Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta það sem hæstv. utanrrh. sagði. Ég sagði í ræðu minni að hugsanlega ættu viðkomandi útgerðaraðilar bótakröfur á hendur íslenska ríkinu. Ég hef óskað eftir því í framhaldi af því sem ég sagði að lögð verði fram fyrir hið háa Alþingi formleg skýrsla um afskipti eða afskiptaleysi íslenskra stjórnvalda í þessu máli.
    Að lokum, virðulegi forseti. Það er alrangt hjá hæstv. utanrrh. ef hann heldur að við séum hérna sjálfra okkar vegna. Við erum hérna fyrst og fremst til þess að gæta hagsmuna fólksins og þjóðarinnar. Ef stjórnvöld gera mistök eiga þegnarnir rétt að sækja í hendur stjórnvalda fyrir það sem þau kunna að hafa ranglega gert. Sama gildir gagnvart hæstv. utanrrh.