Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í ræðu hæstv. frummælanda eru þessi mál í miklum ólestri. Þeir sem ferðast um landið, ekki síst um öræfin, sjá hvernig víða eru gróðurskemmdir vegna þess að bílar fara utan við hina alförnu leið. Auðvitað er ekki hægt að fullyrða neitt um það hvort þarna eru útlendingar að verki eingöngu, mér þykir það nú ekki líklegt, en ég hef séð að þeir skirrast ekkert við að fara utan vegar og það verður að koma í veg fyrir eftirlitsleysi með slíkum ferðum. Það er líka mikið öryggi í því að fararstjóri eða leiðbeinandi tali bæði íslensku og eins það mál sem flestir af ferðamönnunum tala, því ýmislegt kemur fyrir á ferðum um öræfin. Í sjálfu sér ætti ekki neinn bíll að fara einsamall eða ætti a.m.k. að hafa farsíma svo hægt sé að ná í hjálp ef eitthvað ber út af.
    Nú sýnir reynslan að erlendum ferðamönnum sem sækja til landsins hefur fjölgað mikið. Margir þeirra eru að skoða þetta land, gróðurinn, jarðfræðina og hvað eina sem hér ber fyrir auga. Það er líka mikils virði fyrir ferðamennina að hafa leiðbeinanda sem getur sagt þeim og sýnt hvar er mest að sjá og um leið koma í veg fyrir skemmdir. Meira að segja hef ég orðið var við það á þeim svæðum þar sem er þó eftirlitsmaður að reglur eru brotnar ef viðkomandi starfsmaður er ekki á staðnum, hefur eitthvað fært sig til, hefur þurft að fara með einhverjum eða líta eftir einhverju. Ég held að það sé tímabært að taka á þessu máli. Að vísu má kannski segja að gallinn á þessari tillögu sé sá að þetta eru ekki lagafyrirmæli, þetta er tillaga. En ég hef aðeins litið á það og stend í þeirri trú að það sé á færi hæstv. samgrh. að breyta reglugerð þannig að setja það skilyrði að íslenskur fararstjóri eða leiðbeinandi sé í öllum slíkum ferðum. Ef fjöldi erlendra ferðamanna til landsins eykst mikið þá er bara háski hér á ferðum.
    Ég fór t.d. mikið um Jökulsárgljúfur í sumar beggja megin. Þar eru verulegar skemmdir að vestan og kemst sauðfé þó ekki inn á það svæði. Það er mikið minna að austanverðu þar sem er ógirt en það er ekki hægt að komast þar nema á jeppum eða torfærubílum. Þetta var dálítið merkileg reynsla að sjá muninn og það var bara fljótið á milli, girt öðrum megin en átroðningurinn er orðinn það mikill á þessum stöðum að háski er að.
    Ég vonast til þess að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar hraði störfum og þessi þáltill. fái afgreiðslu á þessu þingi því við verðum að huga vel að landinu okkar og láta það ekki líðast að vegna eftirlitsleysis verði gerð mikil spjöll á því.