Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég kemst ekki hjá því að minna á, þegar erlend stóriðja er hér til umræðu eða álver, að ef menn eru að tala um staðsetningu þá hlýtur hagkvæmnissjónarmið að hafa eitthvað að segja. Ef við hugsum málið frá þeirri hliðinni, þá var talað um að samfara nýju álveri þurfi að virkja í Fljótsdal og þá er auðvitað langstyst að senda rafmagnið niður á Reyðarfjörð, það gefur auga leið. Línubygging fyrir hendi til að nota þessar línur sem liggja þarna austur bæði norður í land og eins suður í land til viðbótar þessu. Mér finnst það liggja í augum uppi að hagkvæmasti orkusölustaðurinn er Austurland miðað við þessar forsendur.
    Hagkvæmnissjónarmið hljóta að ráða þó fleiri sjónarmið eigi auðvitað að koma inn í. Ég tek undir með þeim sem tala hér um að við þurfum auðvitað að vera vel meðvituð um áhrif slíkra stórframkvæmda á íslenskt efnahagslíf, t.d. áhrif á peningakerfið og hvaða ráðstafanir þarf jafnframt að gera til að tryggja að komið verði í veg fyrir gegndarlausa þenslu og nýja verðbólguholskeflu. Þetta eru þau sjónarmið, að hægt sé að koma í veg fyrir neikvæð áhrif með því að vanda sig. Ég er alltaf að koma að því aftur og aftur. Við getum fengið erlend ráðgjafarfyrirtæki til þess að aðstoða okkur svo þetta hafi ekki vond áhrif á íslenskt efnahagslíf. Varðandi eignaraðildina bið ég bara til guðs að börnin okkar verði ekki veðsett fyrir erlendum skuldum meira en orðið er.