Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Að baki þessa samnings sem nú er óskað fullgildingar á er samningur sem þjóðir Sameinuðu þjóðanna gerðu árið 1984 og var undirritaður fyrir Íslands hönd 4. febr. 1985. Undirrituðu hann þá 21 ríki. Sá samningur hét svo til sama nafni og sá sem nú er fram lagður. Ég fagna því og vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að gangast fyrir því að þessi samningur verði undirritaður. En því stend ég hér upp að árið 1987 flutti ég hér fsp. í þinginu til þáv. hæstv. dómsmrh. um hvað liði fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í svari hæstv. þáv. dómsmrh. Jóns Sigurðssonar kom fram að vissulega væri ekki annað sæmandi en að samningurinn yrði fullgiltur, en hann gerði einnig að umræðuefni ýmis atriði sem þyrftu breytinga við í íslenskum lögum til þess að í raun og veru væri hægt að fara að samningi sem þessum og það hygg ég að eigi við báða samningana. Hæstv. þáv. ráðherra sagði, með leyfi forseta:
    ,,Í fyrsta lagi skal hvert aðildarríki skv. 4. gr. samningsins tryggja að hvers konar pyndingar teljist til afbrota skv. refsilögum þess. Það sama skal gilda um hlutdeild og tilraun til pyndinga. Skilgreiningin í 1. gr. samningsins á því hvað teljist pyndingar er ekki fullskýr og ekki svo skýr að ljóst sé án ítarlegrar athugunar hvort íslensk hegningarlög veiti refsivernd gagnvart öllum tegundum pyndinga.``
    Þá sagði hann í öðru lagi að sérstaklega þyrfti að athuga hvort refsilögsaga skv. 5. gr. samningsins væri í samræmi við íslensk lög.
    Í þriðja lagi er talað um 14. gr. samningsins þar sem ekki séu fullskýr ákvæði um bætur til þess sem sætt hefur pyndingum. Og hann segir að lokum, með leyfi forseta: ,,Auk þess sem að framan hefur verið nefnt er ljóst að við fullgildingu þessa samnings taka íslensk stjórnvöld á sig skyldur sem taka þarf afstöðu til hvernig fullnægja skuli.`` Og hann nefnir nokkur dæmi, svo sem að tryggja að kennsla og upplýsingar um bann við pyndingum verði gagngert innifalin í þjálfun löggæslumanna, starfsfólks heilsugæslu, yfirheyrslu eða meðferð hvers þess manns sem sætir handtöku, varðhaldi eða fangelsun af nokkru tagi og að aðildarríkin skuli tilgreina þetta bann í þeim reglum eða fyrirmælum, sem sett eru með hliðsjón af skyldum og verksviði allra slíkra starfsmanna.
    Þáv. hæstv. dómsmrh. brást mjög skjótt við fyrirspurninni og tilkynnti mér, að ég hygg þrem vikum eftir fyrirspurn mína, að samningurinn hefði verið staðfestur. En ég minnist þess ekki að hér á hinu háa Alþingi hafi komið fram frumvörp til laga sem skýrðu nánar það sem hæstv. þáv. ráðherra var að hafa áhyggjur af eða sú breyting væri gerð á íslenskum lögum að þeir sem sættu ómannúðlegri meðferð eða vanvirðandi væru á nokkurn hátt í raun og veru tryggðari skv. íslenskum lögum. Nú kann þetta að hafa farið fram hjá mér, en ég held þó að ég megi fullyrða að lítið hafi verið um það.

    Við vitum öll að því miður á sér stað í heiminum óhugnanleg og skelfileg meðferð á fólki fyrir það eitt að hafa skoðanir sem ekki falla valdhöfum í geð. Við getum líka tekið sem dæmi um ómannúðlega meðferð, og það veit ég að hæstv. dómsmrh. veit allt of vel, meðferð á geðveikum afbrotamönnum sem ekki er til fyrirmyndar hér í okkar góða landi. Það er ómannúðleg meðferð og vanvirðandi að geðveikir menn sem ekki voru sakhæfir verði að híma í fangelsum með sakamönnum sem áttu að geta séð fótum sínum forráð og stjórnað gerðum sínum. Þannig mætti auðvitað lengi telja.
    En ég er ekki að biðja hæstv. dómsmrh. um ákveðið svar eða svör við þessum spurningum mínum um íslensk lög. Ég vil einungis biðja hann að kanna hvort þessum annars góðu sáttmálum hefur verið fylgt eftir með breytingum á íslenskri löggjöf. Það hafa birst greinar í blöðum hér á landi þar sem ákærðir menn hafa kvartað yfir illri meðferð af hálfu lögreglumanna og við erum víst öll sammála um það að við vildum helst ekki heyra um slíkt hér í okkar landi. Harkalegri meðferð hvers konar hefur verið lýst í tímaritsgreinum og öðrum slíkum ritum. Það þarf því ekki að fara til Argentínu, Chile eða landa þar sem illa hefur verið farið með fólk í þúsundatali. Við getum áreiðanlega ekki alveg hvítþvegið okkur af því heldur og þess vegna hlýt ég að spyrja, um leið og ég fagna því að þetta frv. kemur fram af því að þar viljum við ekki láta okkar eftir liggja, hvort ekki sé ástæða til að fela einhverjum þar til bærum aðilum að fara ofan í refsilöggjöfina okkar með tilliti til þessara samninga.