Málefni Slippstöðvarinnar á Akureyri
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti, aðeins örfá orð. Eins og fram hefur komið í þessum umræðum hefur stjórn Byggðastofnunar samþykkt að lána 40% af verðmæti skipsins með því skilyrði að fá samhliða veðrétt á móti þeim sem mundi lána á móti. Ég tel fyrir mitt leyti að Byggðastofnun hafi gengið eins langt og frekast er leyfilegt frá hennar bæjardyrum séð og stöðu hennar, að heita þessu loforði. Það var gert einmitt ef það mætti verða til að greiða fyrir endanlegri afgreiðslu þessa máls.
    Ég harma fyrir mitt leyti afstöðu Fiskveiðasjóðs til málsins og tel að þetta mál verði að leysa á þessum grundvelli því að það er auðvitað ótækt að láta þetta velkjast um lengur en raun ber vitni. Ég ætla ekkert að halda hér uppi ásökunum á einn eða annan í þessum efnum. En ég get tekið undir þau orð að nauðsynlegt er að leysa þetta mál á þessum grundvelli sem allra fyrst.