Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir því að ég varð mjög hissa á þessum orðum hv. 3. þm. Vestf. og finnst raunar að hann sé orðinn nokkuð mengaður af málatilbúnaði Sjálfstfl. um þetta frv. Það er kannski út af því að ég sat í þeirri nefnd sem samdi bæði frumvörpin og raunar líka frv., sem ég mundi telja að væri nauðsynlegt að kæmi hér fram, um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands, að ég vil gera grein fyrir því hvernig þetta er upp byggt og af hverju þetta er gert á þennan hátt sem hér er gert, hvert mitt mat er á því sem fram hefur komið hér um það hvort eigi að afgreiða frv. saman eða hvort í sínu lagi.
    Það er þannig í flestum löndum og eiginlega öllum löndum Vestur-Evrópu að ekki eru til sérstök lög um stjórnarráð þessara landa heldur eru ráðuneyti stofnuð með einfaldri ákvörðun, oft og tíðum í tengslum við nýjar ríkisstjórnir. Það hefur aldrei verið gagnrýnt í þessum löndum hvort eigi að stofna ráðuneyti. Og oftar en ekki liggur ekki fyrir hvaða verkefni eigi að falla undir viðkomandi ráðuneyti fyrr en löngu seinna. Þess vegna finnst mér þessi málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð um það að afgreiða þetta hvort í sínu lagi ekkert vandamál í sjálfu sér. ( Gripið fram í: Hvaða lönd er þm. að tala um?) Öll lönd Vestur-Evrópu. Þess vegna finnst mér það eitt að Alþingi viðurkenni að hér skuli stofna umhverfisráðuneyti vera það atriði sem máli skiptir og ég er mjög undrandi á þeirri afstöðu sem fram kemur hjá fulltrúum Sjálfstfl. og Kvennalistans sem hafa lýst hér yfir úr þessum ræðustóli að þeir hafi verið frumkvöðlar að því að hugsa um umhverfismál. Hér tel ég fyrsta skrefið vera tekið með þessari viðurkenningu. Ég verð því að vísa því sem fram hefur komið í þessari umræðu algerlega á bug, að verið sé að keyra einhver mál í gegnum þingið vanhugsað og að verið sé að stofna ráðuneyti án verkefna.
    Menn verða líka að líta til þess hvernig lögin um Stjórnarráð Íslands eru upp byggð. Hvernig gekk Bjarni Benediktsson frá lögunum um Stjórnarráð Íslands? Hann gekk frá þeim þannig að lögin eru örfáar greinar, síðan er málefnunum komið þannig fyrir að það er forseti Íslands sem mælir fyrir um það hvaða verkefni skuli falla undir viðkomandi ráðuneyti. Það sem fylgifrv. mælir fyrir um er aðeins eitt, að breyta yfirstjórn viðkomandi málaflokka sem þar koma fram úr t.d. landbrn. í umhverfisráðuneyti eða úr menntmrn. í umhverfisráðuneyti, en ekki að það sé ekki hægt að setja reglugerð og koma verkefnum með reglugerð undir umhverfisráðuneytið. Það er gert með einfaldri reglugerðarbreytingu og ég geri ráð fyrir því að þegar þetta frv. hefur verið
samþykkt verði reglugerðinni um það hvaða málaflokkar skuli falla undir umhverfisráðuneytið breytt. Þetta frv. getur því lifað eitt og sér.
    Ég hefði kosið, þar sem þetta er angi af miklu stærra máli, að fyrir þingið hefði verið lögð heildarendurskoðun á lögunum um Stjórnarráð Íslands

til að sjá hvað er verið að gera í þeirri endurskoðun og hvernig verkefnatilflutningurinn lítur út milli allra ráðuneytanna, ekki bara að taka umhverfisráðuneytið eitt sér. Og ég vonast svo sannarlega til þess að hæstv. ríkisstjórn leggi þá endurskoðun fram innan tíðar.
    Eins og ég sagði áðan er engin spurning í mínum huga um stofnun umhverfisráðuneytis. Það átti að gerast fyrir a.m.k. 10 árum síðan. Því miður erum við orðin mjög aftarlega í allri umræðu um umhverfismál. Á alþjóðavettvangi er í dag aðallega fjallað um umhverfismál. Í hverjum mánuði, næstum því í hverri viku er einhvers staðar um allan heim ráðstefna um umhverfismál. Umhverfismálin hafa tekið við af afvopnunarmálum á alþjóðavettvangi og menn eru betur meðvitaðir um þýðingu umhverfisins fyrir lífsafkomu alls heimsins en áður var. Og menn eru farnir að tala um þriðju heimsstyrjöldina í þeirri merkingu að við erum að tortíma okkur vegna mengunarinnar og eyðingar umhverfisins. Ég fagna því svo sannarlega að þetta umhverfismálafrv., eða breyting á lögunum um Stjórnarráð Íslands, skuli vera komið til Ed. og þar komi fram að stofna skuli umhverfisráðuneyti.
    Eins og fram hefur komið er frv. ekki mikið að vöxtum. Í því er aðeins eitt orð. Á eftir orðinu ,,sjávarútvegsráðuneyti`` komi orðið umhverfisráðuneyti. Niðurstaða nefndarinnar var að betra væri að koma þessu fyrir á þennan veg en að semja frv. þar sem verkefnin væru samtvinnuð því þetta er í samræmi við það sem lögin um Stjórnarráðið kveða á um. Þar er upptalning á þeim ráðuneytum sem skulu vera til. Og umhverfisráðuneytið er á þeim lista orðið 14. ráðuneytið. Síðan kemur þetta fylgifrv. sem hér hefur verið gert að umtalsefni og er til meðferðar í Nd. og ég geri ráð fyrir því að það komi innan tíðar til þessarar deildar.
    Ég vil ekki líta þannig á að óhjákvæmilegt sé að afgreiða þessi mál saman. Þvert á móti tel ég rök hníga til þess að nauðsynlegt sé að afgreiða þetta mál áður en hitt málið verður afgreitt vegna þess að því miður hefur það allt of oft gerst að hrúgað er inn miklum verkefnum áður en eða um líkt leyti og viðkomandi stofnun tekur til starfa. Þess vegna finnst mér eðlilegast og tel raunar að fyrsta kastið eigi ekki að hafa mörg verkefni undir
umhverfisráðuneytinu heldur eigi það að þróast eftir því sem menn koma sér saman um og eftir því sem nauðsyn krefur um hinn og þennan málaflokkinn. Það er alveg rétt sem lesið var úr greinargerðinni með frv. um hinn svokallaða bandorm að það er fylgifrv. með þessu frv. en það eitt þýðir ekki að það eigi að afgreiða þau saman.
    Því hefur verið haldið fram í þessari umræðu af hv. 6. þm. Reykn. að hér sé farið að hlutunum í öfugri röð af því að hér er verið að stofna umhverfisráðuneyti án þess að það hafi verkefni. En eins og ég sagði áðan verður ákveðnum verkefnum komið undir umhverfisráðuneytið með einfaldri reglugerðarbreytingu. Ég hef ekki miklar áhyggjur af

því að starfsmenn ráðuneytisins hafi ekki nóg að gera fyrstu dagana. Það mætti líkja þessu við það að auðvitað byggir maður húsið áður en maður hefur starfsemina. Það er eins og fram kom hér í orðum hv. 6. þm. Reykn., að byggja húsið og kaupa vélina og hefja starfsemina, það er bara ekki hægt. Það verður fyrst að byggja húsið og síðan að kaupa vélarnar og síðan að hefja starfsemina ef um slíkt er að ræða, ef þetta á að ganga upp.
    Í máli hv. 6. þm. Vesturl. kom fram að nefndin hefði klofnað í afstöðu sinni í heild. Það er alrangt. Hún klofnaði í afstöðu til tveggja mála, annars vegar skógræktar og hins vegar landgræðslu. Ég var þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar að hvor tveggja þessara málaflokka, skógrækt og landgræðsla, eigi að falla undir umhverfisráðuneytið af því að skógrækt og landgræðsla verður ekki talið landbúnaðarmál, ég get ekki séð hvernig uppgræðsla geti verið talin landbúnaðarmál. Hins vegar var komið á þeirri málamiðlun milli þessara sjónarmiða vegna þeirrar miklu gagnrýni sem kom bæði frá Skógrækt ríkisins og Landgræðslu að fara þarna bil beggja, færð skyldu aukin verkefni til Náttúruverndarráðs og ýmsar heimildir í væntanlegri umhverfisverndarstofnun sem Landgræðslan hefur í dag. Ég held að það væri heppilegt sem fyrsta skref að hafa það með þeim hætti. Þegar þetta ráðuneyti og þessi málaflokkur, umhverfismálin, hafa þróast held ég að engin spurning sé um það að Landgræðslan og Skógræktin koma til með að falla undir umhverfisráðuneytið. Það er bara spurningin hve stórt skref á að taka í einu.
    Það kom fram hjá hv. þm. Salome Þorkelsdóttur að mælt sé gegn stofnun umhverfisráðuneytis í þeim umsögnum sem komið hafa til allshn. Nd. Það er alrangt. Í meginatriðum fagna flestir umsagnaraðilar stofnun umhverfisráðuneytis. Einstaka aðilar, og þeir aðilar einir sem óttast um hag sinna stofnana eins og t.d. Hollustuvernd ríkisins, eru með ýmsar efasemdir um það hvort eigi að fella stofnunina undir umhverfisráðuneytið eða ekki. Ég skil sjónarmið þeirra mjög vel. Í nefndinni var einmitt farið mjög ítarlega ofan í þessa þætti og niðurstaða Hermanns Sveinbjörnssonar, forstöðumanns Hollustuverndar, var að betra væri að Hollustuverndin færi undir umhverfisráðuneytið en að kljúfa stofnunina upp. Á þeim forsendum varð það niðurstaða nefndarinnar að fella þetta undir umhverfisráðuneyti en ekki að það hafi verið ágreiningur um stofnun ráðuneytisins. Í umsögnum og þeim viðtölum sem nefndin átti við þá menn var verið að velta upp öðrum möguleikum, hvort heppilegra væri að hafa heilbrigðis- og umhverfisráðuneyti í einu ráðuneyti og um það urðu töluverðar umræður þar sem Hollustuverndin tengist mjög mikið heilbrigðismálum. Sama var um Geislavarnir ríkisins.
    Ég ætla ekki að fara ofan í einstaka málaflokka. Ég tel heppilegra að bíða hins frv. sem hér hefur verið kallað, og ég hef raunar líka kallað, fylgifrv. þessa frv. hér. En ég vil segja það eitt að lokum og til upplýsingar um það hvað er að gerast á alþjóðlegum

vettvangi um umhverfismál að í Sovétríkjunum hefur þetta mikla vandamál, sem er umhverfismálin, leitt af sér að stór hluti Sovétríkjanna er orðinn óbyggilegur vegna mengunar, hreinnar eitrunar. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef telja Sovétmenn sjálfir að helmingurinn af Síberíu sé dauður vegna iðnaðarmengunar, ekki eins og flestir mundu telja óbyggilegur vegna frosthörku heldur iðnaðarmengunar.
    Í Bandaríkjunum eru núna mjög miklar umræður um það hvort eigi að stofna þar umhverfisráðuneyti og ég held að flestir á þingi Bandaríkjanna séu sammála um að stofna ráðuneyti. Sú umhverfisstofnun sem þeir settu á fót í kringum 1970 þjónar ekki þeim markmiðum sem þeir höfðu sett sér upphaflega. Þeir hafa tapað því frumkvæði, að þeir telja, sem þeir höfðu á alþjóðavettvangi vegna þess að þeir höfðu ekki umhverfisráðuneytið og höfðu ekki samræmda stjórn á sínum umhverfismálum.
    Ég held að við ættum að athuga okkar gang mjög vel þegar þetta mál kemur til kasta allshn. Ed. og svara þeirri einu spurningu sem þetta frv. mælir fyrir um: Eigum við að stofna umhverfisráðuneyti eða ekki? Það er sú eina spurning sem frv. varpar fram. Ég skil ekki alla þá umræðu sem verið hefur um þetta frv., enda hefur hún ekkert verið um frv. Hún hefur verið um allt annað. Það er ein spurning sem frv. er að leita svara við. Og annað hitt, ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun síðasta sumar og mér finnst mjög bagaleg öll þessi umræða, mér hefur fundist mjög leitt það sem þessi umræða hefur komið af stað, að menn úti í þjóðfélaginu eru orðnir neikvæðir gagnvart þessu ráðuneyti áður en það
er komið á laggirnar af því að málið hefur ekki snúist um það sjálft heldur snúist um allt annað. (Gripið fram í.) Það er allt annar hlutur. Þess vegna eigum við þm. á hv. Alþingi að reyna að halda okkur við efni málsins, ekki vera að eyðileggja góð mál með kjaftavaðli um einskis verða hluti. Auðvitað hefur margt komið fram í allri þessari umræðu um það hvernig einstakir menn hafa hagað sér og hvort það sé rétt að það sé verið að koma stól undir ákveðinn ráðherra. En það skiptir ekki máli. Málið er málefnið sem slíkt, hvort hér skuli stofna umhverfisráðuneyti eða ekki. Og eins og ég sagði áðan, í allri Vestur-Evrópu er hægt að taka svona ákvörðun af forsrh. viðkomandi lands með einu bréfi.
    En ég vil þakka þeim sem hér hafa talað engu að síður fyrir það sem þeir hafa sagt um þetta og vænti þess að í hv. allshn. getum við farið yfir þetta einstaka mál án þess að vera að tengja það einhverju öðru sem er því óviðkomandi.
    Auðvitað tengist margt umhverfismálum. ( SalÞ: Vill þm. nefna það sem sagt hefur verið hér og er málinu óviðkomandi?) Ég ætla ekkert að fara yfir þá hluti. Þingmenn sem hér eru inni vita hvaða stefnu málið hefur tekið. Og ég ætla ekkert að orðlengja það, enda held ég að það sem skipti máli sé það eitt að þetta frv. verði afgreitt og ætla því ekki að hafa þessi orð mín fleiri.