Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson (um þingsköp):
    Herra forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að kveðja sér hljóðs um þingsköp í sambandi við annað dagskrármálið sem ætlunin var að hefja umræður um. Ég vil aðeins minna á að á fyrsta fundi sem þetta mál kom til umræðu á gerði ég fyrirspurn um það hvort hæstv. iðnrh. mundi verða við óskum Sambands ísl. rafveitna og Sambands ísl. hitaveitna um að beita sér fyrir því að frv. verði dregið til baka. Ég taldi að ekki væri eðlilegt að umræðan þá héldi áfram nema fyrir lægi hver væru viðbrögð hæstv. iðnrh. við þessari ósk. Á þessari forsendu var umræðunni frestað.
    Ég minni á að sl. fimmtudag kom þetta mál aftur upp og af sömu ástæðum. Ég benti á í þingskapaumræðu að ekki væru komin svör við þessum spurningum en það ylti mjög á þeim hvernig umræður gætu orðið um þetta mál. Hæstv. forseti tók tillit til þessa enn á ný og frestaði umræðum. Nú kemur málið fyrir og er ætlunin að taka það til umræðu. Þá minni ég enn á það að í dag, í þingskapaumræðu sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hóf, lýsti hæstv. forsrh. því yfir að þetta mál sem hér um ræðir og ég hafði í bæði skiptin áður spurt sérstaklega um, hvort hæstv. iðnrh. ætlaði að leggja fyrir ríkisstjórnina, væri komið fyrir ríkisstjórnina, en, eins og hann orðaði það, það væri ekki útrætt í ríkisstjórninni. Nú þykir mér varða ákaflega miklu fyrir framhald þessarar umræðu að legið geti fyrir áður en umræðunni er haldið áfram hver úrslit þessa máls verða í ríkisstjórninni. Umræðan um þetta mál hlýtur mjög að mótast af því, en málinu er ekki lokið þar. Það mátti ætla af orðum hæstv. forsrh. að málið væri í ítarlegri athugun þar og það er ekkert einkennilegt því að auk þess sem efni frv. orkar mjög tvímælis, þá er sú staða komin upp
hvort ríkisstjórnin hyggst standa vörð um þá kjarasamninga og samstöðu aðila vinnumarkaðarins sem nýlokið er eða hvort ríkisstjórnin ætlar að hlaupast frá því máli með því að heimila að haldið verði áfram afgreiðslu þessa frv. um skatt á orkufyrirtæki sem fyrirsjáanlegt er að mundi valda stórkostlegri kjaraskerðingu fyrir almenning í landinu og verða verðbólguhvetjandi og ganga þvert á yfirlýstan tilgang kjarasamninganna sem nú er lokið.
    Með tilliti til þessa vil ég leyfa mér að fara þess á leit að þessari umræðu um 2. dagskrármálið verði frestað þar til fyrir liggur niðurstaða ríkisstjórnarinnar um þetta efni.