Húsameistari ríkisins
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í orðaskipti þeirra flokksbræðra, hv. 5. þm. Suðurl. og hæstv. forsrh., um húsameistaraembættið. En vegna þeirra orða sem hér féllu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar get ég sem samgrh. ekki látið hjá líða að upplýsa hv. alþm. um það að einn mjög alvarlegur ágalli á þessari byggingu, sem ég fæ ekki kallað annað en hönnunarmistök, er enn óleystur. Það er sú staðreynd að innanlandsflugi verður tæpast við komið um bygginguna eins og hún er úr garði gerð. Það vandamál er enn óleyst og er mjög bagalegt að ekki er unnt að starfrækja innanlandsflug fyrir viðkomandi landsvæði um þessa byggingu eins og æskilegt hefði verið né heldur sýnist auðvelt að koma því við að tengiflug frá öðrum stöðum á landinu í tengslum við millilandaflugið geti farið þarna fram með eðlilegum hætti. Þetta er mikill höfuðverkur sem enn er óleystur. Var þó á það bent meðan byggingin var í hönnun, m.a. af Flugleiðum og fleiri aðilum, að mikil nauðsyn væri á því að byggingin væri gagngert hönnuð og byggð með það í huga að þessu mætti koma við.
    Ég vildi láta þessar upplýsingar koma hér fram, virðulegi forseti, vegna þeirra ummæla sem féllu um hið annars fallega mannvirki Flugstöð Leifs Eiríkssonar.