Fyrirspyrjandi (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Mér blöskrar satt að segja sú ósvífni hæstv. fjmrh. að halda því fram að deildir þingsins geti ráðstafað fjármunum, að það sé hægt að ráðstafa fjármunum með bráðabirgðalögum og deildir þingsins séu síðan ákvörðunaraðili varðandi úthlutun fjármagns. Fjármagni er úthlutað hér í þinginu, hæstv. fjmrh., með fjárlögum og viðbótarfjárveitingu með fjáraukalögum.
    Hæstv. fjmrh. hélt langa ræðu um þetta og miklaði sig af þessu hér að þetta væri í fyrsta skipti í sögunni sem fjáraukalög væru lögð fram fyrir fram, þ.e. seinni hluta árs 1989 og það er nú alveg rétt, það hefur ekki verið gert lengi. En menn verða þá að standa sig í því sem þeir eru að segja. Það þýðir ekkert að halda því fram að menn séu að gera einhverjar óskapa rósir og ætla sér að taka til í þessum húsum og vera svo með allt niðri um sig í máli eins og þessu. Það er alveg gersamlega útilokað að það sé hægt að afgreiða hlutina með þessum hætti.