Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það verða ekki nema nokkur orð. Þetta hefur verið dálítið sérkennileg umræða. Eins prúður maður og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson var að gefa það í skyn að við sem værum á móti þessari framkvæmd vildum halda að okkur höndum. Er það virkilega meining hv. þm. að það sé núna rétt stund til þess að fara að byggja upp ný hernaðarmannvirki? Ég er eiginlega alveg hættur að skilja hvernig þessir hv. þm. hugsa.
    Í sambandi við það sem hæstv. utanrrh. sagði að það gæti verið lykilatriði að hér væri kominn upp varaflugvöllur. Hvernig hefur NATO komist af á undanförnum árum á meðan þessi spenna var? Hefur ekki verið notast við flugvöllinn á Miðnesheiðinni? Er það virkilega álit hv. þm. að aðstæður í Austur-Evrópu hafi breyst á þann veg að nú sé um að gera að fara að byggja ný hernaðarmannvirki og sú aðstaða sem NATO hefur á Íslandi sé nú ekki nægileg eftir að þessi breyting hefur farið fram? Ég eiginlega veit ekki hvernig stendur á þessum málflutningi. Ég held að þeir meini þetta ekki. Ég held að það sé allt annað sem liggur þarna á bak við.
    Það er auðvitað alveg fjarstæða sem kom fram hjá hv. þm. Kristni Péturssyni að samþykkt sem var gerð fyrir um 50 árum í sambandi við réttindi NATO gildi nú. Það þurfi ekkert að fjalla um þetta mál vegna þess að sú samþykkt heimili, að mér skildist á hans málflutningi, að NATO geti gert hvað sem það vildi hér á Íslandi. Það er náttúrlega alveg fráleitt. Ég er alveg hissa á því að nokkur hv. þm. hafi þessa skoðun og a.m.k. fari þá vel með hana þó hann hafi hana.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að segja mikið meira. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson fór að tala um það sem ég var að tala um, neðanjarðarbyrgi. Honum fannst það fráleitt að það yrði gert. Auðvitað er það fráleitt. En hvernig stendur á því að sú niðurstaða varð með könnunina í Grænlandi að þetta ætti að kosta 50--60 milljarða? Það er auðvitað alveg út í hött að það kosti þetta ef
ekki er um að ræða neðanjarðarbyrgi fyrir nokkuð mikinn flugflota. Um þetta hef ég talað við menn sem hafa nokkra þekkingu á þessu sviði.
    Nei, ég held að það sé alveg rétt sem kom fram hjá, að ég held, hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur. Þetta er tímaskekkja. Þetta á ekki við þennan tíma eins og ástandið er. Það lítur út fyrir að Varsjárbandalagið sé að liðast í sundur. Eins og staðan er í Evrópu eru engar forsendur fyrir því að fara að byggja nýtt hernaðarmannvirki hér á Íslandi. Allar umræður um atvinnuuppbyggingu og aukið atvinnulíf í sambandi við þessa herstöð er auðvitað út í hött. Það sem þarf að gera er að koma upp flugvöllum í þremur landshlutum a.m.k., sem flutningavélar geta flogið til og frá ef við á annað borð leitum með okkar fiskmeti ferskt á erlendan markað. En varaflugvöllur, herflugvöllur einhvers staðar leysir ekki þessi mál. ( Gripið fram í: Hvaða landshlutar eru það?)