Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé komið eitthvað á annað ár síðan ég sagði úr þessum ræðustól að hæstv. utanrrh. ætti þá þegar að heimila þá forkönnun sem hér er rætt um. Það er líka komið eitthvað á annað ár frá því að ég sagði úr þessum sama stól að Atlantshafsbandalagið væri mikilvægasta bandalag mannkynssögunnar. Það hygg ég að hafi sannast á undanförnum vikum og ekki síst í gær hverju Atlantshafsbandalagið hefur áorkað, meira að segja í Sovétríkjunum sjálfum. Ég get þess vegna ekki tekið undir með hv. síðasta ræðumanni að hernaðarbandalög, eins og þau eru að sjálfsögðu kölluð, séu gagnslaus og hafi alltaf verið. Auðvitað er hitt rétt, og við lítum það í öðru ljósi nú miðað við þá atburðarás sem orðin er, hvernig störf þessara bandalaga muni verða.
    En ég steig nú í stólinn aðallega til að taka undir með hæstv. utanrrh. þau ummæli hans að það væri óvissa um framvindu og að flugvallarmálin, þetta sem hér er talað um, séu flugöryggismál og nauðsynjamál. En sérstaklega vil ég þó benda á bæði bein og óbein ummæli hans hér áðan og það sem eftir honum er haft í blaði hans, Alþýðublaðinu, í gær. En hæstv. ráðherra sagði áðan að mikil nauðsyn væri að efla eftirlit miðað við þá þróun sem nú væri og að svo gæti vel farið að slíkur varaflugvöllur hér yrði einn hornsteina afvopnunarinnar. Orðrétt segir hann í blaði sínu, með leyfi forseta:
    ,,Ég er þeirrar skoðunar og byggi það á mati sérfróðra aðila að yfirgnæfandi líkur bendi til að ekki verði fallið frá þessum áformum [þ.e. um flugvöllinn] einmitt með vísan til framtíðarhlutverks Íslands að verða miðstöð fyrir eftirlit með framkvæmd afvopnunarsamninga á ókomnum árum. Það kynni því að fara svo að varaflugvöllurinn, sem sumir hafa snúist harkalega gegn á þeim forsendum að hann væri hernaðarmannvirki, yrði eiginlega grundvöllur fyrir
eldri hugmyndum um Ísland sem griðastað og miðstöð afvopnunar í okkar heimshluta.``
    Þetta voru orð hæstv. ráðherra. Undir þau tek ég og vona svo sannarlega að hann og ég höfum rétt fyrir okkur í því að hlutverk Atlantshafsbandalagsins muni auðvitað breytast en við erum samt ekki svo bláeygir að halda að engin hætta sé lengur á því að styrjaldarátök geti brotist út. Ég held raunar að allir hér inni séu sammála þessu tvennu, að við vonum að það sem hefur verið að gerast undanfarna mánuði haldi áfram og að ástandið í heimsmálunum verði betra. Við skulum samt ekki útiloka þann möguleika að til átaka geti komið og enn þá eru til svo gífurlegar vopnabirgðir í löndum heims að nægir til að granda mannkyni margsinnis. Afvopnunin verður að halda áfram og hún verður að halda áfram undir eftirliti. Og ég skil ekki hvernig við Íslendingar gætum lagt meira fram til þeirra varna en einmitt að a.m.k. heimila þessa forkönnun og bíða átekta og sjá hvað verður þegar henni lýkur. Hvað getum við lagt meira af mörkum til þess einmitt að greiða fyrir því sem við höfum ályktað um hér á Alþingi margsinnis,

að reyna að friða hin nyrstu höf sem mest, vernda þau, rækta og nýta? Við erum þó öll sammála um að einmitt slík eftirlitsstöð, öryggisstöð og nauðsynjafyrirtæki eins og ráðherrann sagði, rísi hér. Og ég bæti við hans skoðanir og sjónarmið, sem ég tel rétt: Það á einmitt að hraða þessu meira. Við ætlum ekkert að bíða til 1994 eftir því að það verði afvopnun á höfunum eins og á landi. Ég sagði við ráðherrann hér fyrir ári síðan, held ég, að hann ætti að ákveða það í dag og ég segi það aftur: Hann ætti að heimila það í dag að þessi forkönnun hefjist því við ætlum ekkert að bíða eftir 1994. Við þorum ekki að bíða svo lengi. Og ég held að þjóðir í Austur-Evrópu þori heldur ekki að bíða svo lengi. Það gæti verið um seinan þá og þess vegna á að halda þeirri stefnu áfram, þeirri öryggis- og varnarstefnu sem Atlantshafsbandalagið hefur tryggt. Það á að afvopnast og það á að vernda þessi svæði og fylgjast með framþróun. Það er enginn kominn til með að segja í dag hvort svona varaflugvöllur yrði undir stjórn Íslendinga einna, Sameinuðu þjóðanna eða hverra sem væri, en hann verður að vera fyrir hendi ef afvopnun á að takast á skömmum tíma og standa undir ótvíræðu ákvörðunarvaldi okkar. Og það á að hefjast handa sem allra fyrst.