Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ekki fannst mér ræða hv. 5. þm. Reykv. hér áðan bæta umbúðirnar utan um málsmeðferðina sem hér er viðhöfð nema síður væri. Sú fullyrðing hans að ég sé mengaður af viðhorfum Sjálfstfl. í þessum málum --- ja, hann kannski þekkir betur til þar en ég. (Gripið fram í.) Já. Hv. þm. sver hann af sér. Nei, hv. þm. Guðmundur Ágústsson. Mín viðhorf eru ekkert menguð af viðhorfum sjálfstæðismanna í þessu máli. Ég hef yfirleitt í stjórnmálum, frá því að ég hóf afskipti af þeim, reynt að mynda mér sjálfur skoðanir á málefnum, ekki hvað síst stórum málefnum, viðfangsmiklum, sem menn verða auðvitað að hafa einhverja skoðun á, ekki bara flokkurinn, heldur einstaklingurinn líka. Og þetta á ekki að vera nein viðskiptavara milli flokka í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu eins og mér finnst málið bera æðimikinn keim af í þessum efnum. Af hverju var lögð á það áhersla, þegar þessi mál voru lögð fram bæði í haust, að þau fylgdust að? Af hverju, hæstv. forsrh.? ( Forsrh.: Til að kynna frv.) Nei, að þau fylgdust að í gegnum þingið. (Gripið fram í.) Þannig var það lagt fyrir þingflokk Alþfl. a.m.k. Ég hygg að svo hafi verið um fleiri. Af hverju það? Og síðan núna fyrir rúmri viku er það höfuðnauðsyn hæstv. ríkisstjórnar að knýja á um afgreiðslu þessa máls, eins og sér, út úr þinginu. Af hverju? (Gripið fram í.) Ja, ég hef engin svör á reiðum höndum þar um. Ég tók þessi mál bæði svo, að þau væru þess eðlis að þau þyrfti að afgreiða samhliða en trúlega hefur eitthvað annað komið upp í meðferð, í hæstv. ríkisstjórn, hv. stjórnarflokkum kannski eða einhvers staðar annars staðar, þegar leið á.
    Hv. þm. Guðmundur Ágústsson sagði að svona málsmeðferð hefði aldrei verið gagnrýnd í útlöndum eða í Vestur-Evrópu. Hverju breytir það fyrir okkur? Í þessum ummælum er hv. þm. orðinn mengaður frá útlöndum. Ef á að taka fyrirmyndina þaðan, af því að þeir hafa ekkert við svona málsmeðferð að
athuga, þá eigum við að taka hana góða og gilda. Þetta er mesti misskilningur hjá hv. þm. Við eigum auðvitað að hafa okkar skoðun á málinu burt séð frá því hvað menn í Vestur-Evrópu segja.
    Það kann vel að vera að menn vilji leggja þetta mál þannig út að hér sé bara verið að spyrja hvort það eigi að stofna umhverfisráðuneyti. Þetta er auðvitað miklu meira en sú spurning. Hér er verið að ákveða að gera það án þess að nein verkefni liggi fyrir sem ráðuneytið á að starfa að. Það kann vel að vera að þetta kosti ekki mikla peninga þó að menn fari svona að með mál, en á svona fordæmi er eigi að síður ekki treystandi. Það gæti verið hættulegt að grípa svona upp og stofna til ráðuneyta, embætta eða hvers sem er án þess að nokkur verkefni lægju fyrir hjá viðkomandi aðilum. Það eru svona fordæmi sem á að forðast að séu tekin upp, hvað svo sem peningahliðinni líður. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að á þessum tímum væri kannski eitthvað

annað frekar fyrir hæstv. ríkisstjórn að gera en að stofna til svona hluta án þess að nokkur verkefni eigi að fylgja.
    Ég legg áherslu á það að ef menn ætla þessa leið, þá eru menn að skapa fordæmi sem ég tel mjög slæmt og pólitísk staða, tímabundin, á engu að ráða í slíkum efnum.
    Þá talaði hv. þm. um að fólk úti í bæ hefði þessa og hina skoðun og talaði um það, að mér fannst, í heldur niðurlægjandi tón. Auðvitað á það fólk líka að hafa skoðun í þessum málum eins og öðrum, ekki kannski síst í þessu. Það á að hafa skoðun á því hvernig fulltrúar þess hér á Alþingi, sem kjörnir eru af því, fara með peningana sem það skaffar í sjóðinn. Menn á ungdómsárum ættu að temja sér það í pólitík að líta til þessara átta og ekki að tala um fólk úti í bæ í vanvirðutón. Það eru einstaklingar sem líka eiga að hafa skoðun.
    Ég skal ekki, herra forseti, fara öllu fleiri orðum um þetta. Ég hef lýst minni skoðun í málinu en ég ítreka enn: Til hvers var verið að leggja bæði málin fram og fylgja þeim þannig úr hlaði að þau ættu að verða samferða í gegnum þingið en taka nú til þessara ráða fyrir rúmri viku síðan?