Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 459 var borin fram beiðni um skýrslu frá viðskrh. um fyrirhuguð kaup Landsbanka Íslands á hlutabréfum Sambands ísl. samvinnufélaga í Samvinnubanka Íslands hf. Það reyndist tímafrekara en ætlað var í upphafi að afla gagna og álitsgerða um þetta mál, en skýrslan er nú tilbúin og henni var dreift hér í þinginu sl. fimmtudag á þskj. 583. Ég mun nú í fáum orðum gera nokkra grein fyrir skýrslunni en vil að öðru leyti vísa til þingskjalsins.
    Í skýrslunni er í upphafi lýst aðdraganda samningagerðar milli forsvarsmanna Landsbanka Íslands og Sambands ísl. samvinnufélaga um kaup á hlutabréfum Sambandsins í Samvinnubankanum. Þar er birt það skjal sem þeir Sverrir Hermannsson bankastjóri og Guðjón B. Ólafsson forstjóri SÍS undirrituðu 1. sept. sl. Þar er líka sagt frá afgreiðslu þessa skjals í bankaráði Landsbanka Íslands. Þá er skýrt frá viðbrögðum mínum við upphaflegri greinargerð Landsbankans um málið og frá tilboði Landsbanka Íslands frá 29. des. sl. Það tilboð var lægra en sú viðmiðunartala sem gengið var út frá í svokölluðum minnispunktum Sverris Hermannssonar og Guðjóns B. Ólafssonar, enda höfðu þá verið athugaðar óbókfærðar lífeyrisskuldbindingar Samvinnubankans og fleiri atriði sem hlutu að koma til lækkunar á kaupverði hlutabréfanna. Þá er einnig
skýrt frá samþykkt stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga á tilboði bankaráðs Landsbankans frá 29. des.
    Eins og fram kemur í skýrslunni var óskað álits bankaeftirlits Seðlabankans á kaupum Landsbankans á hlutabréfunum og er sagt frá niðurstöðum bankaeftirlitsins að svo miklu leyti sem unnt er sökum bankaleyndar. Þar koma m.a. fram útreikningar á eiginfjárstöðu Landsbankans og Samvinnubankans og útreikningar á eiginfjárhlutfalli Landsbankans fyrir og eftir hugsanlega yfirtöku hans á Samvinnubankanum og verður þetta hlutfall samkvæmt því 6,4% eða 6,1% á áætluðum samstæðureikningi bankanna eftir því hvor nánar tilgreindra aðferða er notuð við þennan útreikning, en til samanburðar má nefna að eiginfjárhlutfall Landsbankans, reiknað með sömu aðferðum, var 7,1% eða 6,9% miðað við bráðabirgðauppgjör um síðustu áramót.
    Þá var óskað álits Ríkisendurskoðunar á kaupunum og fylgir álit Ríkisendurskoðunar í heild með skýrslunni. Þar er m.a. bent á að upphaflegt verð sem nefnt var í viljayfirlýsingu Sverris Hermannssonar og Guðjóns B. Ólafssonar frá 1. sept. sl. hafi verið byggt á því að af samruna bankanna yrði og Landsbankinn fengi verulegan hagnað af slíkum samruna. Síðan kemst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að verð bréfanna sé of hátt ef ekki verði af samruna bankanna. Kaupin þjóni því ekki tilgangi nema til komi frekari hlutafjárkaup þannig að Landsbankinn fái atkvæðamagn sem nægi til þess að sameina bankarekstur Samvinnubankans að fullu rekstri

Landsbankans með yfirtöku eða samruna. Verði því að koma til frekari kaup Landsbankans á hlutabréfum í Samvinnubankanum. Bankaráð Landsbankans hefur þegar samþykkt að leita eftir slíkum kaupum. Hér er þó rétt að geta þess að í 28. gr. viðskiptabankalaganna eru settar takmarkanir á kaupum viðskiptabanka á hlutabréfum í öðrum fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt þeim reglum getur Landsbankinn ekki keypt öll hlutabréf í Samvinnubankanum að svo stöddu miðað við það að þau verði öll seld á því verði sem ákveðið var í tilboði Landsbankans frá 29. des. sl.
    Í skýrslunni er einnig svarað spurningum um hugsanlegar afskriftir lána sem Landsbankinn hefur veitt Sambandi ísl. samvinnufélaga og fjárhagslega tengdum fyrirtækjum og spurningum um hugsanlegan atbeina Seðlabankans til að greiða fyrir umræddum viðskiptum. Eins og þau svör bera með sér hefur ekki verið gert ráð fyrir atbeina Seðlabankans vegna þessara kaupa. Þá er ekki um að ræða afskriftir skulda hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Þá er að lokum í skýrslunni komist að þeirri niðurstöðu að bankaráð Landsbankans hafi ákvörðunarvald um þau kaup sem hér er um fjallað samkvæmt ákvæðum 21. gr. viðskiptabankalaganna og tilboð Landsbankans í hlutabréfin frá 29. des. 1989 sé bindandi fyrir Landsbankann. Þá er fjallað um ákvæði í 50. gr. viðskiptabankalaganna þar sem gerður er greinarmunur á samruna banka og yfirtöku ríkisviðskiptabanka á annarri innlánsstofnun. Þau ákvæði laganna þarf að kanna nánar áður en lengra er haldið.
    Ég tel, hæstv. forseti, að með framlagðri skýrslu hafi ég svarað þeim spurningum sem fram voru bornar á þskj. 459 að svo miklu leyti sem unnt er og vísa ég til skýrslunnar um einstök atriði í því svari.
    Ég vil, virðulegi forseti, fara hér nokkrum orðum um þær opinberu umræður sem fram hafa farið að undanförnu um kaup Landsbanka Íslands á hlutabréfum Sambandsins í Samvinnubanka Íslands hf. Ég vil reyndar mælast til þess að menn stilli orðum sínum í hóf varðandi málefni Sambands ísl. samvinnufélaga sem er viðskiptavinur Landsbankans og á lögvarinn rétt til þess að ekki sé af bankans hálfu, hvorki af hálfu starfsmanna hans né bankaráðsmanna, brotin trúnaðarskylda um viðskipti bankans við fyrirtækið. Þá verða starfsmenn
Landsbankans og bankaráðsmenn að sjálfsögðu einnig að gæta þess að skaða ekki bankann með opinberum yfirlýsingum um viðkvæma viðskiptahagsmuni hans. Því miður hefur orðið nokkur misbrestur á þessu. Starfsmenn bankans og bankaráðsmenn hafa skipst á orðsendingum í fjölmiðlum og hafa þær ekki allar verið til þess fallnar að auka traust út á við. Ég vil mælast til þess að einstakir bankaráðsmenn séu ekki að reyna að slá pólitískar keilur í þessu máli á röngum vettvangi.
    Ég vil taka það skýrt fram að með þessum orðum er ég ekki að skorast undan umræðum um kaup Landsbankans á hlutabréfum Sambands ísl. samvinnufélaga þar sem um er að ræða aukningu á umsvifum ríkisfyrirtækis sem lýtur stjórn þingkjörins

bankaráðs og sem eðlilegt er að rædd sé hér á hinu háa Alþingi.
    En hvert er þá baksvið þessara kaupa? Það er að mínu viti sú nauðsyn sem á því er að einfalda það kerfi fjármálastofnana sem hér hefur þróast á undanförnum áratugum. Slík einföldun er mikilvægt mál fyrir íslenska hagkerfið. Þetta kerfi er augljóslega byggt upp af of mörgum og smáum og of dýrum einingum sem hlýtur að koma niður á afkomu atvinnuvega og heimila í landinu. Þá er bankakerfið ekki í stakk búið til þess að mæta þeim breytingum sem líklega verða á rekstrarumhverfi atvinnulífsins á allra næstu árum þegar fjármálastofnanir í Vestur-Evrópu keppa um viðskipti á einum sameiginlegum markaði. Það er því nauðsynlegt að sameina banka og sparisjóði í færri og öflugri stofnanir. Við verðum einnig að einfalda verulega það kerfi fjárfestingarlánasjóða sem hér er við lýði. Í nágrannalöndum okkar er þessi þróun komin á flugstig. Það líður varla sú vika að ekki berist fregnir af samruna fjármálastofnana og stóraukinni samkeppni þeirra í milli. Ég hef beitt mér fyrir átaki sem ég tel afar mikilvægt á þessu sviði hér á landi með þeim samningum sem náðust um sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Útvegsbanka Íslands hf. og þeim samruna þriggja annarra hlutafélagsbanka sem fylgdi í kjölfarið í hinum nýja Íslandsbanka. Í viðskrn. er einnig unnið að gerð frv. til almennra laga um fjárfestingarlánasjóði sem gæti orðið mikilvægt skref í átt til sameiningar þeirra í færri og öflugri stofnanir.
    Fleiri ráðstafanir í málefnum banka og annarra fjármálastofnana eru nú á undirbúningsstigi, en það má nefna hér að vegna aukinna krafna til eiginfjárstöðu bankastofnana verður á næstu árum að mínu áliti að opna möguleika á því að breyta ríkisbönkum og sparisjóðum í hlutafélög sem geti aflað sér eigin fjár með útboði hlutafjár. Hér eru nú starfandi þrír tiltölulega öflugir bankar, þar af tveir í ríkiseigu og svo einn öflugur hlutafélagsbanki, Samvinnubanki Íslands hf. sem er tiltölulega lítil bankastofnun en hefur skilað allgóðri afkomu á síðustu árum. Í þeim samningaviðræðum sem fram fóru á milli hlutafélagsbankanna á liðnu ári varð Samvinnubankinn sér á báti, einkum vegna þess hvernig eignarhaldi hans er háttað þar sem Samband ísl. samvinnufélaga og tengd fyrirtæki hafa þar tögl og hagldir þótt fjöldi einstaklinga eigi litla hluti í bankanum. Forsvarsmenn hlutafélagabankanna þriggja sem keyptu Útvegsbankann töldu að samruni Samvinnubankans við hina fyrirhuguðu bankasamsteypu félli ekki að því rekstrarmynstri sem að var stefnt. Það taldi ég miður, hefði talið það æskilegt að Samvinnubankinn hefði átt þar samleið.
    Ég vil þó alls ekki halda því fram að það hafi verið neitt úrslitamál, eftir að tekist hafði að mynda hina öflugu bankasamsteypu, Íslandsbanka, til mótvægis við ríkisbankana tvo, að stuðla í bráð að náinni sambúð Samvinnubankans og annarra eða annarrar bankastofnunar. En ég hlaut að fagna því þegar fréttir bárust af viðræðum forsvarsmanna

Landsbankans við Samband ísl. samvinnufélaga um kaup á hlutabréfum þess síðarnefnda í Samvinnubankanum með yfirtöku bankastarfseminnar í huga. Hér var Landsbankinn að semja um viðskipti sem eru fjárhagslega á forræði bankastjórnar og bankaráðs fyrst og fremst innan ramma viðskiptabankalaganna. Yfirtaka ríkisbanka á Samvinnubankanum væri vissulega til þess fallin að styrkja enn íslensku bankana til þess að mæta fyrirsjáanlegum rekstraraðstæðum þeirra á næstu árum. En samruni og yfirtaka banka er háð samþykki viðskrh. en ég er þeirrar skoðunar að þrír öflugir, alhliða bankar hér á landi muni ásamt sameinuðum sparisjóðum í nokkrum rekstrareiningum og í einhverjum mæli starfsemi erlendra banka skapa hér umhverfi virkrar samkeppni í bankaþjónustu á komandi árum.
    Ég taldi hins vegar, þótt þetta mælti með þeim kaupum sem hér eru rædd, rétt þegar í upphafi málsins að biðja um nánari upplýsingar um fjárhagslegan grundvöll kaupanna fyrir Landsbankann, enda er viðskiptaráðherrann ábyrgur fyrir málefnum ríkisbankanna gagnvart hinu háa Alþingi. Ég óskaði eftir greinargerð um málið sem ég ræddi á fundi með bankastjórn Landsbanka Íslands þann 19. sept. 1989. Þar óskaði ég eftir nánari upplýsingum um kaupin og sama dag óskaði ég jafnframt eftir álitsgerðum frá Seðlabanka Íslands og Ríkisendurskoðun. Það urðu á því nokkrar tafir að Landsbankinn sendi frá sér umbeðnar upplýsingar. Skýringin á því var fyrst og fremst sú að eftir þennan fund hófst ítarleg athugun á fjárhag Samvinnubankans sem lauk með því að bankaráð Landsbankans gerði stjórn Sambandsins tilboð um kaup á hlutabréfunum
á lægra verði en upphaflega var um rætt. Þá höfðu verið gerðar leiðréttingar á fyrri viðmiðunartölum í samræmi við nánari upplýsingar um lífeyrisskuldbindingar, útlán bankans og fleira eins og fram kemur í áliti Ríkisendurskoðunar og skýrslunni sem hér liggur fyrir.
    Í skýrslunni er gerð grein fyrir álitsgerðum Seðlabankans og Ríkisendurskoðunar. Ég vil ekki draga dul á það að efni þessara álitsgerða, þar sem m.a. kemur fram að Landsbankinn ræður ekki að svo stöddu við kaup allra hlutabréfanna á sama verði innan gildandi heimilda viðskiptabankalaga, styður að mínu áliti þá skoðun að farsælasta lausnin í þessu máli sé sú að Búnaðarbankinn komi einnig inn í þessi kaup með einhverju móti og bankarekstur Samvinnubankans verði síðan sameinaður eða yfirtekinn af ríkisbönkunum báðum eftir nánara samkomulagi þeirra í milli. Bankaráðin hljóta að vinna að þessu verkefni á næstunni.
    Það hefur komið fram í fjölmiðlum að ýmsum forsvarsmönnum Sambands ísl. samvinnufélaga er mikil eftirsjá að sínum hlut í Samvinnubankanum sem þeir vildu að yrði öflug fjármálastofnun er gæti staðið að baki fyrirtækjum samvinnuhreyfingarinnar sem eins konar húsbanki hennar. Ég get vel skilið þá eftirsjá, en hins vegar er á það að líta að bankinn náði aldrei

þeirri stærð að hann gæti veitt slíkum stórrekstri sem er á vegum samvinnufyrirtækjanna fullnægjandi fjármálaþjónustu.
    Með lagabreytingum á sl. vori, sem ég beitti mér fyrir, var ákveðið að bankaráð skyldu setja ákveðnar reglur um hámark lánveitinga til einstakra lánveitenda, en slíkar reglur eru nú hluti af þeirri bankalöggjöf sem talið er að verða muni sameiginleg fyrir alla banka á hinu evrópska efnahagssvæði í framtíðinni. Tilgangur slíkra reglna er að tryggja eðlilega áhættudreifingu í útlánum bankanna og öryggi innstæðueigenda um eignir sínar. Þessar reglur eru einmitt ein meginástæða þess að við verðum að hafa hér stærri banka en verið hafa. Smáir bankar geta einfaldlega ekki sinnt þörfum stærri fyrirtækja. Nái íslenskir bankar ekki viðunandi stærð munu viðskipti íslenskra stórfyrirtækja færast til erlendra banka í vaxandi mæli.
    Ég get heldur ekki sleppt því að nefna hér að fjárhagsvandi samvinnuhreyfingarinnar hér á landi stafar að hluta til af því að samvinnufélög geta ekki aflað sér eigin fjár með útgáfu einhvers konar eignarhaldsbréfa á sama hátt og hlutafélög geta aflað sér aukins eigin fjár með útgáfu nýrra hlutabréfa. Í viðskrn. liggja fyrir frumvarpsdrög til nýrra laga um samvinnufélög, en mér virðist að í núgildandi lög vanti ákvæði um útgáfu stofnsjóðsbréfa sem væru viðskiptabréf á sama hátt eða á svipaðan hátt og hlutabréf. Því miður virðist lítill áhugi vera á þeirri lausn hjá þeim forsvarsmönnum samvinnuhreyfingarinnar sem rætt hefur verið við um málið, en fréttir af fyrirhuguðum breytingum á rekstri Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis virðast mér vitnisburður um það að augu manna séu að opnast fyrir þessari nauðsyn. Samvinnufyrirtækin eru að þessu leyti í reynd á sama báti og sparisjóðir og ríkisbankar, þ.e. þau geta ekki aflað sér aukins eigin fjár á annan hátt en með stöðugum rekstrarafgangi eða þá í dæmi ríkisbankanna með framlögum úr ríkissjóði. Ég hlýt að leggja áherslu á það að það sé nauðsynjaverk að breyta í framtíðinni löggjöf varðandi ríkisbanka og sparisjóði þannig að þeim sé gert kleift að selja hlutabréf eða ígildi þeirra á verðbréfamarkaði. Alþjóðlegar reglur um eiginfjárhlutfall banka kveða á um strangari kröfur en hér hafa gilt. Aukin umsvif bankanna kalla á stöðuga aukningu eigin fjár og það er hætt við að stjórnendur ríkisbankanna muni á næstu árum við og við óhjákvæmilega þurfa að leita til ríkisins um veruleg eigendaframlög til bankanna, ekki endilega vegna þess að reksturinn hafi gengið illa, heldur vegna þess að umsvifin hafi aukist og of lítið eigið fé standi rekstrinum fyrir þrifum og geri bönkunum ókleift að þjóna viðskiptavinum sínum með eðlilegum hætti. Ég sé ekki fram á að ríkissjóður geti lagt fram slíkar fjárhæðir til tveggja ríkisbanka og tel skynsamlegustu leiðina í málinu vera að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög sem í fyrstu séu algjörlega í eigu ríkissjóðs en hafi að ákveðnu marki heimild til þess að bjóða út nýtt hlutafé eða ígildi þess til almennings á innlendum verðbréfamarkaði.

    Virðulegi forseti. Ég hef með þessum orðum í senn gert nokkra grein fyrir þeirri skýrslu sem hér liggur á borðum þm. og eins fyrir baksviði þeirra breytinga sem orðið hafa í íslenskum bankamálum á undanförnum missirum. Það eru breytingar sem ég tel að svari kalli tímans, breytingar sem gera bankakerfið betur í stakk búið að svara þörfum atvinnulífsins og heimilanna í landinu. Sú breyting sem nú mun væntanlega verða á næstunni með yfirtöku ríkisbanka á rekstri Samvinnubankans er skref í þá átt.