Tilfærsla gjalddaga í þjóðfélaginu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Virðulegi þingmaður. Ég flyt hér till. til þál. um að færa til gjalddaga í þjóðfélaginu. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að kanna hvort hagstætt er fyrir þjóðfélagið að færa til uppgjörs- og gjalddaga. Könnuninni skal lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.``
    Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt er sú að oft eru gjalddagar þjóðfélagsins fyrstu dagar í mánuði og þeir dagar kalla á fleira starfsfólk og meiri vélakost en aðrir dagar mánaðarins. Það hefur í för með sér mikið álag sem nær hámarki í stofnunum, bönkum, fyrirtækjum og víðar þar sem innheimta og skýrslugerð er höfð með höndum. Því er hugmyndin að baki þessarar tillögu sú að reyna að jafna þetta álag út yfir mánuðinn til að spara í vélabúnaði og spara starfsfólk. Allur tækjabúnaður og fjöldi starfsmanna miðast við það að geta annað starfseminni þegar hún rís sem hæst, þegar álagið er mest.
    Í þessu sambandi má benda á að skammt er á milli gjalddaga staðgreiddra skatta og eindaga söluskatts í upphafi hvers mánaðar. Ef þessir dagar væru færðir aðeins fjær hvor öðrum er það mat kunnáttumanna að þá mundi tækjakostur strax nýtast betur. Það mætti hafa einfaldari og ódýrari tæki og færra starfsfólk.
    Því er lagt til hér að fjmrh. kanni hvort unnt sé að gera þetta með góðu móti, dreifa gjalddögum á fleiri daga mánaðarins eða jafnvel mánuði ársins. Jafnframt er sjálfsagt að kanna hvort heppilegra sé að gera upp reikninga þjóðfélagsins á öðrum tíma en um áramót þar sem ýmislegt annað er gert upp við þau tímamót. Með því móti á að fást hagræðing og sparnaður, bæði fyrir ríkið og fyrir einstaklinga.
    Virðulegi forseti. Ég mæli með að tillaga þessi fari til síðari umr. og til hv. allshn.