Stjórnarráð Íslands
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Frsm. meiri hl. allshn. (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. allshn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 73 frá 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands.
    Nefndin hefur fjallað um frv. sem var lagt hér fram á sl. hausti og sent það til umsagnar fjölmargra aðila. Umsagnir bárust frá Bjarna Guðleifssyni, Búnaðarfélagi Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, eiturefnanefnd, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, félmrn., Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Geislavörnum ríkisins, heilbr.- og trmrn., Heilbrigðisfulltrúafélagi Íslands, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Hollustuvernd ríkisins, iðnrn., Jarðfræðafélagi Íslands, landbrn., Landgræðslu ríkisins, landlækni, röntgendeildum Landspítalans, Borgarspítalans og Landakotsspítala, Landvernd, Líffræðistofnun Háskólans, menntmrn., Náttúruverndarráði, Orkustofnun, Rannsóknaráði ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, samgrn., Siglingamálastofnun ríkisins, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Veðurstofu Íslands, Vinnueftirliti ríkisins, vísindaráði, yfirdýralækninum í Reykjavík og Þjóðminjasafni Íslands.
    Flestir þessir aðilar eru sammála um að bæta þurfi yfirstjórn umhverfismála hérlendis, en greinir á um leiðir að því markmiði. Þess vegna telur meiri hl. nefndarinnar rétt að stofnað verði sjálfstætt umhverfisráðuneyti þar sem víðtæk samstaða virðist vera um slíka ákvörðun. Með þessu frv. er ekki ákveðið
hvaða málaflokkar eða stofnanir skuli heyra undir umhverfisráðuneyti, heldur eingöngu að það skuli stofnað og að umhverfisráðherra skipi nefnd til að semja frv. til laga um umhverfisvernd. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að fella brott úr frv. seinni tölulið ákvæðis til bráðabirgða, en meiri hl. nefndarinnar telur rétt að ræða það í tengslum við 128. mál, um yfirstjórn umhverfismála. Einnig þarf að breyta gildistökuákvæði frv., en í því er gert ráð fyrir að lögin öðluðust gildi um síðustu áramót. Flytur meiri hl. nefndarinnar því breytingartillögur á sérstöku þingskjali og leggur til að frv. verði samþykkt þannig breytt.
    Þess má geta að til umsagnar voru send 128. mál, sem fjallar um breytingar á lögum um náttúruvernd og um Siglingamálastofnun ríkisins og á ýmsum öðrum lögum er varða yfirstjórn umhverfismála, og 4. mál sem fjallar um samræmda yfirstjórn umhverfismála og var lagt fram af þm. Sjálfstfl. á sl. hausti.
    Eins og fram kemur í nál. leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. til laga um Stjórnarráð Íslands verði afgreitt sérstaklega með brtt. sem fela það í sér að fella niður annað bráðabirgðaákvæði frv., um endurskoðun laga um Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Það þykir eðlilegt, og meiri hl. er samþykkur því, að ræða það í tengslum við 128. mál og 4. mál sem enn þá eru til umræðu í nefndinni og nefndin telur að þurfi nánari skoðunar við í

samræmi við þær umsagnir sem bárust.
    Nefndin klofnaði um þessa afstöðu og mun minni hl. nefndarinnar gera grein fyrir áliti sínu sem kemur fram á sérstöku þingskjali, þskj. 534.
    Meiri hl. nefndarinnar telur nauðsyn bera til að ræða nánar verkefni umhverfisráðuneytisins þar sem um það efni eru miklu skiptari skoðanir. Það kemur fram í þeim umsögnum sem til nefndarinnar hafa borist og það tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma enn þó vel verði unnið að því máli og meiri hl. telur, og ég held að minni hl. sé þeirrar skoðunar einnig þó í odda hafi skorist út af afgreiðslu þessa máls, að nauðsynlegt sé að skoða þær umsagnir nánar og ræða við ýmsa aðila í því sambandi.
    Meiri hl. telur þó að þetta ætti ekki að tefja ákvörðun um það grundvallaratriði að stofna ráðuneyti umhverfismála og skapa þessum málaflokki þar með styrkari sess í stjórnkerfinu en verið hefur.
    Undir álit meiri hl. skrifa Jón Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Björn Gíslason og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.