Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þau svör sem hann hefur veitt hér. Eins og kom fram í svari hans þá eru nokkur stór svæði á Austurlandi sem farsíminn nær ekki til. Það hagar þannig til að þetta eru svæði þar sem er mjög mikil umferð ferðamanna og vaxandi eins og á öræfum Austurlands þar sem hefur orðið sprenging, ef svo má segja, í umferð og eins má nefna Borgarfjörð eystri. Þar er mjög vaxandi ferðamannaumferð.
    Ég fagna því að þarna eru fyrirhugaðar úrbætur og vona að þær komi að gagni. Eins og ég sagði áðan í upphafi máls míns er ekki auðvelt mál að búa svo um hnútana að hægt sé að ná í farsíma á hverjum einasta vegarspotta, en það er nauðsynlegt, úr því að þetta tæki er búið að ná svo almennri notkun sem raun er og þetta er afar mikið öryggistæki, að það nái til sem allra flestra landsvæða, ekki síst þar sem mikil umferð er og hætta á slysum og óhöppum af þeim sökum.