Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það eru bara örfá atriði sem ég vil benda á í þessu sambandi. Sannleikurinn er sá að ekkert kerfi sem hefur verið rætt um gengur upp miðað við það sem mörg okkar stefna að, ekkert kerfi. Og það er alveg rétt að sumt í því kerfi sem nú er er ólíðandi. T.d. eru nokkuð mörg dæmi þess að þegar menn sem hafa verið í mörgum störfum hætta þá stórhækka þeir í launum þegar þeir fara á eftirlaunaaldur. Það væri hægt að koma fram með dæmi um það. Auðvitað er þetta alveg ólíðandi.
    Í öðru lagi hafa margir hv. þm. áhuga á því að þeir sem eru ekki í lífeyrissjóði, við skulum segja t.d. húsmæður, komi einhvern veginn inn í þá breytingu sem yrði gerð. Það er í raun og veru verið að gera þeim konum, sem eru að ala upp börn sín og hugsa um aldraða í heimahúsum, lágt undir höfði. Þeirra mál verða ekki leyst með staðgreiðslukerfi. Það verður að huga í allar áttir þegar menn ræða um svona alvarlegt mál. Og í þessari tillögu felst einnig að lítið kemur í bækur þeirra sem ekki taka bein laun.
    Við þurfum sem sagt að finna lausn sem er viðunandi. En ég kom nú aðallega upp hér vegna þess sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hefur tvísagt hér í þessum umræðum, að það sem bankarnir tækju væru 6%, vaxtamunurinn þyrfti að vera 6%. Þetta er alveg ný tala fyrir mér og ég er búinn að vera nokkuð lengi ... ( GHG: Er það hærra kannski? Í Búnaðarbankanum?) Það er mikið lægra í þeim banka sem ég þekki best. ( GHG: Hvað er það?) Ég man það ekki nákvæmlega en það eru eitthvað rúmlega 4%, enda sjá menn að það væri nú meira en lítið ef þetta væri rétt. Ég skal ekkert segja um hvernig þetta er í Íslandsbanka. ( GHG: Var. Ég sagði: Á síðasta ári.) Var og er, það getur vel verið, ég veit ekkert um það, ef það er mið af því sem hv. þm. hefur. En þetta er áreiðanlega ekki í ríkisbönkunum en um þetta er hægt að fá óyggjandi upplýsingar og á að gera það.