Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég er enn að gera mér vonir um að staðið verði við það samkomulag sem hér var gert við afgreiðslu þessa máls og ég þykist vita að hv. síðasti ræðumaður hafi stytt verulega mál sitt til að stuðla að því að svo gæti orðið. Hann stóð hins vegar upp utan dagskrár um þingsköp og krafðist þess að ég stæði upp og svaraði spurningum. Ég hef ekki orðið var við margar spurningar til mín, engar í þessari umræðu. Ég svaraði nokkrum við 2. umr. og við 1. umr. Hv. þm. spurði hvort ríkisstjórnin væri reiðubúin að fallast á þá vinsamlegu tillögu að fresta þessu máli og svar mitt er nei. Ríkisstjórnin telur afar mikilvægt að koma ráðuneytinu á fót og er algerlega ósammála þeim sem telja það ekki tímabært hér á landi.
    Hv. þm. fullyrti að ég hefði sagt að það hefði verið mjög náið samband við samtök sveitarfélaga. Það held ég sé misskilningur. Ég sagði að það hefði verið haft samband við samtök sveitarfélaga en þau svöruðu ekki nefndinni sem þetta mál vann. Ég hef grennslast eftir þessu sérstaklega og það var haft samband við framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og hann upplýsti að það væri þá ekki að vænta svars. Það er náttúrlega ekki náið samband, en það var gerð tilraun til þess.
    Hér hafa verið raktar alls konar umsagnir um þetta frv. og ég hef fengið það líka og farið í gegnum það. Það er alveg hárrétt, það er hægt að finna svo að segja í hverri einustu umsögn frá umsagnaraðilum að menn eru á móti einhverju. Það er ekkert undarlegt.
    Í gær var gert að umræðuefni frv. um Stjórnarráð Íslands. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen gerði það í ítarlegri ræðu og rakti meðferð þess máls. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp það sem Bjarni Benediktsson sagði í umræðu um það mál þegar það kom aftur frá nefnd. Hér segir í þessari samantekt:
    ,,Næstur á mælendaskrá var Bjarni Benediktsson. Hann sagði m.a.: ,,Ástæðan til þess að ég stend upp nú er sú að sl. föstudag, hygg ég að það hafi verið, barst mér bréf frá ráðuneytisstjórum í Stjórnarráðinu þar sem þeir senda mér eins konar álitsgerð eða athugasemd við frv. Mér er ekki kunnugt um hvort hv. nefnd hefur fengið þá álitsgerð einnig, en vafalaust er hún ekki mér einum ætluð og þó ég hafi hana ekki við hendina, þá er rétt að ég skýri frá því að ráðuneytisstjórarnir virðast vera í meginatriðum andvígir frv.``"
    Er þetta ekki dálítið svipað og þegar ráðuneytisstjórarnir og yfirleitt þeir sem fara með forustu stofnana og eru á einum stað í dag vilja engar breytingar? Ráðuneytisstjórar í Stjórnarráði Íslands 1968 lögðust gegn þessu frv. sem allir róma nú að hafi verið hið ágætasta mál. Ég er ekkert undrandi þótt Hollustuverndin vilji vera þar sem hún er, Skógræktin þar sem hún er, Veðurstofan þar sen hún er. Ætli þeim líði ekki bara vel. En við berum ábyrgð á að haga málum þannig að betur fari miðað við þau stóru verkefni sem við teljum vera fram undan í þessu þjóðfélagi. Það hefur verið fjallað um það síðan 1975,

ef ég man rétt, að raða þessum málum á annan veg svo að betur megi fara, nefnd eftir nefnd eftir nefnd. Og ég hygg að í öllum tilfellum hafi viðkomandi aðilar að meira eða minna leyti lagst gegn breytingum. Það er sjálfsagt að skoða þessar umsagnir vandlega og hér hefur aðallega verið fjallað um það frv. sem bíður í nefndinni. Ég hef sagt að ég tel sjálfsagt að skoða allt af hinni mestu vandvirkni en eftir því sem ég sé af umsögnum sem hafa borist og ég hef farið í gegnum, þá eru langflestir aðilar annaðhvort með því að setja upp umhverfisráðuneyti eða svara ekki þeirri spurningu. Af þeirri ástæðu þótti mér rétt fyrir mitt leyti og studdi það að þetta mál yrði afgreitt á undan en hitt fengi nánari meðferð í nefndinni.