Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Sú till. til þál. um uppskurð og hagræðingu í ríkiskerfinu sem hér liggur fyrir og er til umræðu er að mörgu leyti athygli verð, en hún er kannski helst athygli verð fyrir það að að henni standa fjórir stjórnarþingmenn. Virðast þeir þurfa að fá sérstaka þál. til þess að geta beitt áhrifum sínum innan hæstv. ríkisstjórnar og er svo sem ekki nema gott eitt um það að segja þó að það segi manni ýmislegt.
    En varðandi tillöguna sjálfa rek ég fyrst augun í það að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja nú þegar á fót vinnuhópa. Mig langar til þess að spyrja hv. flm. hvernig þeir túlki orðið vinnuhópur. Er vinnuhópur kerfiskarlar sem koma sér saman um það að gera ekki það sem tillagan fjallar um? Er það sem sagt vinnuhópur þegar starfsmenn ráðuneyta og stofnana og pólitískt valdir þóknanlegir kerfiskarlar eiga að fara að taka upp sjálfa sig, reksturinn hjá sjálfum sér? Eða þora hv. þm. að standa við meiningu sína að fullu og fela hreinlega ráðgjafarfyrirtækjum, sjálfstætt starfandi, að koma með tillögur um hagræðingu í rekstri alveg eins og þegar einkafyrirtækin eru tekin út. Þá er venjan sú að menn leita til ráðgjafarfyrirtækja og eru ekkert feimnir við að láta taka út fyrirtækin. Það er ekkert feimnismál í einkafyrirtækinu að það þarf að hagræða. Það koma tillögur og síðan er bara tekið á málinu. En ég velti svolítið vöngum yfir þessu orði, vinnuhópar. Og vinnuhópurinn á að taka mið af þessu og hinu. Þetta kemur fyrir nokkrum sinnum og m.a. segir í greinargerð: ,,Nú þarf að setja harða vinnuhópa í að skera ríkiskerfið upp.`` Hvaða meiningu hefur orðið ,,harður vinnuhópur``? Hvaða merkingarmunur er á því og orðinu vinnuhópur? Það er ekki verið að gera neitt lítið úr þessu heldur er þetta spurning um áherslu. Þora menn í alvöru, er markmiðið með vinnuhóp, ég hefði gjarnan viljað fá gott svar við því, er markmiðið með vinnuhóp
að það sé vinnuhópur ráðgjafarfyrirtækja sjálfstætt starfandi sem hafa sjálfstæðar meiningar, eru ekki í neinum pólitískum plottum hvaða skoðanir þeir eigi að hafa? Ég hefði gjarnan viljað fá skýr svör við þessu, hvort hér er í alvörunni meiningin að taka ríkisreksturinn upp til skoðunar eða hvort þetta er eitthvað til þess að sýnast. Ég trúi því ekki á þessa hv. ágætu þm. að svo sé. En gott væri að fá útskýringu á málinu.
    Ég tel það einmitt kjarna þessarar tillögu og gífurlega þýðingarmikið, sérstaklega í ljósi nýafstaðinna kjarasamninga, að reynt sé að gera róttækar ráðstafanir til að reka ríkissjóð Íslands og opinberar stofnanir í samræmi við fjárlög. Það hefur ekki verið gert undanfarin ár. Þetta hefur verið allt of losaralegt og nánast stjórnlítið að manni virðist. Það væri gaman að vita það, en það hafa ekki fengist svör við spurningum eins og þeim hvaða fyrirmæli þessir ágætu herramenn, yfirmenn opinberra stofnana, hafa um það að fara eftir fjárlögum. Þeir eru kannski búnir

með fjárveitingarnar síðast í nóvember eða byrjun desember og svo er bara kerfið látið prenta seðla fyrir hallanum. Það heitir á ,,fagmannamáli`` að fá yfirdrátt í Seðlabankanum, ef fagmennsku skyldi kalla. Þannig er gjaldmiðill landsins þynntur út. Svo botna menn ekkert í þessum fjármagnkostnaði og þessari gengisfellingu eins og þeir hafi aldrei vitað hvað þeir voru að gera. Er ekki einmitt tilvalin leið að selja eitthvað af þessum ríkisfyrirtækjum og ná upp í gatið þannig? Reyna að einkavæða ýmislegt hér eins og gert er í hinum vestræna heimi. Og hvað með starfsfólkið? Ég sakna þess að sjá það hvergi hér í þessari ágætu tillögu að það sé starfsfólk í þessum stofnunum. Það er einmitt starfsfólkið í þessum stofnunum sem hefur kannski mesta þekkingu á því hvernig væri hægt að ná rekstrarlegri hagræðingu. Þar liggur þekkingin. Hún liggur hjá fólkinu. Hún liggur ekki hjá einhverjum kerfiskörlum hvort sem þeir heita vinnuhópur eða eitthvað annað. Þekkingin er hjá fólkinu sem er inni í stofnununum. Og með góðu, jákvæðu samstarfi við starfsfólkið í þessum stofnunum plús utanaðkomandi ráðgjafarfyrirtækjum, ekki kerfiskörlum, væri hægt að ná árangri ef menn í raun og veru ætla sér að ná árangri.
    Ég verð að segja það líka að það er góð leið til einkavæðingar að mynda almenningshlutafélög um einhver af þessum ágætu fyrirtækjum sem mundu smám saman yfirtaka rekstur þeirra. Það þyrfti ekki að gerast í neinum heljarstökkum, enda eru heljarstökk sjaldan vel fallin í rekstri. Það gæti gerst á t.d. fimm eða tíu ára tímabili og auðvitað þarf að marka stefnu í því þó að maður eigi kannski síst von á því að þessi hæstv. ríkisstjórn geri það. Þó er aldrei að vita. Menn hafa skipt um skoðun í hinum stóra heimi og viðurkennt ókosti miðstýringar og sósíalisma í öðrum löndum og því skyldu menn ekki gera það líka á Íslandi. Það væri áhugavert að fá að upplifa það að menn færu að viðurkenna ókosti ríkisrekstrar hér í vaxandi mæli.