Dómsvald í héraði
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég mistalaði mig áðan, ég ætlaði að tala um lög um virðisaukaskatt en ekki aðstöðugjald en vil til skýringar minna á að í 12. gr. þeirra laga sem samþykkt voru um virðisaukaskatt nú fyrir áramótin segir á einum stað:
    ,,Áfrýjun eða deila um skattskyldu frestar ekki gjalddaga skattsins né leysir undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans. En verði skattur lækkaður eftir úrskurði eða dómi skal endurgreiða það sem lækkuninni nemur.``
    Ég vil endurtaka þetta: Né leysir undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans.
    Þetta er auðvitað mjög alvarlegt efnisatriði, að með hjálp núv. hæstv. dómsmrh. skuli meiri hluti Alþingis setja það í lög að leggja megi viðurlög á borgarana án þess að þeir fái leitað réttar síns og að setja það í lög að beita skuli ströngustu viðurlögum --- ströngustu viðurlögum --- meðan málið er á sínum stað, hjá ríkisskattstjóra, ríkisskattanefnd og eftir atvikum hjá dómstólum, þó svo að enginn dráttur málsins sé þeim að kenna sem sóttur er til saka af hinu opinbera.
    Ég skil satt að segja ekki, hæstv. dómsmrh., hvernig hægt er að koma því heim og saman að vilja gæta réttarríkisins Íslands og standa að lagagrein eins og þessari. Og ég vil enn ítreka þá fsp. sem ég beindi áðan til hæstv. dómsmrh.: Ætlar hann að halda því fram hér í deildinni að þetta séu eðlileg ákvæði? Finnst honum eðlilegt, ef hið opinbera sækir mann til saka, að þá eigi viðurlögin að standa á meðan málið er rekið lögum samkvæmt og þegar svo stendur á að hvergi stendur á sakborningi, í þessu tilviki skattgreiðanda, en við höfum dæmi um það frá tíð þess hæstv. fjmrh. sem nú er --- það á að ávarpa ráðherra hæstvirtur --- að lokað hafi verið fyrirtækjum sem síðan féll
úrskurður um að ekki skulduðu þær kröfur sem ríkissjóður hafði sett fram. Um þetta höfum við dæmin.
    Í öðrum tilvikum höfum við dæmi um að slíkar fjárhæðir hafi lækkað um fjárhæðir sem nema tugum milljóna. Eins og lögin eru núna er engin heimild til þess að veita neinn drátt á neinum viðurlögum á meðan ágreiningur er uppi um vafaatriði, um t.d. virðisaukaskattinn sem var lagður á um áramótin og sem fullkomin óvissa ríkir um framkvæmdina á. Ég get tekið lítið dæmi: Það eru svona hálfkassabílar, sem voru kallaðir þegar ég var lítill drengur. Það eru bílar sem eru með stuttan pall og tvöfalda sætaröð. Nú hefur það fram í febrúarmánuð vafist fyrir dómsmrn. og fjmrn. hvernig leggja eigi virðisaukaskatt á þessa bíla og hvaða rétt viðkomandi fyrirtæki eigi á endurgreiðslu virðisaukaskatts eftir því hvaða bílategund viðkomandi atvinnurekandi eða fyrirtæki kaupir. Ef það fer nú svo fyrir viðkomandi að hann lendir vitlausu megin við strikið í úrskurði ráðuneytisins eða ráðuneytanna, þá tapar viðkomandi fyrirtæki nokkrum hundruðum þúsunda. Bæði vegna þess að þá verður innflutningstollurinn annar ef

viðkomandi atvinnutæki er metið sem fólksbifreið og líka vegna þess að þá verður innskatturinn af virðisaukaskattinum ekki frádráttarbær. Þó er enginn ágreiningur um að verið sé að tala um atvinnutæki en ráðuneytin voru ekki búin undir það að svara svona einfaldri spurningu eftir að komið var fram í febrúarmánuð.
    Fleiri atriði af þessu tagi bíða úrskurðar hjá ríkisskattstjóra og hjá ráðuneytum og auðvitað er það gefið mál að til málarekstrar hlýtur að koma út af sumum þessum dæmum.
    Við fórum fram á það í stjórnarandstöðunni að það yrði hafður nokkur annar háttur á við fyrsta gjalddaga skattsins í apríl þannig að ekki yrði farið í innheimtuna þá með fullri hörku eins og síðar yrði. En það mátti ekki. Og nú er ríkisstjórnin búin að binda sig í lögum í sambandi við vafaatriðin í virðisaukaskattinum, ýmis framkvæmdaatriði sem eftir er að taka ákvörðun um eða sem er á reiki og svifi í kerfinu. Og lögin segja: Alveg sama hvernig á stendur, það má hvergi liðka til. Viðurlögunum verður að beita að fullu, það verður að loka fyrirtækinu, jafnvel þótt augljóst sé að um ofáætlun er að ræða hjá ríkisvaldinu um álagningu skattsins. Hvergi svigrúm. Alveg hreint hið sama og gildir um skattlagninguna af ráðherrabílunum. Alþingi er búið að setja lögin, ráðherrunum ber að greiða tekjuskattinn af notkun sinni af ráðherrabílum, hvort sem þeim er það ljúft eða leitt, þeir verða að gera það. Það er ekki til í dæminu að það séu til afturvirk skattalög að þessu leyti. Eins er það um virðisaukaskattinn að í lögunum er afdráttarlaust kveðið á um að ekki megi liðka til.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Þögn hæstv. dómsmrh. talaði sínu máli. Hann ætlar að standa fastur á því að ekki sé eðlilegt að þeir menn sem eiga í deilum við fjmrh. megi leita réttar síns. Hann ætlar að vinna á móti réttarríkinu og láta það verða eftirmælin um sig í ráðuneytinu að hafa ekki metnað að þessu leyti, vera skítsama, skeyta hvorki um skömm né heiður. Þó einhver atvinnurekandi verði gjaldþrota út af röngum kröfum ríkisvaldsins,
hvaða máli skiptir það, þótt einhverjir menn missi vinnuna, hvaða máli skiptir það? Bókstafurinn blívur.