Fyrirspyrjandi (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér finnst svarið við þessari fyrirspurn harla lélegt. Í fyrsta lagi segir fjmrh. að þetta sé gert skv. bráðabirgðalögum sem gefin voru út seinni hluta árs 1988 og hafi þannig verið heimilað. Ég dró réttmæti þeirra bráðabirgðalaga í efa þar sem um svo stórar fjárhæðir var að ræða á þeim tíma, þar sem milljörðum var ráðstafað án þess að málið kæmi nokkurn tíma fyrir fjvn. Alþingis eða hlyti eðlilega umfjöllun í Sþ. heldur voru gefin út bráðabirgðalög sem voru síðan afgreidd í gegnum deildir þingsins. Það er ekki hlutverk deilda þingsins að úthluta fjármagni heldur er það hlutverk sameinaðs þings.
    Hvað varðar framhald málsins, þá vek ég athygli á því að Ríkisendurskoðun hefur þegar gert athugasemd við þetta í skýrslu sem ég er með hér, skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisins og Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1988. Þá var gerð athugasemd um þetta á bls. 101 sem ég ætla að lesa hér aðeins upp úr, með leyfi hæstv. forseta. Hér stendur:
    ,,Miðað við afkomu frystingarinnar á árinu 1989 og þær horfur sem fram undan eru verður ekki séð að hægt verði að endurgreiða lánið af tekjum Verðjöfnunarsjóðs. Ástæða er því til að ætla að að öllu óbreyttu muni mestur hluti lánsins falla á ríkissjóð.
    Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að fyrir liggi ákvörðun um hvort ríkissjóður eða Ríkisábyrgðasjóður eigi að greiða þann hluta lánsins sem kann að vera ógreiddur að þrem árum liðnum.``
    Það er náttúrlega alveg út í hött að hæstv. fjmrh. haldi því fram hér í þessum ræðustól að með bráðabirgðalögum sé hægt að ráðstafa fjárlögum eftir þjú ár. Það er akkúrat þetta sem ég var að segja áðan í sambandi við nákvæmni í ríkisbókhaldi. Þeir kjarasamningar sem nú hafa verið gerðir skipta máli
vegna þess að það skiptir máli að ríkisvaldið og hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkisvaldsins fari að gera þær kröfur til sjáls sín að viðhafa þar nákvæmni og færa bókhald rétt þannig að þessar opinberu upplýsingar séu réttar en ekki kolvitlausar, séu ekki dulbúin fjárlög í pípunum. Og síðan segja menn að fjárlagahallinn hafi ekki verið nema þetta og þetta.
    Hæstv. fjmrh. svaraði hér þeirri spurningu áðan hvað höfuðstóll þessa láns væri mikill, það var spurt um fjármagnskostnaðinn. Þetta er 1250 millj. kr. án fjármagnskostnaðar, rúmlega 1,2 milljarðar. Þetta eru engar smátölur og það er fleira af svona í ríkisbókhaldi sem þarfnast allsherjar hreingerningar, hæstv. fjmrh. Það er ekki hægt að ná verðbólgu niður og gera kjarasamninga og lofa og lofa og lofa og standa svo ekki í sínu stykki í sambandi við bókhald.