Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Fyrstu spurningu svara ég með því að upplýsa að þetta var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar 29. des. sl. Um skoðanir stjórnarflokkanna er rétt að spyrja forsvarsmenn flokkanna. Þeir lýsa því betur en ég og um umræður í ríkisstjórn veit hv. þm. að ekki er fjallað um opinberlega þannig að ég mun ekki greina frá þeim hér. Hins vegar er öllum ljóst að það eru dálítið mismunandi áherslur í þessu máli og sumir telja að það hefði átt að taka dýpra í árinni. Hitt er svo einnig alveg ljóst að hæstv. utanrrh. fer með forræði í þessu máli og ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa eina málsgrein úr hans fréttatilkynningu. Þar segir:
    ,,Íslensk stjórnvöld árétta þá stefnu að leysa beri alþjóðleg deilumál með friðsamlegum hætti í samræmi við Sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Á grundvelli þessarar meginreglu þjóðaréttar er ástæða til að harma að bandarísk stjórnvöld hafi talið sig knúin til að beita vopnavaldi í samskiptum sínum við Panama.``
    Við þetta er út af fyrir sig engin athugasemd gerð. Eins og ég sagði hefðu sumir viljað taka þar dýpra í árinni. Þarna er því andmælt að hervaldi er beitt.
    Af því að ég geri ekki ráð fyrir því að taka til máls varðandi fsp. sem hv. þm. beinir til hæstv. utanrrh. vil ég jafnframt geta þess hér að ég kvaddi sendiherra Bandaríkjanna á minn fund 17. jan. sl. og átti við hann ítarlegar og ágætar viðræður um þetta mál og þau mál sem hér hefur borið á góma, m.a. um viðtal við hann í Morgunblaðinu. Ég tel að málin hafi þar skýrst mjög. Ég gerði þar grein fyrir þeim athugasemdum sem ég gerði hér á þingi og ég tel að við höfum haft fullkominn skilning á því sem þar var um að ræða og engar eftirstöðvar eftir þau ummæli sem hér voru viðhöfð. Ég tel að þar hafi málin verið skýrð og leyst á þann máta sem best verður kosið.