Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég mun reyna að vera afar kurteis og eins fjarri öllum stóryrðum, dylgjum eða öðru slíku og ég framast kann ef það má hægja hug hv. síðasta ræðumanns. ( Gripið fram í: Það er skemmtileg tilbreytni.) Eins og ég sagði byggði samgrn. sína afstöðu gagnvart því að leyfa skráningu skipsins á umsögnum og eindregnum meðmælum tveggja ráðuneyta og ég las þau upp hér áðan. Ef menn vilja heyra aftur orðalag þar sem vikið er að fiskveiðikvótunum, þá segir svo í bréfinu frá sjútvrn., dags. 27. jan. 1989, með leyfi forseta:
    ,,Á síðasta ári fengu þessir aðilar úthlutað [þ.e. útgerð skipsins] 40 þúsund tonna þorskkvóta af fiskveiðiráði Alaska. Þessa úthlutun reyndist ekki unnt að nýta þar eð áform um viðeigandi vinnsluskip brugðust. Nú hefur samsvarandi kvótaúthlutun verið endurnýjuð fyrir árið 1989.``
    Hér er eingöngu talað um þennan tiltekna þorskkvóta og það er sjálfsagt hægt að skilja það á ýmsa vegu, hvort þarna sé um að ræða veiðikvóta eða vinnslukvóta. Ekki er tekið af skarið um það í bréfinu, en það er ljóst að samgrn. var í þeirri trú að engir meinbugir væru á því að nýta þessar heimildir til vinnslu við strendur Alaska. Því var ekki kunnugt um að svo væri, hvorki af umsögnum ráðuneyta né heldur kom það fram hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins þegar þeir sóttu um skráningu. Þvert á móti var að skilja á þeirra máli að eina hindrunin sem í vegi væri væri sú að skipið yrði að skrá á Íslandi og það yrði að sigla undir íslenskum fána til þess að það gæti nýtt sér réttindi sem íslenskum aðilum eru ásköpuð í þessum samningi og í því ljósi var þessi skráning heimiluð. Ég tel það hins vegar ljóst og hafi allan tímann verið að öll áhætta í sambandi við þennan rekstur er á herðum fyrirtækisins sem af fúsum og frjálsum vilja tekur þá ákvörðun og áhættu að reyna að fara í þessa atvinnustarfsemi.