Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Sú skýrsla sem er til umræðu um kaup á Landsbanka Íslands á hlutabréfum í Samvinnubanka Íslands er um mörg atriði fróðleg. Ég vil í fyrstu segja að ljótt er ef satt er þau ummæli sem hæstv. viðskrh. hafði áðan þess efnis þegar hann spurði þingmenn og væntanlega kjósendur hvort þeir vildu að ríkið legði fram af skattfé aukið fjármagn til bankanna til þess að þeir stæðust erlendar kröfur um eiginfjárstöðu banka. Það er ljótt ef svo er, sem hæstv. viðskrh. segir, að bankarnir standi svo illa að þeir standi ekki undir þeim kröfum sem gerðar eru til banka erlendis. Á sama tíma er hæstv. bankamálaráðherra að leggja til að rýra eigið fé Landsbanka Íslands með kaupum á Samvinnubanka Íslands. Samkvæmt því sem stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar er Landsbanki Íslands ekki fær um að kaupa Samvinnubanka Íslands einn og mundi ekki eiga fyrir nema 88% til þess að kaupa Samvinnubanka Íslands sem er þó ekki stór banki, heldur yrði hann að fá til þess hjálp frá Búnaðarbanka Íslands. Og niðurstaða þessarar skýrslu sem liggur fyrir er sú og sú ein að það verður að greiða 50% hærra verð fyrir hlutabréf í Samvinnubanka Íslands en virði þeirra er samkvæmt Ríkisendurskoðun. Svo segja menn að sú ákvörðun landsbankastjóranna að kaupa hlutafé í Samvinnubanka Íslands sé í engum tengslum við samvinnuhreyfinguna og ríkisstjórnina. Það eru greinilega tengsl þar á milli. Sú ákvörðun að greiða 50% hærra verð fyrir hlutafé Samvinnubankans en Ríkisendurskoðun telur eðlilegt er auðvitað skýring á þessu. Það er verið að greiða himinháar upphæðir fyrir hlutabréfin miðað við mat Ríkisendurskoðunar og er það með ólíkindum. Eigendur Landsbanka Íslands hljóta að krefja ríkisstjórnina skýringa á þessu. Hverjir eru eigendur Landsbanka Íslands? Það er þjóðin, þeir sem eiga sparifé í bankanum. Það er rétt sem hv. 1. þm. Suðurl. sagði í sinni ræðu, að það eru auðvitað hinir smærri sparifjáreigendur, smærri hlutafélög og smærri fyrirtæki sem verða að
greiða þann herkostnað sem hlýst af þessum kaupum. Það sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um verðið sem er greitt er svo ótvírætt að það þýðir ekkert fyrir hæstv. viðskrh. að gefa í skyn að þetta séu hagstæð kaup. Það stendur hér skýrum stöfum og meðan sú skoðun Ríkisendurskoðunar er ekki hrakin að raunverulegt kaupverð til Sambands ísl. samvinnufélaga sé 50% hærra en vera ætti, þá er verið að gefa Sambandi ísl. samvinnufélaga þetta fé. Svo einfalt er það. Og ástæðan er augljós. Samband ísl. samvinnufélaga er svo illa statt að það verður að bjarga því. Það er svo allt önnur saga hvort við eigum að bjarga Sambandinu frá því að verða gjaldþrota. En það er ekki hægt að vefja það í þennan búning og reyna að blekkja fólk því að þetta er ekkert nema blekking.
    Sú skýrsla sem hér liggur fyrir staðfestir í einu og öllu þá pólitísku misnotkun sem hefur átt sér stað í bankakerfinu og er ekki samboðin lýðræðisþjóðfélagi.

Það er kominn tími til að þeir menn sem ráða ferðinni líti á gerðir sínar með tilliti til þess að þeir hafa umboð frá þjóðinni til að fara vel með fé en ekki gefa það út og suður.
    Það er líka fróðlegt að lesa um þá málsmeðferð sem þetta mál hefur fengið og var fróðlegt að hlusta á ræðu hv. 1. þm. Reykv. um málið. Hann lýsti málsmeðferðinni í bankaráði Landsbankans og m.a. hvernig kaupunum og samþykktum var flýtt þrátt fyrir að Alþingi væri búið að kjósa nýtt bankaráð. Þau vinnubrögð sem hér eru höfð í frammi sanna einfaldlega að borgað er miklu hærra verð fyrir en eðlilegt getur talist.
    Og svo er annað í þessu. Enn er eftir að kaupa 48% af Samvinnubankanum og ég hef þá trú að hluthafar láti það ekki á þessu verði því að sjálfsögðu vilja þeir fá hærra verð. Þeir hafa enga þörf fyrir að selja sitt hlutafé. Og samkvæmt því sem stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru þessi kaup gagnslaus Landsbanka Íslands nema hann eignist bankann allan. Sem sagt, það er verið að borga stórar fjárhæðir fyrir ekki neitt nema það, og það getum við auðvitað rætt um sérstaklega, að verið er að bjarga Sambandi ísl. samvinnufélaga frá því að komast í greiðsluþrot og er það allt önnur saga. Við vitum vel að Sambandið er svo stór atvinnurekandi að það yrðu mikil vandræði að því ef það gerðist að það yrði gjaldþrota. En það verður auðvitað að nefna hlutina réttum nöfnum.
    Ég kom að því í upphafi ræðu minnar sem bankamálaráðherra segir í lok sinnar ræðu að eigið fé Landsbanka Íslands er þegar allt of lítið til að það standist erlendar kröfur um slíkt. Og hann segir að aðeins með því að gera hann að hlutafélagsbanka og auka hlutaféð verði hægt að laga það hlutfall sem eigið fé á að vera í bankanum. En samt stendur hann að því að rýra eigið fé Landsbanka Íslands með þessum hætti. Staða Landsbankans er ekki betri en það að hann verður að fá aðstoð frá Búnaðarbanka Íslands ef hann á að hafa gagn af þessum kaupum. Það er heldur ekki ljóst á hvaða verði hann muni kaupa þau 48% sem eru eftir af hlutafé í Samvinnubanka Íslands. Ég hef þá trú að þeir hluthafar sem eiga það vilji fá miklu hærra verð og að við séum ekki að tala um að Samvinnubankinn fáist á 1330 millj. eða í kringum það heldur eigi að kaupa
hann á 1500--1600 millj. sem er reyndar jafnmikið og Samband ísl. samvinnufélaga skuldar bankanum.
    Það var því ekki að ósekju að þessi skýrsla varð tilefni til þeirra umræðna sem þegar hafa orðið því að hún sýnir glögglega að þörf var á henni og hún upplýsir okkur um það að sú pólitíska spilling sem fylgir þessari ríkisstjórn á greiða leið inn í bankakerfið. Ef ég segði eins og hæstv. forsrh: Það var maður sem kom og hitti mig í gær og hann sagði: ,,Nú er forsrh. búinn að borga veiðileyfin sín hjá KEA, nú er hann búinn að borga þau til baka, öll veiðileyfin.`` Ég get því miður ekki sagt nafnið á þessum manni en marga svona menn hef ég hitt að máli og ég læt það vera mín lokaorð.