpavogs. Enn þá vantar fjóra senda í dreifikerfi Rásar 2 svo það nái til sama svæðis og FM-dreifikerfi Rásar 1. Það vantar senda í Álftafjörð, Lón, Almannaskarð og í Borgarhöfn. Uppsetning þessara senda hefur enn ekki verið tímasett en hún kostar 5,6 millj. kr. Það sem liggur nú fyrir að gera til stækkunar útbreiðslusvæðis svæðisútvarps Austurlands er eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi að leigja hljóðflutningslínu frá Póst- og símamálastofnun frá Egilsstöðum til Hafnar í Hornafirði og tengja þannig Höfn svæðisútvarpinu. Leiga á ári á þessari hljóðflutningslínu frá Póst- og símamálastofnun er 1,1 millj. kr. og þessi lína verður tengd núna á fyrstu mánuðum þessa árs. Einnig er áformað að setja upp endurvarp á Heiðarfjalli sem tæki á móti merki frá sendi Rásar 2 á Gagnheiði og endursendi það til Borgarfjarðar. Þessi áætlun hefur ekki verið tímasett en framkvæmdin við hana kostar 1,4 millj. kr.
    Þetta eru þau svör sem borist hafa frá Ríkisútvarpinu og eins og fram kemur í þeim liggur það fyrir að þéttbýlissvæðið í suðurhluta kjördæmisins mun tengjast dreifikerfi svæðisútvarpsins með þeim hætti að hljóðflutningslína verður tekin á leigu frá Póst- og símamálastofnun og hún verður tengd núna þessa mánuðina.
    Í framhaldi af þessari fsp. hv. 3. þm. Austurl. sem ég hef nú svarað mun ég óska eftir því við Ríkisútvarpið að fá tímasetta áætlun um framkvæmd þeirra þátta áætlunarinnar sem enn er eftir að tímasetja en gerð hefur verið kostnaðaráætlun um.