Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það var algjör misskilningur hjá hv. 5. þm. Reykv. að orð mín hafi fallið vegna þess að ég hafi verið með einhverja skoðanakönnun í huga. Það er fjarri því. Mér skilst að á Stöð 2 hafi verið skoðanakönnun í gær sem hafi komið glæsilega út fyrir Sjálfstfl. en hún sneri að væntanlegum borgarstjórnarkosningum. Sjálf hef ég enga möguleika á að fylgjast með því sem gerist á Stöð 2 því skilyrðin heima hjá mér eru þannig að þar sjáum við ekki Stöð 2 og getum ekki fylgst með því sem þar gerist. Það er því algjör misskilningur, og var ekki í tilefni af skoðanakönnunum að ég lét þessi orð falla. Þetta eru aðeins staðreyndir og þetta er ekki neitt sem er nýorðið, heldur staðreyndir. Ég er alveg sammála hv. þm. í því að menn eiga ekki að miklast af slíku, og það er svo langt í frá að við sjálfstæðismenn gerum það. Við miklumst ekki af neinu. Það eru staðreyndirnar sem tala.