Störf ríkisskattanefndar
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin og vil geta þess að fsp. er ekki flutt til að gagnrýna einn eða neinn. Mér þótti hins vegar nauðsynlegt að þessar tölur kæmu upp á borðið því að miklir hagsmunir eru við það bundnir að ríkisskattanefnd vinni bæði fljótt og vel í að úrskurða þau mál sem til hennar er vísað.
    Það kemur í ljós að það eru samtals fjögur mál frá árinu 1987 sem enn er ólokið, sem mér finnst nú satt að segja fjórum málum of mikið. Það kemur líka í ljós að það eru 47 mál frá árinu 1988 sem eftir er að ganga frá eða eftir er að úrskurða. Nú er hins vegar allmikið af málum frá árinu 1989 og væntanlega er ekkert óeðlilegt við það.
    Mér er auðvitað ljóst af þessum tölum, þar sem fram kemur að óúrskurðuð kærumál nú þann 19. jan. séu samtals 1161, að það berst mikið af málum til ríkisskattanefndar. Engu að síður tel ég nauðsynlegt að þannig sé gengið frá málum vegna þeirra miklu hagsmuna sem tengjast því að þessir úrskurðir gangi fljótt og vel að meðferð þessara mála sé flýtt eins og mögulegt er.