Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hæstv. viðskrh. fór nokkrum orðum um það í ræðu sinni að sumum reyndist erfitt að eigna sér þessa kjarasamninga. Ég er nú þeirrar skoðunar að kjarasamningar verði aldrei eignaðir öðrum en þeim sem aðild eiga að þeim, launþegum og vinnuveitendum. Hversu oft sem stjórnvöld hafa, vegna óska þessara aðila, þurft að koma til samninga, þá er niðurstaða þessara samninga á ábyrgð aðilanna sjálfra og verður ekki eignuð öðrum.
    Þegar hæstv. viðskrh. heldur því síðan fram að það sé rangt að launafólkið hafi unnið varnarsigur gegn stjórnarstefnunni skýtur nokkuð skökku við. Ég skil hins vegar hæstv. ráðherra. Auðvitað þarf hann að freista þess að grípa til varna fyrir þá ríkisstjórn sem hann situr í. Hitt liggur fyrir að núv. hæstv. ríkisstjórn samþykkti fjárlög á tilteknum efnahagslegum forsendum og gaf út þjóðhagsáætlun á tilteknum efnahagslegum forsendum, þ.e. stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og fjármálum. Þar var ráð fyrir því gert að kaupmáttur launafólks mundi rýrna um 5% á þessu ári, fimm sinnum meira en áætlað fall landsframleiðslu nemur. Það sem launafólkið hefur gert í þessum kjarasamningum er að koma í veg fyrir þetta mikla kaupmáttarhrap, svona langt umfram fall landsframleiðslunnar, og ná um það samningum við atvinnurekendur. Ég segi: Þetta er varnarsigur gegn ríkisstjórnarstefnunni sem svo nýlega hefur verið birt og ákveðin hér á hinu háa Alþingi af stjórnarmeirihlutanum. Hæstv. ráðherrar mega svo kalla hlutina hvaða nafni sem þeir vilja. Þetta eru hins vegar þær einföldu staðreyndir sem við blasa.
    Það vakti hins vegar mesta athygli í þessum umræðum að hæstv. forsrh. skyldi ekki við upphaf þeirra svara þeim spurningum sem helst brenna á ríkisstjórninni og því síður gerði hæstv. fjmrh. það í sinni ræðu. Miklu fremur var hún einhvers konar veruleikaflótti. Þegar hæstv. ríkisstjórn stendur frammi fyrir því að geta ekki svarað hinu háa Alþingi né heldur
fólkinu í landinu þeim tilteknu ákveðnu spurningum sem að henni er beint vegna þessara samninga fer hæstv. fjmrh. á sitt hefðbundna flug aftur í tímann með hinum hefðbundnu upprifjunum og rangfærslum um atburði á liðnum tíma af því að hann getur engu svarað um þá hluti sem hæstv. ríkisstjórn á að svara í nútímanum. Það er venja fjölmiðla að flytja þessa ræðu hæstv. fjmrh. aftur og aftur með öllum rangfærslunum og væri sannarlega ástæða til að fara nokkrum orðum af þeim sökum um liðna atburði, um fyrri samninga aðila vinnumarkaðarins og samskipti þeirra við stjórnvöld vegna þeirra rangfærslna sem hæstv. fjmrh. hefur haft í frammi.
    Við búum í nokkuð flóknu þjóðfélagi og við búum við ákveðna erfiðleika í íslenskri hagstjórn. Það sem hefur lengi hrjáð okkur eru mjög tíðar sveiflur, sveiflur í aflabrögðum og sveiflur í markaðsverði á erlendum mörkuðum. Þessar sveiflur hafa komið með ákveðnu millibili og stundum orðið til þess að hér

hafa orðið krappar lægðir í efnahagslífinu. Þegar hæstv. fjmrh. talar um liðna tíð gleymir hann alltaf þessum meginvanda í íslensku efnahagslífi og það er ákaflega tilgangslítið að setja hér á stólparæður ef menn vilja ekki horfast í augu við þennan veruleika sem við höfum verið að glíma við og verðum væntanlega að glíma við um mörg ókomin ár.
    Af hálfu hæstv. fjmrh. var minnst á aðstöðu atvinnuveganna á árinu 1988 og sannarlega var hún erfið, en hvers vegna? Hvers vegna voru útflutningsatvinnugreinarnar í þeirri erfiðu stöðu sem raun ber vitni á því ári? Um það er ekki deilt að það var ærinn vandi sem atvinnugreinarnar stóðu frammi fyrir, og ekki síst útflutningsgreinarnar. Það sem gerst hafði var þetta: Á haustmánuðum 1987 byrjaði þróun sem er ekki ókunn í okkar hagkerfi. Bandaríkjadalur byrjaði að falla og verð á erlendum mörkuðum fór lækkandi og þessi þróun hélt áfram, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, fram á haustið 1988. Það seig stöðugt á ógæfuhliðina vegna þessara ytri skilyrða útflutningsframleiðslunnar. Og vandinn varð meiri og meiri eftir því sem mánuðirnir liðu. Á sama tíma stóðum við frammi fyrir því að kjarasamningar voru opnir, og sú ákvörðun var tekin haustið 1987 í samráði við forustumenn útflutningsgreinanna að breyta ekki gengi íslensku krónunnar til samræmis við þá nýju stöðu sem upp var komin fyrr en í tengslum við niðurstöðu kjarasamninga. Þetta gerðist í febrúarmánuði árið 1988. Þá náðust kjarasamningar og í beinum tengslum við þá var ákveðin breyting á gengi krónunnar. Þær forsendur sem lágu til grundvallar þessari niðurstöðu héldu svo áfram að breytast. Bæði hélt verðið áfram að lækka og bandaríkjadalur áfram að lækka og þær kauphækkanir sem um var samið í febrúar 1988 reyndust þegar komið var undir vor miklum mun meiri. Þetta var sá vandi sem útflutningsgreinarnar stóðu frammi fyrir.
    Um það var hins vegar ágreiningur í þáv. ríkisstjórn hvernig við ætti að bregðast. Mitt mat var það að ekki væri unnt að taka á þessum vanda á annan veg en að breyta gengi krónunnar. Ég hygg að það verði engin dæmi fundin um það að sjálfstæðismenn í þáv. ríkisstjórn hafi flutt um það tillögur að fara hér einhverjar gengiskollsteypuleiðir. Þær tillögur eru ekki til. En skýrt
vildum við bregðast við á þann veg að breyta gengi krónunnar því að á annan hátt var ekki unnt að koma við þeirri leiðréttingu sem nauðsynleg var. Um þetta varð ágreiningur í maí og aftur haustið 1988 þegar við sjálfstæðismenn lögðum til að gengi krónunnar yrði breytt en framsóknarmenn höfnuðu því alfarið og sögðu að það kæmi ekki til greina og sömuleiðis Alþfl. Það var grundvöllur stjórnarsamstarfs við Alþb. sem fór þó mörgum orðum um hversu fráleitt það væri að breyta gengi krónunnar til þess að mæta þessum vanda, algjörlega fráleitt. Og það voru haldnar hér fjölmargar ræður, og ekki síst kom hæstv. fjmrh. þar við sögu, sem allar gengu í þá átt að það væri glæpi næst að breyta gengi krónunnar. En hvað segir nú þessi hæstv. fjmrh.? Það sem skapaði skilyrði fyrir

þessum samningum var það að gengi krónunnar hefur verið breytt. Hæstv. ríkisstjórn féllst á endanum á að þetta sjónarmið var rétt. Það var ekki unnt að bæta raunverulega rekstraraðstöðu sjávarútvegsins með skuldbreytingum einum saman, hvað þá heldur öllu sjóðafarganinu sem upp var komið. Hinn raunverulegi rekstrarbati fékkst ekki fyrr en ríkisstjórnin áttaði sig á því að það varð að breyta gengi krónunnar. Og nú viðurkennir hæstv. fjmrh. þetta. Þetta eru nú staðreyndir málsins sem fyrir liggja, um afkomu atvinnuveganna og orsökina fyrir erfiðleikunum á þeim tíma. Það er auðvitað fráleitt að hlusta sí og æ á þessa endurteknu ræðu hæstv. fjmrh. þar sem hann lokar augunum fyrir þessum staðreyndum. Og það er auðvitað fráleitt að fjölmiðlar skuli endurflytja þessar rangfærslur nánast vikulega vitandi um það að staðreyndir málsins voru aðrar.
    Því hefur stundum verið haldið fram að háir vextir hafi einir valdið erfiðleikum sjávarútvegsins á þessum tíma, jafnvel af mönnum sem ættu að vita meira og betur um það hvað gengi bandaríkjadals og verð á erlendum mörkuðum þýðir fyrir íslenska útflutningsframleiðslu. En hverjar eru nú staðreyndirnar í þessu? Í skýrslu Seðlabankans frá því í nóvember sl. kemur fram að raunvextir sjávarútvegsins á síðasta ári, miðað við innlent verðlag, hækkuðu verulega frá því sem var á árinu 1988, úr 10,8% í 13,3% ef ég man rétt. Raunvextir sjávarútvegsins hækkuðu verulega á síðasta ári svo að ekki er þar um að kenna vanda sjávarútvegsins frá því á haustmánuðum 1987 og fram á haustið 1988. Það er kominn tími til þess að villandi umræðum og rangfærslum um þetta efni linni og það er engin ástæða til þess fyrir hæstv. fjmrh., þegar hann, af því að hann á ekki svör við þeim spurningum sem uppi eru í nútímanum, þarf að fara á handahlaupum aftur í tímann, að beita brögðum eða meðulum af þessu tagi.
    Það var einnig á það minnst að aðilar vinnumarkaðarins hefðu lagt á það áherslu við gerð þessara kjarasamninga að gera ekki sömu mistökin og 1986. Að vísu eru aðstæður allt aðrar nú en þá, kannski fyrst og fremst vegna þess að nú eru gerðir kjarasamningar í kreppu. Þá voru gerðir kjarasamningar í mikilli uppsveiflu og hver maður sér að aðstæður eru allt aðrar þegar þannig stendur á. Þá beitti ríkisstjórnin sem þá sat sér fyrir því að skattar voru beinlínis lækkaðir sem þáttur í kjarasamningum. Niðurstaðan af þessu öllu saman varð hins vegar sú að laun hækkuðu á þessu ári langt umfram það sem kjarasamningar gerðu ráð fyrir og eftir á að hyggja, þegar sú staðreynd er ljós að launin hækkuðu um 40% þegar menn gerðu ráð fyrir því að launin hækkuðu um 7%, geta menn sagt sem svo: Kannski var það ekki hyggilegt af ríkissjóði að ganga með þessum hætti til móts við aðila vinnumarkaðarins. En um það var ekki deilt á þeim tíma að það hafi verið skynsamleg ákvörðun stjórnvalda, enda samþykkt einu hljóði hér á hinu háa Alþingi.
    Ekki ætla ég að skorast undan ábyrgð á þeim

ákvörðunum sem þáv. ríkisstjórn tók. Hitt er auðvitað spaugilegt að hæstv. fjmrh. skuli hvað eftir annað ganga fram í því efni að gera jafnlítið úr núverandi hæstv. forsrh. og raun ber vitni, með öðrum orðum, að halda því fram að hann hafi setið í þáv. ríkisstjórn eins og viljalaust verkfæri sem engu hafi ráðið og engu hafi um þokað. Ég skil nánast ekki langlundargeð formanns Framsfl. að sitja undir endurteknum ávirðingum hæstv. fjmrh. um það að í öllum fyrri ríkisstjórnum, sem núverandi formaður Framsfl., hæstv. forsrh., hefur átt sæti í, hafi hann engu ráðið og verið viljalaust verkfæri þeirra sem með honum sátu. Það er mikið langlundargeð að sitja undir hverri ræðunni á fætur annarri af þessu tagi frá fjmrh. sínum. Ég kemst ekki hjá því af þessu tilefni, sem hæstv. fjmrh. gaf, að rifja aðeins upp viðhorf formanns Framsfl., þáv. og núv. hæstv. forsrh., vegna þess að þau sýna að honum var a.m.k. ekki sama um það hver ábyrgð bar á ríkisstjórn á þeim tíma og á þeim ákvörðunum sem teknar voru. Á flokksþingi framsóknarmanna skömmu eftir að kjarasamningarnir voru gerðir komst formaður Framsfl. svo að orði, með leyfi forseta:
    ,,Samþykkt var að taka þátt í sameiginlegu átaki vinnumarkaðarins og stjórnvalda til þess að draga verulega úr verðbólgu. Í því skyni var boðið að meðalgengi íslensku krónunnar yrði sem stöðugast allt þetta ár, að tekjuskattar yrðu lækkaðir til samræmis við minni verðbólgu og sveitarfélög hvött til að gera hið sama. Því var heitið að nafnvextir yrðu lækkaðir strax í kjölfar kjarasamninga og sömuleiðis gjaldskrár opinberra fyrirtækja. Að ósk
aðila vinnumarkaðarins var þetta svo nánar útfært með minnisblaði dags. 11. febr.``
    Ég hygg að ýmsir muni sjá af þessum orðum að nokkur hliðstæða var með þeim yfirlýsingum sem formaður Framsfl. gaf í stóli forsrh. þá og nú. En líka á þessum tíma kom upp spurningin hver ætti krógann. Morgunblaðið tók upp á því að eigna forystu Sjálfstfl. eitthvað meira í þessari niðurstöðu en góðu hófi þótti gegna og af þeim sökum komst formaður Framsfl. svo að orði í áðurnefndri ræðu:
    ,,Hins vegar þykja mér fullyrðingar í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sl. sunnudag ákaflega barnalegar. Þar er sagt að frumkvæði að þeirri lausn sem nú fékkst sé komið frá formanni Sjálfstfl. Með tilvísun til þess sem ég hef nú rakið og reyndar þess sem alþjóð veit um stjórnarmyndunina og stefnu Sjálfstfl. þykja mér þetta furðulegar niðurstöður. Ég fagna því hins vegar að sjálfstæðismenn hurfu frá yfirlýstri stefnu sinni um afskiptaleysi stjórnvalda. Án þess hefðu samningarnir að sjálfsögðu aldrei náðst.``
    Af þessum tilvitnuðu ummælum má sjá að formaður Framsfl. hefur nokkrar áhyggjur af því þegar því er haldið fram að hann beri ekki fulla ábyrgð á þeim kjarasamningum sem gerðir voru 1986 og ákvörðunum þeirrar ríkisstjórnar í tengslum við þá samninga sem teknar voru. Af þessum ummælum má sjá að hann er viðkvæmur fyrir árásum af því tagi sem Morgunblaðið á þeim tíma og hæstv. fjmrh., nú

nánast vikulega, dengja yfir hann, að hann hafi engu ráðið og verið áhrifalaus í þeirri ríkisstjórn. Og það er til umhugsunar og nokkurrar eftirbreytni fyrir hæstv. fjmrh.
    Og nú er spurt: Var eðlilegt, miðað við efnahagslegar forsendur á þeim tíma, að gera kjarasamninga af þessu tagi sem hæstv. fjmrh. telur að hafi verið hið mesta glapræði? Og hver var niðurstaða formanns Framsfl. sem leiðir þá ríkisstjórn sem hæstv. fjmrh. situr í, a.m.k. að formi til. Niðurstaða hans var þessi, svo að ég vitni enn í nefnda ræðu:
    ,,Nú er eðlilegt að menn spyrji hvort þjóðarbúið þoli svo mikla hækkun á ráðstöfunartekjum og þá einkaneyslu sem því mun fylgja. Þjóðhagsstofnun telur að þjóðarútgjöldin muni hækka um allt að 3% á árinu í stað 1% sem áður var talið hámark. Miðað við auknar þjóðartekjur á það þó að vera þolanlegt. Innflutningur mun að sjálfsögðu aukast með auknum kaupmætti. Vegna meiri útflutnings og betri viðskiptakjara er þó talið að viðskiptahalli verði minni á árinu 1986 en á árinu 1985, líklega 3% landsframleiðslu í stað 4,5%. Þessi viðskiptahalli þýðir að erlendar skuldir vaxa lítillega en greiðslubyrðin á reyndar að verða heldur léttbærari vegna aukningar þjóðartekna.``
    Hér vitnar hæstv. forsrh. til umsagnar Þjóðhagsstofnunar, núverandi hæstv. viðskrh., um að þetta hafi verið eðlilegt, að taka þær ákvarðanir sem teknar voru, miðað við það útlit sem menn þóttust sjá um gang efnahagsmála á því ári. Árásir hæstv. fjmrh. beinast því einnig að þáv. og reyndar núv. forstjóra Þjóðhagsstofnunar, hæstv. viðskrh. sem lagði formanni Framsfl. til þetta efnahagslega mat á aðstæðunum. Ég held þess vegna að hæstv. fjmrh. ætti að fara að spara sér þessar sögulegu upprifjanir vegna þess að staðreyndir allra þessara mála frá þessum tíma sýna að engin rök eru á bak við hans stóru orð. Það er auðvitað hægt í einhverjum leikaraskap að fjalla á þann veg um efnahagsmál sem hann gerir, en það þjónar engum raunhæfum tilgangi á Alþingi Íslendinga.
    Ég ætla líka að minna hér á að í nýútkomnum tíðindum Vinnuveitendasambandsins, þar sem verið er að bera þessa kjarasamninga saman við samningana frá 1986, er réttilega á það minnst að sömu mistökin mega ekki endurtaka sig. Og hvaða mistök eru það sem Vinnuveitendasambandið leggur áherslu á í sínu fréttabréfi að megi ekki endurtaka sig? Að genginu verði haldið stöðugu eftir að allt annað er komið úr böndum. Og það er einmitt um þetta sem höfuðágreiningurinn var, að breyta ekki genginu í tæka tíð. Það er þetta sem Vinnuveitendasambandið er að benda á. Um þetta var auðvitað ágreiningur og Vinnuveitendasambandið hefur alveg laukrétt fyrir sér í því að það var mikill misskilningur hjá forustumönnum núverandi stjórnarflokka að draga gengisbreytinguna.
    Hæstv. fjmrh. fór svo nokkrum orðum um það að ég hefði komist þannig að orði að aðilar vinnumarkaðarins hefðu lagt nýjan efnahagsgrundvöll

og svo vildi til að einmitt hann hafði notað þetta sama orð og ályktunin sem hann dró var sú að það hlyti að vera svo að hann væri höfundur að öllu saman vegna þess að hann hefði notað þetta orð þegar hann kynnti fjárlögin. Fjárlögin voru bara óvart kynnt með efnahagsforsendum sem byggðu á tvöfalt meiri verðbólgu en aðilar vinnumarkaðarins hafa með kjarasamningum gert mögulegt að verði á þessu ári og fjárlagafrv. byggði á því að kaupmáttarskerðingin yrði 5% meiri en raun verður á eftir gerð þessara kjarasamninga.
    Hinn nýi grundvöllur varð ekki til í veruleikanum fyrr en aðilar vinnumarkaðarins höfðu gert þennan samning. Það stendur þess vegna alveg óhaggað að þá fyrst verður hinn nýi grundvöllur til er þeir hafa undirritað sína samninga. Sá grundvöllur sem hæstv. fjmrh. lagði í fjárlagafrv. var þess
eðlis að aðilar vinnumarkaðarins sögðu: Við þolum þetta ekki og ætlum okkur ekki að sætta okkur við þetta. Við ætlum okkur að sníða þennan ramma með öðrum hætti. Það var niðurstaða aðila vinnumarkaðarins og þeir lögðu nýjan grundvöll.
    Það er svo svolítið broslegt þegar hæstv. fjmrh., sem hefur þá stjórnskipulegu skyldu að leggja hér tillögur fyrir Alþingi um fjárlög og um viðbrögð af hálfu framkvæmdarvaldsins ef það gengur ekki eftir sem fjárlög gera ráð fyrir, skuli hefja hér árásir á stjórnarandstöðuna fyrir að hafa ekki komið fram með niðurskurðartillögur vegna þessara kjarasamninga. Þjóðin beið eftir því að hann gerði grein fyrir því. Þjóðin stóð í þeirri meiningu að formaður Alþb. væri fjmrh. Nei, nei, honum datt ekki í hug að það væru skyldur hans sem fjmrh. að gera þinginu grein fyrir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við því sem fram hefur komið, vanáætlunum við gerð fjárlaga og nokkurri aukningu útgjalda í tengslum við kjarasamninga. Það stendur hins vegar af okkar hálfu, sjálfstæðismanna, að við erum tilbúnir að taka þátt í þeirri vinnu. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að það er ekki einfalt verk fyrir eina ríkisstjórn að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin, játa að fjárlögin hafi verið ákveðin með vanáætlunum og takast á hendur nýjar skuldbindingar.
    Ég hygg að staðan í íslensku þjóðfélagi í dag sé sú að horft verði til þess hvernig menn bregðast við. Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að freista þess að ná sem víðtækastri samstöðu um þessi efni. Sjálfstfl. er tilbúinn til slíkrar vinnu ef áhugi er á því af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Sá áhugi kom fram í máli hæstv. viðskrh. en hæstv. fjmrh. vísaði öllu slíku á bug. Hæstv. ríkisstjórn verður svo að gera það upp við sig hvert hún vill halda eftir að tveir hæstv. ráðherrar hafa í þessu efni gengið í gagnstæðar áttir.
    Það er hins vegar svolítið broslegt að hlusta á hæstv. fjmrh. tala af slíkri kokhreysti sömu daga og tveir af flokksbræðrum hans í ríkisstjórninni eru uppi með miklar yfirlýsingar í þessu efni. Annar segir: Ekki ég, það kemur ekki til greina að skera niður í mínu ráðuneyti. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason gerði sérstakar athugasemdir við afstöðu ráðherra sem

þannig tala og ég skildi hann ekki betur en svo að hann teldi það vera býsna mikið ábyrgðarleysi af hálfu ráðherra að lýsa því yfir fyrir fram að tiltekin verkefni á hans sviði kæmu bara ekki til greina þegar taka þyrfti á vanda ríkissjóðs. Það hefði verið ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að fjalla nokkuð um þetta og það hefði verið ástæða fyrir hæstv. fjmrh. sem hefur staðið fyrir verulegum niðurskurði á framlagi til vegamála að fjalla nokkuð um hinar stórbrotnu yfirlýsingar um það að flýta jarðgangagerð við þessar aðstæður sem hæstv. samgrh., varaformaður Alþb., hefur verið að boða undanfarna daga. ( Gripið fram í: Síðast í kvöld.) Síðast í kvöld með sérstakan fund á sama tíma og hæstv. fjmrh. á að standa hér á hinu háa Alþingi og gera grein fyrir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar, þá er varaformaður Alþb. að halda fundi og lofa því að flýta jarðgangagerð. Það hefði verið ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að gera svolitla grein fyrir þessum aðstæðum innan ríkisstjórnarinnar frekar en að hverfa aftur í tímann með rangfærslur og upplognar sakir.
    Það var svo svolítið broslegt að hlusta á hæstv. fjmrh. halda því fram að hann væri alveg saklaus af því að hafa ákveðið lög, ákveðið kaupgjald með lögum. Hann gekk inn í núverandi hæstv. ríkisstjórn á þeirri forsendu að ákveða kaup með lögum. Það var forsenda fyrir þeirri stjórnarmyndun að kaup væri bundið með lögum. Svo kemur hér formaður Alþb. og slær sér á brjóst að það sé nú eitthvað annað uppi á teningnum hjá þessari hæstv. ríkisstjórn en það sem var 1988. Þá hafi þessi óskaplega vondi maður Þorsteinn Pálsson staðið fyrir því að binda allt kaupgjald með lögum en sjálfur lagði hann það sem forsendu að ríkisstjórnarsamstarfi að binda kaup með lögum. En hann var ekki að fjalla um það, hann var ekki að taka það fram. Það hentaði ekki í þeim leikbrögðum sem fram fóru.
    Að lokum nokkur orð varðandi vexti. Ég gerði það efni að nokkru umtalsefni í fyrri ræðu minni hér í kvöld. Ég endurtek að ég lít svo á að með þessu samkomulagi séu veruleg tímamót í þeim efnum vegna þess að nú sé miklu víðtækari samstaða í þjóðfélaginu um markaðsákvörðun vaxta en áður var og engin mótmæli gegn þeirri skipan og þær raddir þagnaðar sem hæst töluðu gegn áður. Hæstv. viðskrh. vék hér nokkrum orðum að því að hann hefði sett á fót starfshóp til þess að vinna með bönkunum í þeim tilgangi að mæta erfiðleikum þeirra vegna nýrra aðstæðna í kjölfar lækkandi verðbólgu. Á minnisblaði sem skrifað hefur verið af þessu tilefni er m.a. talað um að þessi starfshópur eigi að fjalla um að aukin verði gjaldtaka samkvæmt gjaldskrá í stað vaxtamunar, m.a. á sviðum þar sem þjónusta er nú veitt ókeypis eða seld undir kostnaðarverði.
    Nú er það svo að í ýmsum tilvikum er eðlilegt að tekin séu sérstök gjöld fyrir þjónustu bankanna í stað þess að vaxtamunur sé látinn halda henni uppi. Eftir sem áður er um að ræða fjármagnskostnað og nú væri rétt að fá nokkrar skýringar á því hvernig þetta kemur heim og saman við fyrirheit um lækkun á raunvaxtakostnaði því útilokað er annað en að taka

þessi þjónustugjöld með í þann reikning.
    Það er líka á það fallist á þessu minnisblaði að ræða sérstakan skatt af gjaldeyrisviðskiptum og afskriftareikningi útlána með tilliti til tekjuskatts og virðisaukaskatts. Með öðrum orðum, hæstv. ríkisstjórn hefur fallist á það að ræða um þessa skatta væntanlega þá í þeim tilgangi að lækka þá á bönkunum. Á sama tíma kemur hæstv. fjmrh. hér og segir: Það kemur ekki til greina að falla frá skattheimtu á almenning t.d. með lækkun bifreiðagjaldanna sem eiga að hækka um 80--90% eða falla frá skattlagningunni á raforkufyrirtækin sem mun stórhækka orkuverð til almennings. Það kemur ekki til greina af hálfu hæstv. fjmrh. að falla frá þessum ákvörðunum en það er sjálfsagt að ræða við viðskiptabankana um breytingar á þeirra sköttum. Er þetta eðlileg framkoma við launafólkið í landinu við þær aðstæður sem nú ríkja og í kjölfar þessara merku samninga? Vill ekki hæstv. fjmrh. endurskoða svolítið þá neikvæðu afstöðu sem fram hefur komið af hans hálfu í þessu efni?