Flugfélagið Flying Tigers
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er spurt að því hvað samgrh. hafi gert til að tryggja að flugfélagið Flying Tigers lendi áfram í Keflavík og að flug með ferskan fisk til Japans geti haldið áfram ótruflað.
    Ég vil svara með því að rekja í eins stuttu máli og mér er unnt afskipti mín af þessu máli. Í fyrsta lagi veitti samgrn. með bréfi dags. 23. des. 1988 flugfélaginu Flying Tigers, samkvæmt umsókn þess dags. 30. nóv. sama ár, leyfi til fragtflutninga til og frá Keflavíkurflugvelli á eftirfarandi flugleiðum, þ.e. til og frá Frankfurt og öðrum stöðum í Evrópu og til og frá Tókíó, Seoul og Taipei og öðrum stöðum í Asíu handan Anchorage. Samkvæmt þessu bréfi var gildistími réttindanna til ársloka 1989 á Evrópuleiðum en til ársloka 1990 á Asíuleiðum. Og í lok síðasta árs framlengdi ráðuneytið leyfið á Evrópuleiðum til ársloka 1990.
    Í öðru lagi féllst ráðuneytið, skv. ósk Flying Tigers, á yfirfærslu flugréttindanna á nafn fyrirtækisins Federal Express Corporation, með bréfi til hins síðarnefnda dags. 23. júní 1989, enda lá þá fyrir frá bandarískum yfirvöldum tilnefning þess í stað Flying Tigers.
    Í þriðja lagi. Flugfax, sem er umboðsaðili Federal Express hér á landi, hefur upplýst okkur um umsvif þessa flugs á síðasta ári. Lendingar þessara aðila, Flying Tigers og síðar Federal Express, voru tæplega 200 á árinu 1989, þar af vegna flutninga 49. Flutt voru 435,5 tonn úr landi og til landsins 211 tonn. Í janúar á þessu ári lenti Federal Express 18 sinnum á Keflavíkurflugvelli án þess að ferma og afferma vöru. Þetta fyrirtæki, Flugfax, sem var stofnað 27. des., m.a. í tengslum við fyrirhugaða starfsemi hér á landi, hefur með sinni starfsemi opnað íslenskum útflytjendum tækifæri til að markaðssetja ferskar afurðir í Austurlöndum fjær með auðveldari hætti en áður var mögulegt, og tek ég þar undir áherslur í máli fyrirspyrjanda.
    Í fjórða lagi vil ég nefna að allt sem lýtur að afgreiðslumálum fyrirtækisins á Keflavíkurflugvelli er, samkvæmt sérstökum samningi milli Flugleiða og utanrrn., á vegum Flugleiða. Flugleiðir sjá um alla afgreiðslu flugvéla á Keflavíkurflugvelli samkvæmt samningi sem gerður var í lok ársins 1987 af utanrrn. og gildir til ársloka 1992. Það er þess vegna þannig, eins og ég þykist vita að hv. fyrirspyrjanda sé kunnugt um, að afskipti samgrn. af þessu máli takmarkast fyrst og fremst við leyfisveitingar. Þar höfum við gert það sem í okkar valdi stendur og í raun og veru allt sem beðið hefur verið um til þess að auðvelda þessa flutninga. En allt sem lýtur að afgreiðslugjöldum, lendingargjöldum og samingum um afgreiðslu á Keflavíkurflugvelli er á forræði utanrrn. samkvæmt mjög sérstakri skipan mála sem ég ætla ekki að fara að eyða frekari tíma í að rekja. Þannig er nú þessi sérkennilega staða, að það ráðuneyti sem fer með flugmál okkar Íslendinga hefur ekki lögsögu yfir

þessum anga þeirra, þ.e. rekstri Keflavíkurflugvallar og öllu sem lýtur að skipan mála og afgreiðslu þar.
    Við höfum þó reynt að fylgjast mjög vel með þessu máli eftir sem áður og beitt okkur eftir því sem við höfum haft aðstöðu til til að reyna að leysa ákveðin vandkvæði sem komið hafa upp í samskiptum aðila sem þarna eiga í hlut, vegna þess að við teljum þá þjónustu sem þarna er boðið upp á mjög mikilvæga. Það hefur sýnt sig að þetta hefur auðveldað íslenskum útflytjendum að vinna nýja markaði og sækja fram, ekki síst í Austurlöndum fjær.
    Við því sem fyrirspyrjandi spurði svo um í raun og veru munnlega, en liggur auðvitað í fsp., er svarið: Já, samgrn. vill beita sér fyrir því að útflytjendum standi sem flestir möguleikar til boða til að koma sínum vörum á markað. Við viljum að sjálfsögðu gjarnan, sé þess kostur, að slíkir flutningar séu á höndum íslenskra aðila. En þar sem þjónusta er ekki í boði er að mínu mati sjálfsagt að heimila erlendum flugfélögum réttindi hér til flugs og lendinga og það höfum við sem sagt gert. Og ég undirstrika það að í raun og veru eru þau réttindi sem hinum erlendu flugfélögum hafa verið veitt hér að því leyti til nokkuð sérstök að það er ekki mikið um að svokölluð fimmtu réttindi séu veitt með jafnvíðtækum hætti og við höfum gert, einmitt til þess að greiða fyrir þeim möguleikum sem þetta flug hefur opnað íslenskum útflytjendum.