Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að lengja þessa umræðu að ráði. Enda höfðum við þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna samið við hæstv. forseta um að þetta mál yrði afgreitt út úr deildinni í dag og var þá talað um fyrir kl. 4 en það flyst af eðlilegum ástæðum til kl. 5.
    En ég verð að segja alveg eins og er að eftir þá dæmalausu ræðu sem hæstv. forseti sameinaðs Alþingis hélt hér áðan held ég að verði afskaplega erfitt að standa við þetta tímamark, svo ég ekki kveði fastar að. Hæstv. forseti sagði að umræðan hér hefði snúist upp í persónulegar árásir á þann mann sem ætti að taka við umhverfisráðuneytinu og auk þess hefði umræðan snúist um innri mál Alþb. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég hef kannski ekki hlustað á hverja einustu ræðu sem hefur verið haldin hér um þetta mál, en ég vildi gjarnan fá það rifjað upp hvað hefur verið rætt um innri mál Alþb. í sambandi við þetta frv. Hæstv. forseti mundi kannski fara aðeins yfir það. Ég veit að forsetinn er búinn að biðja um orðið.
    Forseti sameinaðs þings sagði líka að það ætti að vera auðvelt að vera sammála um að stofna umhverfisráðuneyti. Ég heyri á þessum ummælum hæstv. forseta að hún hefur ekkert verið hér í deildinni þegar við höfum verið að ræða þetta mál, ef hún heldur að það sé auðvelt að verða sammála um að samþykkja þetta frv. Já, og svo eigum við að ræða málefnalega um þetta mál. Ég tel að við höfum gert það. Og fullyrði það.
    Við þessa 3. umr. ætla ég að gera eina tilraun enn til að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstjórn í þessu máli. Ég veit ekki hvort það tekst. Tíminn er sjálfsagt of naumur ef við eigum að ljúka málinu í dag og við neðrideildarmenn verðum þá að setja traust okkar á hv. efri deild og þingmenn þar. Það hefur stundum verið gert áður.
    Ég horfði á þáttinn Þingsjá sl. mánudagskvöld, þar sem hæstv. hagstofuráðherra og hv. þm. Kristín Einarsdóttir ræddu þessi umhverfismálafrumvörp. Máttlausari málflutning hef ég varla heyrt hjá einum hæstv. ráðherra en þar kom fram enda var svo sem verið að verja hæpinn málstað. Ég verð á þessum vettvangi að leiðrétta síendurteknar rangfærslur hæstv. ráðherra um að Sjálfstfl. tefji afgreiðslu þessa máls með því að sjálfstæðismenn á Alþingi haldi uppi málþófi. Ráðherrann klifaði í síbylju á því að sjálfstæðismenn hafi núna tafið með málþófi afgreiðslu málsins í þrjá mánuði. Og hann bætti við --- ég held að ég hafi heyrt það réttilega --- að í raun og veru hafi málið verið rætt tíu sinnum til loka, eins og hann orðaði það. Ég verð, af þessu tilefni, aðeins að rekja gang málsins hér á Alþingi.
    Hæstv. ráðherra sagði að málið hefði verið tekið fyrst fyrir 14. nóv. Það út af fyrir sig er rangt hjá honum. Það var fyrst tekið fyrir 8. nóv. Þá hófst sem sagt 1. umr. Þann 14. nóv. var málið á dagskrá en þá varð að fresta því vegna fjarveru hæstv. hagstofuráðherra og hæstv. forsrh. Þann 28. nóv. var

málið í þriðja sinn á dagskrá og þá hélt 1. umr. áfram. Það var enn á dagskrá 6. des. til framhalds 1. umr. en þá varð að fresta því vegna fjarveru hæstv. hagstofuráðherra. Þann 11. des. var það í fimmta sinn á dagskrá, þá varð enn að fresta því. Umræðan hófst en það varð að fresta henni vegna fjarveru hæstv. forsrh. og hæstv. hagstofuráðherra. Og síðan, loks þann 13. des. var málið í sjötta sinn á dagskrá og þá lauk 1. umr. og málinu vísað til nefndar daginn eftir. Úr nefnd var það svo tekið, með aðferðum sem hér hefur verið lýst og ég þarf ekkert að endurtaka, þann 25. jan. án þess að það væri nokkuð rætt í hv. allshn.
    Svo ég reki þetta svo áfram þá var 128. mál, þ.e. frv. um verkefnatilfærsluna, tekið hér fyrir 11. des. og vísað til nefndar. 2. umr. um 129. mál hefur síðan farið fram þann 1. febr., 2. febr., 6. febr. og svo núna. Í raun er þetta þannig í hnotskurn að málið hefur aðeins verið rætt á þremur fundum deildarinnar við 1. umr., aðeins á þremur fundum. Og hefur nú verið rætt á þremur fundum til viðbótar við 2. umr. og einum fundi við 3. umr. Þetta er allt málþófið sem hæstv. ráðherra er að tala um og kenna Sjálfstfl. um að málið hafi tafist hér í meðförum þingsins í þrjá mánuði. Þetta flokkast ekki undir málþóf. En fyrir óþreyjufullan er auðvitað erfitt að bíða, bíða eftir að fá það sem hugurinn girnist mest. Það er út af fyrir sig skiljanlegt.
    Ég sé að hæstv. hagstofuráðherra er ekki hérna. Mér er svo sem alveg sama, ég hef látið þess getið áður að það skiptir mig engu máli hvort hann er hér í salnum eða ekki þegar við ræðum þetta mál vegna þess að þessi málaflokkur heyrir ekki undir hann. Það er hins vegar mikilvægt að hæstv. forsrh. skuli vera hér. Hæstv. hagstofuráðherra hefur látið í ljós áhyggjur yfir því að sjálfstæðismenn, með málflutningi sínum, komi óorði á umhverfismál, eins og hann orðaði það svo snilldarlega í Þingsjárþættinum sl. mánudag. Ég spyr nú bara: Hvers konar rugl er þetta í hæstv. ráðherra? Er hann í raun og veru að segja að þetta sé slíkt dægurmál að ef það fái einhverja umfjöllun hér á þinginu þá verði almenningur afhuga að styðja umhverfismál? Sé svo, þá er það röng ályktun. Rétt ályktun er hins vegar að almenningur, ekki ríkisstjórnin að
mér skilst, hefur fengið megnustu óbeit á því hvernig unnið er að málinu af hálfu stjórnarinnar og alveg sérstaklega átta menn sig á að hér er hégómamál á ferðinni, skaðlegt fyrir það nauðsynjamál að koma samræmdri stjórn á umhverfismálin í landinu.
    Hæstv. ráðherra sagði líka að það væri enginn ágreiningur um 70% af verkefnunum sem ættu að færast til ráðuneytisins. Ég er ekki verkfræðingur og þess vegna áreiðanlega ekki eins reikningsglöggur og hæstv. hagstofuráðherra. En mér leikur hugur á að vita hvernig þessi tala er fengin, 70%, um það sé enginn ágreiningur. ( MB: Það séu 90% ófyrirséð.) Já, það gæti verið, ég gæti trúað --- ég á ekki að vera að giska á tölur, en ég gæti trúað að 70% af þessu sem hann segir sé rangt.
    Ég hef sannfærst um að verið er að fara út í hreint

glapræði með því að samþykkja þetta frv. til breytinga á lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég er enn sannfærðari en áður hver nauðsyn er að frumvörpin fylgist að í gegnum þingið. Þessi sannfæring mín hefur styrkst á fundum í hv. allshn. nú síðustu dagana þar sem við höfum verið að athuga frumvarpið um verkefni umhverfisráðuneytisins, 128. mál. Til fundar við nefndina hafa komið, að mér telst til, 17 aðilar það sem af er. Aðeins einn af þessum 17 hefur lýst eindregnum stuðningi við frv., aðeins einn. Og það er forstöðumaður mengunarvarnasviðs Hollustuverndar ríkisins. En meiri hluti stjórnar Hollustuverndarinnar er andvígur frv. og þrír af fjórum forstöðumönnum hinna fjögurra sviða Hollustuverndar eru á öndverðum meiði við þennan hv. forstöðumann.
    Við höfum fengið á fund okkar ráðuneytisstjórann í heilbrrn. Undir heilbrrn. heyrir Hollustuverndin og Geislavarnir, sem einnig eiga að fara undir umhverfisráðuneytið. Við höfum líka fengið á fund okkar landlækni. Þessir aðilar eru algerlega andvígir því sem hér er verið að efna til. Þeir eru andvígir því að þær stofnanir sem undir heilbrrn. heyra færist til umhverfisráðuneytisins. Er það virkilega svo að ekkert eigi að hlusta á þessa aðila, ekki neitt?
    Við höfum fengið á fund okkar veðurstofustjóra. Veðurstofan er ein af þeim stofnunum sem eiga að fara undir umhverfisráðuneytið. Það er ekki nokkur lifandi leið að finna nokkur rök fyrir því hvers vegna Veðurstofan eigi að færast undir umhverfisráðuneytið. Við höfum ekki fengið nein svör við því. Veðurstofustjóri reynir að vísu í sinni umsögn að finna eitthvað en honum tekst það ekki. Hann segir á einum stað í sinni umsögn að kannski mætti alveg eins hugsa sér að Veðurstofan færi undir menntmrn. vegna þess að veðurfregnir eru lesnar í útvarpinu og útvarpið heyrir undir menntmrn. Það eru smárök fyrir því en það eru engin fyrir því að Veðurstofan verði tekin undan samgrn. Samskiptin eru mest við stofnanir sem heyra undir samgrn., mest við Póst og síma.
    Mér er satt að segja alveg óskiljanlegt hvers vegna er verið að efna til þessa stríðsástands við þá sem eiga að búa við þetta nýja skipulag, mér er það alveg óskiljanlegt. Það á að þvinga þetta fram í ósátt við allt og alla sem við það eiga að búa, bæði embættismenn og ýmsa hópa í landinu eins og t.d. bændur. Ég hef það á tilfinningunni að það sé verið að reyna að finna bara einhver verkefni --- einhver viðfangsefni fyrir þetta ráðuneyti þannig að starfsliðið þar, sem ég ætla nú ekkert að giska á hvað verður margt fyrr en varir, hafi þó eitthvað að gera. Dæmi um slíkan verkefnaflutning er þetta sem ég var að nefna, flutningur á Veðurstofunni. Það eru sem sagt engin rök fyrir þessu.
    Þessi viðtöl sem ég var hér að vísa til og ætla ekkert að rekja frekar núna, það verður tækifæri til þess þegar 128. mál kemur til meðferðar aftur hér í deildinni eftir að allshn. hefur lokið umfjöllun sinni, hafa sannfært mig enn betur um að stofnun umhverfisráðuneytis er hrein vitleysa meðan ekki er vitað hvaða verkefni það fær.

    Ég er einnig sannfærður um að það fær ekki þau viðfangsefni öll sem í frv. greinir. Þetta segi ég í trausti þess að þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, taki mark á því sem við þá er sagt af mönnum sem hafa meiri þekkingu á umhverfismálum og viðfangsefnum einstakra ráðuneyta en ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, með allri virðingu fyrir þeim þó.
    Hæstv. hagstofuráðherra sagði í sjónvarpsviðtalinu, sem ég vitnaði til áðan, að ekkert mælti gegn því að málin, frv. tvö, væru afgreidd saman. Þetta var efnislega það sem hæstv. ráðherra sagði. Ég hlýt að fagna þessari yfirlýsingu. Ég tek fullt mark á henni. Þetta er auðvitað allt annað en hefur verið sagt hér áður í umræðunni og á öðrum vettvangi af hæstv. ráðherrum þar sem krafa hefur verið uppi, krafan til þingsins um að frv. um Stjórnarráðið yrði afgreitt fyrst. Auðvitað átti samkvæmt þessari kröfu bæði hæstv. hagstofuráðherra og forsrh. að vera búið að afgreiða þetta fyrir löngu.
    Ég tek þessa yfirlýsingu hæstv. ráðherra svo að frv. um Stjórnarráð Íslands verði ekki afgreitt frá hv. Ed. fyrr en frv. um verkefni er komið þangað frá þessari hv. deild og hefur þá jafnframt fengið þar umfjöllun og frv. verði
afgreidd samtímis. Ég sagði áðan að ég tæki mark á þessari yfirlýsingu en ég verð hins vegar að bæta því við að ég treysti þessu ekki alveg og lái mér hver sem vill. Til þess að tryggja betur að gildistaka beggja frv. verði á sama tíma flyt ég hér brtt. við 2. gr. frv., það er gildistökuákvæðið. Eins og það er núna eftir 2. umr. í deildinni er gert ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi, eftir að þau hafa verið samþykkt. En ég flyt hér brtt. ásamt Inga Birni Albertssyni um að 2. gr. frv. orðist svo:
    ,,Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1990.``
    Ég mun svo flytja hliðstæða brtt. við hitt frv., 128. mál, um að gildistaka þeirra laga, ef samþykkt verða, verði einnig 1. júní 1990.
    Hæstv. forseti. Ég er með skriflega till. og óska eftir að leitað verði afbrigða þannig að hún megi koma til umræðu.
    Ég hef lokið máli mínu og ítreka það að mér þykir slæmt eftir á að hyggja að við skyldum hafa fallist á að afgreiða þetta frv. út úr deildinni nú í dag. Ég tel að við þurfum að ræða það frekar og ef það kostar kvöldfund þá verður að hafa það en ég tek hins vegar undir mótmæli hv. þm. Inga Björns Albertssonar um að það er vart við hæfi að halda slíkan fund nú í kvöld.