Nýtt hús fyrir Alþingi Íslendinga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Það kom í hug minn þegar hv. flm. þessarar tillögu var að flytja framsögu sína að í jafnmerku máli sem þessu væri rétt að sem stærstur hluti þingheims tæki þátt í umræðunni og meðan ég var hér einn í þingsalnum þá fannst mér tilhlýðilegt að þeir sem væru viðstaddir umræðuna tækju þátt í henni.
    En það er fleira sem þar kemur til. Mér finnst að hv. þm. hafi bent á ákveðin atriði í sambandi við væntanleg húsnæðismál Alþingis og umræðu undanfarinna missira um þau mál. Hann upplýsti að það væru fyrir hendi veitingamenn sem hefðu áhuga á því að kaupa Hótel Borg og vildu halda þar uppi hótelrekstri. Þetta eru upplýsingar sem mér finnst sérstakar og rétt að vekja athygli á. Ef þannig er að umræða hér og fyrirætlanir forseta Alþingis um það að kaupa Hótel Borg koma í veg fyrir það að þessar hugmyndir nái fram að ganga, þá finnst mér það skylda Alþingis að vera ekki að halda málinu lengur á því stigi sem það er í dag heldur taka ákvörðun um hvort þingið ætli sér að kaupa Hótel Borg og nota það fyrir starfsemi þingsins en láta ekki tímann líða eins og undanfarið án þess að nokkur ákvörðun sé tekin.
    Ég hef lýst því yfir áður að ég teldi það mikinn sjónarsvipti á miðborg Reykjavíkur ef Hótel Borg hætti að sinna því hlutverki sem hún hefur sinnt undanfarna áratugi, að vera miðborgarhótel, bæði sem góður veitingastaður og virðulegur og gott hótel. Ég hef samt ekki lagst gegn þeim hugmyndum sem uppi hafa verið um það að Alþingi keypti Borgina fyrir sinn rekstur.
    Aðalatriðið núna, að mínu mati, er að það verði tekin ákvörðun í þessu máli gagnvart Hótel Borg. Því ef svo er, sem ég efast ekki um, og sem fram kom í ræðu frsm., að fyrir hendi væru aðilar sem vildu fara í veitingarekstur þarna, þá á Alþingi ekki að tefja þá fyrirætlun með óþarfa drætti í ákvarðanatöku.
    Um hugmyndir hv. þm. um það hvernig skuli byggja yfir Alþingi vil ég aðeins segja það að ég hef ekki áhuga á einhverjum tvílembingum hér á Alþingislóðinni, þ.e. tveimur eins húsum sem sneru bökum saman. Ég held að það mundi ekki prýkka útlit miðbæjarins, nema síður væri. En staðsetning á nýju húsi á gömlu Gúttólóðinni finnst mér koma vel til greina en ekki endilega eins byggingu og það hús sem hér stendur. En að beinlínis hugsa til þess að byggja nýja byggingu með nákvæmlega sama útliti og þetta hús sem við erum í núna, það finnst mér ekki frumleg tillaga, nema síður sé.
    Ég hef haft það af að koma upp í ræðustól til þess að taka þátt í þessari umræðu og þar með hefur helmingur þeirra þm. sem staddir eru í þingsalnum fjallað um tillöguna.