Dómsvald í héraði
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. um staðfestingu bráðabirgðalaga sem gefin voru út síðustu daga janúarmánaðar, nokkrum dögum áður en Alþingi kom saman til fundar. Ýmsum fannst að þarna væri dálítið sérkennilega unnið, að það skyldi vera gripið til þess að gefa út bráðabirgðalög þegar ekki voru nema nokkrir dagar til þess að Alþingi kæmi saman.
    Ég var ekki á þeirri skoðun og ég óska hæstv. dómsmrh. til hamingju með það að hann skuli hafa með röggsemi ákveðið að gefa út bráðabirgðalög þannig að þau ákvæði sem í þessu frv. eru yrðu eins fljótt að lögum og mögulegt var samkvæmt okkar stjórnarskrá. Ég tel að hér sé á ferðinni eitt af mikilsverðari málum sem fyrir Alþingi koma og hafi í þessu tilfelli ekki þolað neina bið eftir því að Alþingi kæmi saman til þess að fjalla um þau heldur var farin sú hin rétta leið að gefa út bráðabirgðalög strax eftir að dómar Hæstaréttar höfðu fallið eins og hæstv. dómsmrh. lýsti hér áðan.
    Það er reyndar eftirtektarvert að um þetta mál, eins mikilsvert og ég tel það vera og ég geri ráð fyrir að margir séu sama sinnis, hefur verið tiltölulega lítil umfjöllun í fjölmiðlum. Sú umfjöllun reyndar að það væru búin til nokkur ný embætti og lítið annað. Það hefur ekki verið útskýrt neitt til hlítar í fjölmiðlum hvað raunverulega varð þess valdandi að þetta þurfti að eiga sér stað, þ.e. útgáfa þessara bráðabirgðalaga eða sú þróun sem hefur verið í réttindamálum sakborninga á undanförnum árum. Sú þróun hefur reyndar komið inn á hv. Alþingi í þeirri mynd að Alþingi er búið að samþykkja lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds sem taka eiga gildi 1. júlí 1992 eins og hæstv. dómsmrh. nefndi.
    Þegar verið var að vinna að þeim lögum kom upp í þeirri umræðu að sá frestur sem gefinn var frá samþykkt laganna til gildistöku þeirra væri jafnvel of langur. Aðrir höfðu uppi þau rök, og á þau var fallist, að það þyrfti ákveðinn aðlögunartíma þar til þær breytingar sem í þeim lögum felast kæmu til framkvæmda. Reynslan er sem sagt sú að skoðun þeirra sem töldu að þessi lög þyrftu að taka fyrr gildi hafa sannast og bráðabirgðalögin í janúar staðfesta þá skoðun.
    Það er þó ekki svo að ekki hafi átt sér stað smávegis umfjöllun um þetta mál í fjölmiðlum þó ég geri ekki mikið úr henni, og ætla ég að leyfa mér að lesa úr Morgunblaðinu, úr umfjöllun prófessors Davíðs Þórs Björgvinssonar um þetta mál í fyrsta lagi frá því 21. jan., með leyfi hæstv. forseta. Þar vísar prófessorinn til umræðu um þau mál sem hæstv. ráðherra nefndi að hefðu orðið þess valdandi að nauðsyn hefði verið að gefa út bráðabirgðalögin eftir meðferð Hæstaréttar á þeim málum. Þá segir Davíð Þór:
    ,,Í síðara málinu svaraði Hæstiréttur sambærilegum rökum með því að það samræmdist gildandi lögum að þeir sem hefðu með höndum lögreglustjórn færu
jafnframt með dómsvald í héraði.`` Það er sem sagt

verið að staðfesta það af hverju dómurinn var kveðinn upp áður í málinu, þ.e. sá dómur sem var vísað frá í Hæstarétti.
    ,,Ákvæðum 6. gr. Evrópusamningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. auglýsingu nr. 11 9. feb. 1954, hefur ekki verið veitt lagagildi hér á landi. Breyta þau því ekki þeirri lögbundnu skipan sem að framan er greind þar sem hinn áfrýjaði dómur var samkvæmt þessu kveðinn upp af héraðsdómara sem til þess var bær að íslenskum lögum. Verður hann ekki ómerktur af þeirri ástæðu sem hér er um fjallað þótt í málinu hafi verið lagðar fram skýrslur sem lögreglumaður í umdæmi héraðsdómara hafði tekið.`` Hér er verið að benda á rök fyrir því að héraðsdómur kvað upp sinn dóm.
    Og áfram segir Davíð Þór: ,,Kjarni röksemdafærslunnar í þessu máli er sá að Evrópusamningurinn hefði ekki lagagildi hér á landi. Eðlilegt er að menn spyrji hvað hafi breyst síðan þá, sem réttlæti það að Hæstiréttur snýr nú alveg við blaðinu. Í forsendum dómsins frá 9. jan. sl. segir að í málinu beri að hafa eftirtalin atriði í huga: Að íslenska stjórnarskráin byggi á því að ríkisvaldið skuli vera þríþætt og sérstakir dómarar fari með dómsvaldið. Þær sérstöku sögulegu og landfræðilegu aðstæður sem bjuggu því að baki að sömu menn fara með lögreglustjórn og dómsvald utan Reykjavíkur eigi nú miklu síður við. Alþingi hafi sett lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds sem taka eigi gildi 1. júlí 1992. Ísland hafi að þjóðarétti skuldbundið sig til að virða mannréttindasáttmála Evrópu.``
    Og áfram fjallar þessi sami prófessor um þetta mál í Morgunblaðinu fyrir viku síðan. Þar er hann að fjalla um umsögn Gauks Jörundssonar, prófessors og umboðsmanns Alþingis, og segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Það er einkum sá hluti 6. gr. sem fjallar um rétt manna til réttlátari málsmeðferðar fyrir óháðum, óhlutdrægum dómstóli sem snertir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað.`` Í þriðja hluta greinar sinnar ræðir Gaukur nokkuð um hvað þarna er átt við og rekur nokkuð mál sem farið hafa fyrir mannréttindadómstól Evrópu vegna þessa. Hann bendir á að samkvæmt ákvæðinu séu sett þau skilyrði að dómstjórn sé í senn óvilhallur og óháður:
    ,,Skv. 6. gr. telst dómstóll því aðeins óháður að hann sé óháður stjórnvöldum, framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi og málsaðilum. Þetta merkir að dómarar skuli vera í dómsstörfum sinum óbundnir af fyrirmælum frá öðrum. Krafan um að dómari sé óvilhallur felur í sér tvennt. Annars vegar að dómari má ekki í raun vera óvilhallur öðrum aðilanum í dómi sínum né má vera ástæða til að draga í efa hlutleysi dómara frá hlutlægu sjónarmiði. Þær aðstæður mega ekki vera þannig að þær séu til þess fallnar að hlutlægt sé að vekja tortryggni um að dómarinn sé ekki óvilhallur.``
    Svo mörg eru þau orð og eins og ég segi, þá held ég að þetta sé fyrst og fremst sú umfjöllun, sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum um kjarna þessa máls, hvað

hér er að eiga sér stað. Ég á sæti í þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um þetta mál og ég mun ekki lengja mál mitt mikið umfram þetta. En ég taldi ástæðu til þess að benda á þá þætti sem hér koma fram í greinum prófessors Davíðs Þórs Björgvinssonar og ég tel að séu grundvallaratriði, eins og reyndar kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh., í sambandi við ákvörðun ráðherra um hvernig staðið var að útgáfu bráðabirgðalaga og rökin fyrir því að óskað er eftir því að Alþingi samþykki þessi bráðabirgðalög.
    En það fer ekki hjá því að við það að vera kominn inn í þessa hv. deild og upp í þennan hv. ræðustól að maður spyrji, ekki aðeins hvað hafi breyst gagnvart Hæstarétti og gagnvart umboðsvaldi, dómsvaldi og lögregluvaldi í landinu, heldur líka hvað hafi breyst hér í hv. deild og hvað hafi breyst ef við lítum til afgreiðslu þeirra laga sem við samþykktum hér á haustdögum.
    Mig langar í fyrsta lagi að minna á það að við samþykktum hér á haustdögum lög um breytingu á lögum um fíkniefnadómstól. Þar var lögum breytt á þann veg að sá dómstóll hefði möguleika á að vera fjölskipaður og við töldum þá að við værum að lagfæra aðstöðu dómara í landinu til þess að framfylgja ákveðnu máli. Nú hefur reyndin orðið sú að sá dómari sem fyrir var í fíkniefnadómstóli hefur óskað eftir því að verða leystur frá því starfi einmitt í tengslum við það mál sem verið er að ræða hér og við aðgerðir mannréttindadómstóls Evrópu út frá því að sá dómari hafði þegar gert ákveðna hluti, úrskurðað menn í gæsluvarðhald, þannig að samkvæmt útskýringu mannréttindadómstólsins hafði hann komið of mikið nálægt málinu til þess að geta haldið áfram sem dómari.
    Ég þarf kannski ekkert að hafa fleiri orð um þetta. Við minnumst þessa máls og ég hef það svona frekar á tilfinningunni að það ætti að skoða það með umfjöllun þessara laga hvort ekki væri æskilegt að fíkniefnadómstólnum yrði breytt um leið og við samþykkjum og göngum frá bráðabirgðalögunum en það er svo annað mál.
    Annað mál samþykktum við hér á síðasta degi þingsins í haust áður en við fórum heim í jólafríið. Samþykkt voru lög af hv. deild um svokallað veiðieftirlitsgjald þar sem hæstv. sjútvrh. var að sækja eftir auknu valdi framkvæmdarvaldsins og tryggja sér fjármagn með beinni skattlagningu ráðuneytisins til þess að standa undir slíku valdi. Ráðuneyti sem starfar á vettvangi fiskveiða hefur vald til að taka ákvörðun um heildaraflamagn, ákvörðun um úthlutun þess aflamagns, ákvörðun um það hvernig hver og einn skuli notfæra sér þá veiðiheimild og ákvörðun um með hvaða veiðarfærum og á annan hátt skuli gengið í fiskistofna, þ.e. allsherjarvald um það hvernig fiskur er sóttur í sjó við landið. Og ef einhver brýtur þau lög, þá hefur það rannsóknarréttinn, réttinn til að fylgjast með hvernig fiskurinn er sóttur í sjóinn, síðan að kanna það hvernig sá fiskur er meðhöndlaður sem í land kemur, síðan að úrskurða um það hvort það er rangt eða rétt, og síðan að úrskurða á a.m.k. tvenna

vegu. Úrskurða um sekt manna og þá að ákvarða hvað sú sekt skuli vera mikil, og í þriðja lagi að úrskurða ef viðkomandi aðili fellir sig ekki við hina fyrri úrskurði ráðuneytisins. Til að sinna öllu þessu eftirliti með því hvort lögum landsins er framfylgt var síðan hér í haust samþykkt að veita þessu ráðuneyti heimild til þess að leggja sérstakan skatt á íslenskan skipastól til þess að standa undir eftirliti og byggja upp eftirlit innan ráðuneytisins sjálfs, ekki í neinni sérstakri stofnun, heldur innan ráðuneytisins sjálfs, með því hvernig hlutirnir eigi sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Ég gleymdi reyndar, virðulegi forseti, að nefna fyrstu skref ráðuneytisins í þessu máli, þ.e. að undirbúa löggjöf um þessi mál og í öðru lagi gefa út reglugerðir um þessi mál og í þriðja lagi ákveða heildarafla og síðan skömmtun á hvern veg. Samþykkt var hér á hv. Alþingi að eitt ráðuneyti á Íslandi skyldi hafa þetta vald. Og ekki aðeins að það hefði möguleika til þess að skattleggja atvinnugreinina til að standa undir þeim eftirlitsflokk sem hér var af öðrum ræðumanni í haust nefnt lögreglulið, og er vitaskuld ekkert annað en lögreglulið. Ráðuneytið hefur sjálft heimild til þess að nýta sér skattstofn, innheimta hann, gefa þeim eftir sem það telur rétt og ganga eftir af öðrum án þess að það sé undir eftirliti hins eðlilega skattáleggjanda, fjmrn.
    Ég taldi rétt við 1. umr. þessa máls að benda á þessa stöðu í íslensku réttarfari og hvort ekki væri nauðsynlegt um leið og þessi lög verða hér vitaskuld samþykkt af Alþingi að líta á þennan þátt, þennan alræðisþátt
framkvæmdarvaldsins á þessum vettvangi um leið og þessi lög verða skoðuð.
    Ég er hræddur um það, þó ég hafi það ekki í huga eins og stendur, að fleiri lög en þau sem ég hef nefnt í íslensku lagasafni séu á þann veg að framkvæmdarvald tekur sér dómsvald og rannsóknarvald í hendur. Ég tel nauðsynlegt, um leið og við viðurkennum 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að líta yfir og skoða íslensk lög alveg eins og hæstv. dómsmrh. er að gera með þessum bráðabirgðalögum. Það þarf að breyta þeim þá líka. Þetta er mikilvægt skref sem hér er stigið, en ýmsir aðrir þættir íslenskra laga eru sjálfsagt þannig að þörf er á að þeir verði skoðaðir. Og þó er kannski mest um vert að Alþingi hlýtur eftir samþykkt þessara laga og nú þegar búið er að gera þau gildandi sem bráðabirgðalög, að líta vel á þau lagafrv. sem verið er að leggja fyrir Alþingi og verða lögð fyrir Alþingi á næstu vikum og mánuðum og í framtíðinni út frá þeirri staðreynd að við höfum viðurkennt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með þeim bráðabirgðalögum sem hér eru til umfjöllunar.