Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Það voru mikil mistök sem áttu sér stað þegar hv. Alþingi samþykkti kvótalögin haustið 1983. Og það væri mikil ógæfa ef svo færi að það frv. sem hér er til umræðu yrði samþykkt óbreytt héðan úr hv. deild eftir meðferð deildarinnar á því. Staðreyndin er sú að þau fyrirheit sem gefin voru þegar verið var að fá samþykkt hv. Alþingis á kvótalögunum árið 1983 hafa því miður öll sömul mistekist. ( HBl: Og var þó talað bærilega við umræðurnar.) Já, og var þó talað vel og mikið um þau. Það er eftirtektarvert að í ræðu hæstv. sjútvrh. núna voru þessi góðu fyrirheit alveg gleymd. Hæstv. ráðherra nefndi varla hin miklu fyrirheit sem talin voru upp 1983, 1984 og 1987, að hverju skyldi stefnt með því að halda áfram þeirri fiskveiðistefnu sem nú hefur verið ríkjandi í sex ár.
    Það er alveg rétt sem hv. 4. þm. Vestf. sagði hér í ræðu sinni, saga kvótakerfisins er ein samfelld hrakfallasaga. Og það er næstum því ótrúlegt að hugsa til þess, eins og hv. 4. þm. Vestf. sagði, að í upphafi var talað um að aðeins skyldi setja þetta kerfi á til reynslu. Eftir að sú reynsla sýnir sig, eins og nú standa mál, er enn lagt til að framlengja skuli þetta kerfi, þó með ýmsum breytingum, en jafnvel með breytingum, eins og hv. 4. þm. Vestf. sagði, sem verða til þess að miðstýringarkerfið sem er undirstaða þessa kerfis verður enn þá öflugra en áður var.
    Það er alveg rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði hér í upphafi, að þetta frv. sem hér er til umræðu hefur fengið rækilega umfjöllun. Það hefur fengið umfjöllun í nefnd sem var skipuð 1988 og hóf starf á haustdögum 1988, 24 manna nefnd fulltrúa auk starfsmanna ráðuneytisins. Hefur hún fjallað næstum óslitið um undirbúning að þessu frv. síðan. Umræðan bar þó þann keim strax í upphafi að stefnt væri að því að byggja áfram upp svipað kerfi og hafði verið ríkjandi áður. Það virtist vera meirihlutaálit þeirra fulltrúa og starfsmanna ráðuneytisins sem störfuðu í nefndinni og ráðuneytisins sjálfs. Á árinu 1988 og fyrri hluta árs 1989 var unnið í starfshópum til undirbúnings frv., starfshópum sem voru byggðir upp á þann máta að þar voru starfsmenn ráðuneytisins, sums staðar einn, sums staðar tveir, og síðan fulltrúar úr nefndinni. Þeim mun hafa verið skipt niður í fjórar nefndir. Vorið 1989 skiluðu þessir hópar af sér og fundur var haldinn þar sem álit hópanna voru kynnt. Það var á þann veg, og það skal undirstrikað, að meiri hluti í öllum þessum nefndum mælti með því að áfram yrði haldið með svipað kerfi og við höfum búið við. En það var svo langt frá því að allir nefndarmenn hefðu þá skoðun. Það var aftur á móti barið á því á þessum fundi að eitt allsherjarsamkomulag væri um það að kvótakerfið skyldi vera áfram við lýði og það lítið breytt.
    Mér er mjög í minni að einn ágætur háskólaprófessor kom þar upp með skemmtilega töflu sem sýndi svart á hvítu, reikningslega, að það væru bara allir sammála því sem búið hefði verið við

undanfarandi ár og ráðuneytið ætlaðist til að væri samþykkt. Þetta voru svona svipaðar reikningskúnstir og þær sem hv. 4. þm. Vestf. var að lýsa áðan, hvernig háskólamennirnir reiknuðu út og fengju niðurstöðu. Vitaskuld var þetta ekki þannig. Það er oft á þann veg að þó að meiri hluti virðist vera í nefndum og meiri hluti sé í nefndum, þá þarf að einhverju leyti að virða skoðanir minni hlutans. Það var að mínu mati í túlkun á þessum fundi frekar á þann veg að lítið var gert úr skoðunum hans.
    Áfram var haldið á þessum grunni og formenn nefnda undirbjuggu frv. í sumar og lögðu fyrir ráðgjafarnefndina á haustdögum frv. sem er mjög líkt því frv. sem við erum að fjalla um hér. Ég er nokkurn veginn viss um að nefndarformennirnir höfðu þá trú að mjög öflug samstaða væri í nefndinni, næstum allir í nefndinni væru á því að frv. ætti að vera á þann hátt sem þeir lögðu fram. Kannski var það byggt á þeirri túlkun á afgreiðslufundi nefndarinnar sem ég var að lýsa áðan, að meiri hlutinn væri sem sagt að túlka sjónarmið allra nefndarmanna.
    Hv. þm. hafa sjálfsagt lesið þetta mikla frv. sem við höfum hér til umfjöllunar og þau fylgiskjöl sem því fylgja. Fylgiskjölin upplýsa að staðan á vordögum var ekki sú sem sumir hverjir töldu að væri. Staðan var þannig og staðan er þannig í þjóðfélaginu að ótrúlega mikill fjöldi af hagsmunaaðilum og þeim sem um þessi mál fjalla eru á allt annarri skoðun og vilja að fiskveiðistjórnunin sé á allt annan hátt en lagt er til í þessu frv. Bókanirnar sem fulltrúar í þessari 24 manna nefnd lögðu fram í lok starfsins í nefndinni nú í lok janúar sýna það svart á hvítu að engin samstaða var í nefndinni um að leggja fram frv. í líkingu við það frv. sem hér er lagt fram. Hver bókunin á fætur annarri sannar þetta. Auk þess sem fram komu í nefndinni yfirlýsingar aðila eins og t.d. fulltrúa Sölusambands ísl. fiskframleiðenda á síðasta fundi nefndarinnar þó að hann legði ekki fram bókun. Hann taldi að það þyrfti að gera ákveðnar breytingar á þessu frv. Og vitaskuld komu oft og tíðum fram ýmiss konar yfirlýsingar á fundum nefndarinnar sem bentu í sömu átt.
    Það má vel vera að hæstv. sjútvrh. hafi valið rétta leið til að fá þetta frv. til umræðu, að leggja fram það frv. sem sumir hverjir töldu að meiri hluti væri fyrir í nefndinni og samstaða gæti orðið um í ráðgjafarnefndinni, það væri kannski ekki önnur leið fyrir hæstv. ráðherra en að leggja fram þetta frv. hér á hv. Alþingi. Ég gagnrýni það ekki í sjálfu sér en ég hef þá trú að miðað við umræðu í ráðgjafarnefndinni og miðað við umræðu í þjóðfélaginu þá geti ekki verið meirihlutavilji fyrir því á hv. Alþingi að samþykkja þetta frv. nema með miklum breytingum.
    Ég nefndi í byrjun að það hefðu verið mikil mistök að samþykkja kvótastefnuna í upphafi og það mundi líka vera ógæfa ef þetta frv. yrði samþykkt óbreytt. Ég byggi þá skoðun mína fyrst og fremst á því að þessi stefna hefur mistekist á öllum sviðum. Það voru fyrst og fremst fjórir punktar sem lagðir voru til

grundvallar og þessi stefna átti að stuðla að að stæðust. Það var í fyrsta lagi að styrkja uppbyggingu fiskstofnanna, sem sumir hverjir voru í lægð, ég er fyrst og fremst að ræða um þorskstofninn, þegar þessi lög voru sett 1983.
    Í öðru lagi, og í beinum tengslum við stærð fiskstofnanna okkar, skyldi fiskiskipaflotinn minnka. Í þriðja lagi að kostnaður við útgerðina þyrfti nauðsynlega að minnka. Og í fjórða lagi, og það var ekki síst talið nauðsynlegt við þær aðstæður þegar afli minnkaði, að gæði hráefnisins skyldu aukast.
    Eins og ég nefndi áðan tók ég ekki eftir því að hæstv. sjútvrh. legði þessi höfuðatriði neitt sérstaklega fram við framlagningu frv. núna, hann væri neitt sérstaklega að benda á að við þyrftum að stefna að þessum markmiðum sem voru grundvöllur þess að nauðsynlegt var talið að samþykkja kvótakerfið frá 1983. Vitaskuld sannar það, bara eingöngu sú málsmeðferð og sú umræða, að hlutirnir hafa mistekist.
    Ef við förum aðeins yfir þessa punkta, lítum á hvernig staðan er og förum svolítið aftur í tímann og lítum t.d. á stöðu og veiðigetu þorskstofnsins á tímabilinu 1950--1960, þá er fiskað á Íslandsmiðum 460 þús. tonn af þorski, meðaltal á ári. Á tímabilinu 1960--1970 erum við komnir rétt niður fyrir 400 þús. tonn, 393 þús. tonn. Og á tímabilinu 1970--1979 erum við komin aðeins neðar, í 384 þús. tonna meðalafla á ári. Síðan kemur kvótatímabilið. Þó eru þrjú ár utan kvóta og á því tímabili reyndar, það skal undirstrikað, var ákveðið tímabil þegar talið var að skilyrðin í hafinu væru mjög óhagstæð, en þá öfluðum við 365 þús. tonn á ári af þorski á þessu tímabili. ( Gripið fram í: Hvaða tímabili?) 1980--1989 eða 1980--1990. Hvað skyldum við mega búast við að aflinn verði í ár, að sex ára gildistíma loknum? Að sex ára gildistíma loknum og eftir mjög góð skilyrði í hafinu umhverfis Ísland, bæði hvað varðar hita og átu. Hafrannsóknastofnun leggur til að á árinu 1990 verði fiskuð 250 þús. tonn af þorski, 250 þús. tonn. Sjútvrn. leggur til og úthlutar kvóta út frá því að það séu 260 þús. tonn sem megi veiða. En vegna teygjunnar sem talað er um að sé í þessu góða kerfi, þá geti aflinn farið í 300 eða kannski rúm 300 þús. tonn.
    Þetta er sem sagt staðan í sambandi við fyrsta punktinn sem hvað mest áhersla var lögð á haustið 1983, haustið 1984, haustið 1987. Við værum að byggja upp sterkan veiðistofn og allt haustið 1983 var sagt og ítrekað að þetta væri til reynslu. Hefðum við átt að hætta við kvótakerfið, hefðum við átt að hætta við þetta kerfi sem við búum við núna, hefði það sýnt sig að við gætum sótt 460 þús. tonn á árinu 1990? Ég segi nei. Þá hefði kerfið staðist þó það hefðu ekki verið nema kannski 400 þús. tonn. Þá hefði það sýnt sig. En þegar það sýnir sig á þann veg að það séu ekki nema 300 þús. tonn sem við getum sótt af þorski á íslensk fiskimið, þá er það staðreynd að kerfið hefur mistekist. Og ef þetta hefur verið sett til reynslu, þá er ekkert svar við því annað en að hætta við kerfið.
    Það skal svo aftur viðurkennt að ákveðið

aflamarkskerfi á bát getur gengið upp við aðrar fisktegundir, t.d. í sambandi við loðnu og síld, torfufisk sem er sóttur á allt annan hátt, veiddur á allt annan hátt en bolfiskurinn. Á ýmsa vegu hefur tekist þar mjög vel til og ég vil undirstrika að það hefur tekist vel til með síldina, sérstaklega vel til með síldina. Bæði að stofninn hefur byggst upp og einnig að áhrif kerfisins hafa verið tiltölulega lítil í sambandi við áhrif á eignina á skipunum sem stunda þessar veiðar. Aftur á móti verður að benda á það að í sambandi við loðnuna hefur þróunin orðið önnur. Í sambandi við veiðarnar þar hefur fiskstjórnin tekist vel. En í sambandi við eignarhald á flotanum er mjög vafasöm þróun, þó maður orði það ekki sterkar en svo, á þann veg að verksmiðjurnar eru að eignast flotann. Ég lít á það sem mjög vafasama þróun ef það á að byggja upp loðnuveiðarnar á þann hátt að hver verksmiðja fyrir sig eigi sín veiðiskip. Þar er verið að hverfa frá þeirri eignaruppbyggingu og eignarstöðu sem hefur verið á íslenskum fiskiskipaflota á undanförnum áratugum. Ég tel það óheillaþróun. En með svipuðu kerfi og því sem við búum við núna verður sjálfsagt erfitt að hamla gegn því. Hver verksmiðja fyrir sig reynir að tryggja sér hráefni með því að kaupa fleiri og fleiri skip.
    Þá er það punktur nr. tvö sem stefnt skyldi að með kvótakerfinu. Það er að takmarka stærð fiskiskipastólsins. Þar hafa átt sér stað sömu hlutirnar og í sambandi við fiskstofnana eða þorskstofninn sem við erum aðallega að fjalla um. Í staðinn fyrir að flotinn átti að minnka hefur hann stækkað. Og ekki aðeins að hann hafi stækkað í rúmlestatölu, heldur hefur hann stækkað mjög mikið að afli og veiðigetu umfram þá rúmlestatölu sem gefin er upp og við getum hæglega séð t.d. í þeim góðu ritum sem Fiskifélag Íslands gefur út, Útveg og Ægi. Þannig fór um sjóferð þá. Ef þetta hefur verið gert til reynslu, að setja á þetta kerfi til að minnka flotann, þá hefur farið hér á annan veg.
    Þriðji punkturinn eða þátturinn um kostnað við sókn tengist vitaskuld þessum þætti, stærð flotans, og einnig hinu sem líka var verið að lofa í sambandi við kvótakerfið, að menn mundu ekki sækja eins stíft, það mundi ekki verða eins mikil kraftasókn. Staðreyndin er sú að skipin eru núna dýrari, olíufrekari og sóknin jafnvel harðari en nokkru sinni fyrr. Kostnaður hefur aukist á öllum stigum. Ef þetta hefði verið gert til reynslu, þá er hér einn þátturinn enn þá sem sýnir að varla er um annað að gera en hætta við þetta kerfi og reyna eitthvert annað.
    Og þá kemur fjórði þátturinn. Það eru gæði hráefnis. Það var mjög útlistað að það væri nokkurn veginn alveg gefið mál að þegar sjómenn fengju þetta kerfi mundu þeir fara að vanda sig í því að koma með verðmætan og dýran og góðan afla að landi. Þeir færu ekki að stunda þessa kraftasókn sem þeir höfðu viðhaft hér á árum áður. ( GHG: Þetta er rétt hjá þér.) Þessu var haldið fram, já, ég er nú ekki að segja að menn hafi verið að halda öðru fram en þeir héldu fram, en eins og ég nefndi áðan í sambandi við

kostnaðinn, er kraftasókn enn þá til staðar. Og einkarétturinn á aflasókninni hefur orðið til þess að menn hafa verið kærulausari gagnvart því að koma með góðan afla að landi vegna þess að þeir hafa vitað að þeir höfðu valdið og það var ekki hægt að láta aðra sinna þeirri aflasókn sem þeir höfðu á milli handanna.
    Til þess að staðfesta þetta ætla ég að leyfa mér að lesa hér úr plaggi frá einni af stofnunum sem heyra undir sjútvrn., þ.e. Ríkismati sjávarafurða, um þessa stöðu. Þar segir, með leyfi forseta, og þetta er eftir forstjóra þessarar stofnunar, Ríkismats sjávarafurða, Halldór Árnason. Þetta er leiðari í Fréttabréfi. Reyndar er það orðið rúmlega árs gamalt, frá 1988, en ég fullyrði það að þarna hafi orðið á mjög litlar breytingar. Leiðarinn heitir ,,Hráefni til fiskvinnslu. Fer gæðum þess hrakandi?`` Svo kemur lýsingin:
    ,,Að mati Jóhanns Þorsteinssonar, forstöðumanns gæðaeftirlits sjávarafurðadeildar Sambandsins, fer gæðum þess hráefnis hrakandi sem tekið er til vinnslu í frystihúsunum. Þetta kom fram í erindi sem hann flutti á vorráðstefnu Gæðastjórnunarfélags en helstu atriði þess eru birt hér í fréttabréfinu. Jóhann rakti orsakir þessa m.a. til þess að besta hráefnið færi út í gámum en það elsta og lakasta færi til vinnslu. Einnig taldi hann að þær vonir sem bundnar voru við ferskfiskmarkaðina hefðu brugðist þar sem þeir hefðu ekki orðið til að auka hráefnisgæðin. Dagmerkingum væri víða hætt og sjómenn hrærðu saman lifandi og blóðguðum, nýjum og gömlum fiski áður en selt væri á mörkuðunum því þannig teldu þeir sig fá hæsta meðalverðið.``
    Þetta er lýsingin á stöðunni í Fréttabréfi Ríkismats sjávarafurða um hvernig þróunin hefur verið í sambandi við gæðin. Ef þetta var til reynslu, þessi þáttur, þá er hér sama niðurstaða. Reynslan segir okkur að það eigi að hverfa frá þessu kerfi.
    Nú hef ég nefnt þá fjóra punkta sem aðallega var rætt um þegar var verið að tíunda ágæti þessa kerfis og nauðsyn þess að lögfesta það. En fimmti punkturinn var alltaf með og hann er mikilsverður. Hann var það að þetta kerfi ætti að styrkja byggðirnar, sérstaklega landsbyggðina. Hver hefur reynslan orðið af því? Við þurfum ekki annað en hlusta á fréttir dag frá degi, heyra viðhorf fólks úti á landsbyggðinni. Það hnígur allt á sama veg. Þetta kerfi hefur orðið til þess að gera atvinnu- og framtíðarmöguleika byggðanna mikið ótryggari. Hvað eftir annað hafa vandamál komið upp í byggðum vegna þessa kerfis, vegna sölu skips, annaðhvort vegna þess að fyrirtæki fór á hausinn eins og kallað er eða skip var selt í burtu. Vandamál vegna kerfisins komu þá upp. Það var enginn réttur eftir í byggðinni til að halda uppi atvinnu og sækja fisk í sjó. Sé nokkurt kerfi á þann veg að það veiki byggðamynstrið í landinu, þá er það kvótakerfi á þann veg sem við höfum búið við á undanförnum árum. Og ef við eigum að fara eftir reynslunni þá eigum við að leggja þetta kerfi niður.
    Ég er í þeirri nefnd sem fær þetta mál til

umfjöllunar. Ég mun því ekki halda langa ræðu hér. Ég tel þó rétt að fara yfir a.m.k. þau atriði sem ég gerði fyrirvara um í ráðgjafarnefndinni. Einnig þá þætti sem þingflokkur Alþb. samþykkti að taka þyrfti tillit til þegar málið yrði til umfjöllunar í þinginu þegar þingflokkurinn samþykkti framlagningu þessa frv. Ég tel rétt að það komi fram einnig að þó ég sé mótfallinn aflamarkskerfi eins og hér er lagt til að verði áfram við lýði og ég telji að það eigi að taka upp ósköp svipað kerfi og við vorum hér með á árunum 1983, 1982 og 1981, svokallað skrapdagakerfi
endurbætt og með ýmsum nýjum þáttum, þá fór ég inn í ráðgjafarnefndina vitandi vits um það að þar mundi vera meiri hluti fyrir því að halda áfram þessu aflamarkskerfi. Ég taldi mig því eiga að vinna þar fyrst og fremst út frá því sjónarmiði að reyna að leggja því lið að gera þetta kerfi sem nú á að lögfesta á einhvern hátt skárra en það kerfi sem við höfum búið við síðustu árin, það kerfi sem nú yrði lögfest yrði á einhvern hátt skárra en það kerfi sem við höfum búið við.
    Það er vitaskuld hálfgerður kratismi að falla frá sinni aðalskoðun og láta slag standa um það að reyna að lagfæra hlutina ( KP: Hvað segir hv. þm.? Kratismi!) en þannig hef ég unnið að þessu. Reyndar hef ég ekki sannfærst um að í sjávarútvegsnefndum þingsins sé meiri hluti fyrir að halda aflamarkinu. Ég mun vinna að því að reyna að breyta þessu kerfi ef meira næst ekki þó að ég taki undir þær lýsingar hv. 4. þm. Vestf. að breytingar á þessu kerfi verka á margan hátt á þann veg að kerfið verður enn þá miðstýrðara og enn þá erfiðara til lagfæringar en það var áður. Það er vitaskuld staðreynd að t.d. með því að leggja sóknarmarkið niður er verið að herða á tökunum og herða á miðstýringunni. Það gefur alveg auga leið. En gallinn við sóknarmarkið er svo augljós og kom kvótamönnunum í svo mikil vandræði við það að stjórna veiðisókninni að ég held að maður verði að viðurkenna að það verði að hjálpa þeim til þess að fjarlægja þennan galla þó að þeir teldu í upphafi að það væri ein af undirstöðum kerfisins að hafa sóknarmarkið líka, að það væri hægt að velja á milli aflamarks og sóknarmarks.
    Það má svo sem segja einmitt í sambandi við þennan þátt að menn leggja ofuráherslu á það, eftir að það liggur alveg ljóst fyrir að þetta kerfi hefur mistekist, ofuráherslu á það af einhverjum sérstökum ástæðum sem maður á erfitt með að skilja, að viðhalda þó kerfinu. Mér datt í hug þegar hv. 4. þm. Vestf. var að tala hér um isma, kommúnisma og fleira, að þetta væri kannski eitthvað í líkingu við það sem Castro er að reyna að gera núna á Kúbu. Þegar kommar vítt og breitt um heiminn eru að leggja til hliðar þetta kerfi sem þeir hafa reynt að hanga í, útlistað fyrir ýmsum að væri af hinu góða þó að flestir hafi vitað að það væri meira og minna mislukkað, þá skyldu menn rembast við það eins og rjúpan við staurinn að viðhalda röngu kerfi. Og ég held að það væri gott einmitt í sambandi við þetta að

minna á það sem forseti Tékkóslóvakíu sagði við komuna hingað til landsins að í Tékkóslóvakíu þyrfti hann ekki að berjast við kommúnista. Þeir væru velkomnir til samstarfs við hann og hann byggist við því að þeir gætu orðið góðir liðsmenn við það að byggja upp í Tékkóslóvakíu. En það sem hann þyrfti að berjast gegn og fá þá til að berjast með sér gegn væri miðstýringarapparatið, hv. formaður sjútvn. Það var það ógnvald sem forseti Tékkóslóvakíu taldi hættulegast og þyrfti að sækja gegn og fjarlægja. (Gripið fram í.) Það er sjálfsagt, hv. þm., að ræða um lífeyrissjóði og húsnæðiskerfið undir öðrum kringumstæðum en núna erum við að tala um sjávarútvegsstefnuna. (Gripið fram í.) Nei, ég var bara að benda á það að sumir ágætir málsvarar frelsisins gætu kannski í sumum tilfellum hengt sig aftan í miðstýringuna og talið hana bráðnauðsynlega til þess að tryggja eitthvert ímyndað frelsi. (Gripið fram í.) Herra forseti, ég var að hafa það eftir forseta Tékkóslóvakíu.
    En þetta voru nokkrir punktar til að benda hv. þm. á það sem er hættulegast í þessu kerfi. Við horfum upp á það að við erum að missa þorskstofninn okkar niður og það er vitaskuld hættulegt og út á það verður hægt að réttlæta alls konar kjaraskerðingar og ýmsa þætti í þjóðfélaginu, minnkandi fé til vegamála og jafnvel engan flugvöll á Sauðárkróki o.s.frv. En ef við ætlum að telja okkur trú um það að við eigum að stjórna okkar þjóð með miðstýringarvaldi svipuðu því sem hér er verið að leggja til að verði framlengt, þá erum við á mikið hættulegri braut. Við vitum um og treystum á að við göngum aldrei það langt við ofveiði þorskstofnsins að innan stutts tíma undir góðri stjórn, þegar við hefðum horfið frá miðstýringunni, þá getum við byggt þann stofn upp aftur. En það verður erfiðara að lagfæra hugarfarið þegar menn eru búnir að ala sig upp við svipaðar kenningar og hér er verið að leggja til að samþykktar verði.
    Þá eru það athugasemdir mínar og bókun í ráðgjafarnefndinni þegar nefndin skilaði af sér til ráðherra. Hún hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Í október sl. lagði vinnuhópur sem starfaði sl. sumar á vegum ráðgjafarnefndarinnar fram tillögur í formi frv. Tillögur þessar hafa síðan verið til umfjöllunar í nefndinni. Ekki hefur náðst allsherjar samkomulag í nefndinni um ýmis atriði í frumvarpsdrögunum. Um önnur atriði virðist vera fullt samkomulag, t.d. um afnám sóknarmarksins, veiðitímabil verði ekki miðað við almanaksárið og væntanleg lög verði ekki tímabundin.
    Mínir fyrirvarar við frumvarpsdrögin nú við lokaafgreiðslu í nefndinni eru aðallega við eftirtaldar greinar: 9. gr. um skerðingu botnfisksaflamagns vegna sérveiða, 10. gr. um álag og vigtun á fiski sem fluttur er óunninn á erlendan markað, 11. gr. og síðar í frumvarpsdrögunum um aflahlutdeild sem fylgir skipi við eigendaskipti og flutning milli byggða (sbr. tillögur Alþb. um
sjávarútvegsstefnu og byggðakvóta) og við 17. og 18. gr. um eftirlit sjútvrn. um framkvæmd væntanlegra

laga.
    Ég mun fylgja brtt. sem fram kunna að koma við frumvarpsdrögin við meðferð málsins á Alþingi og í ríkisstjórn telji ég þær til bóta.``
    Í fyrsta lagi nefni ég hér að það eru þrír þættir sem virðist vera samkomulag um og þar er ég að lýsa yfir að ég telji þetta réttar breytingar.
    Það er í fyrsta lagi afnám sóknarmarksins. Ég tel að sóknarmarkið hafi verið frá upphafi ranglátt þegar það var við hliðina á aflamarkinu. Aftur á móti hefði kannski verið enn þá hagstæðara og skemmtilegra ef það hefði getað orðið á þann veg að við hefðum lagt aflamarkið alveg af og tekið bara upp sóknarmarkið. En það var ekki til umfjöllunar og ekki möguleiki á því að koma því til leiðar í þessari nefnd. Ég hef þegar sagt það að sóknarmarkið var í upphafi talið eitt af aðalatriðunum í grundvelli kvótalaganna en núna er það eitt af höfuðmeinsemdunum. Höfuðmeinsemdin skapast af því að það gerir kerfið teygjanlegt, gerir erfiðara um vik að stjórna heildaraflamarkinu og það er ranglátt að hafa sóknarmark við hliðina á aflamarki þar sem sóknarmarksskipið hefur meiri möguleika við vissar aðstæður en hinn sem er bundinn aflamarkinu þannig að ég tel þetta vera lagfæringu á kerfinu.
    Um annað atriðið, veiðitímabil verði ekki miðað við almanaksárið. Vitaskuld er þetta að mörgu leyti aukaatriði en þetta er svolítið skemmtilegt og broslegt að færa áramótin eins og þegar var talað um að Castro ætlaði að færa til jólin eða jafnvel gerði hann það. En það kom fram ákveðin ósk frá Fiskifélaginu, fiskifélagsfulltrúum um það að miðað yrði við 1. sept. Ég er á því að meðan við búum við þetta kerfi þá sé þetta hagstæðari tími til þess að skipta árinu miðað við reynslu undanfarinna ára. Við óttumst að aflinn verði enn frekar lítill hjá okkur og að flest veiðiskipin verði búin að veiða kvótann kannski einum, tveimur mánuðum fyrir árslok. Það er að mörgu leyti hagstæðara að láta það tímabil lenda á sumarmánuðunum ágúst--júlí en það komi á tímabilinu nóvember--desember.
    Og svo var þriðji punkturinn um að lögin verði ekki tímabundin. Ég er með þveröfuga skoðun á þessu atriði en hv. 4. þm. Vestf. Ég tel að fyrir okkur sem erum andstæðir þessu kerfi sé það að samþykkja ótímabundin lög mikið betra. Með því að samþykkja ótímabundin lög, öfugt við það sem við höfum gert núna undanfarið, til þriggja ára, það átti reyndar að pína í gegn hér fimm ára tímabil síðast, þá höfum við möguleika strax á morgun, ef eitthvað breytist og upplýsist, að breyta þessum lögum. Aftur á móti ef við erum með tveggja eða þriggja ára lög þá stöndum við frammi fyrir þeim vanda að það verði túlkað sem svo, þannig hefur þetta verið túlkað undanfarið, að það sé verið að samþykkja lög fyrir þetta ákveðna, bundna tímabil. Núna treysta menn sér ekki til þess að breyta sóknarmarkinu vegna þessa. Við síðustu áramót og jafnvel við áramótin 1988--1989 hefðu kvótamennirnir gjarnan viljað breyta en þeir treystu sér ekki til þess vegna þess að þeir líta svo á að með því að hafa samþykkt þriggja ára lög séu þeir að

segja við viðkomandi: Lögin áttu að gilda í þrjú ár. ( ÞK: Það er alltaf hægt að breyta lögum, hvort sem þau gilda til ákveðins tíma eða ekki.) Alveg rétt, hv. þm. Þetta vita náttúrlega flestir, en menn líta mismunandi á hlutina og það er ekki nokkur vafi --- ég endurtek það --- það er ekki nokkur vafi að ef kvótamennirnir hefðu litið svo á að hægt væri að breyta þessum þriggja ára lögum sem við búum við núna hefðu þeir flutt brtt. við lögin. Þeir treystu sér hins vegar ekki til þess vegna þess að þeir líta svo á að þetta séu þriggja ára lög sem menn geti gengið út frá að gildi þetta ákveðna tímabil. Ótímabundin lög gefa okkur fyrirheit um það og möguleika á því að breyta þessum lögum og hver og einn þingmaður á mikið auðveldara með og léttara með að koma með breytingar við lög sem eru ótímabundin, hvenær sem er á þinginu, en það að fara að koma með breytingar við lög sem eru tímabundin. Mín afstaða og meðmæli með þessum þætti byggist á þeirri skoðun að ég tel að framtíðarmöguleikarnir, á því að breyta, séu betri við það að hafa lögin ótímabundin heldur en að hafa þau tímabundin. Það hefði ábyggilega verið sótt eftir því núna við samþykkt þessara laga að ef þau væru ekki ótímabundin væru það, eins og sumir háskólamennirnir hafa verið að tala um, fimmtán ár, tíu ár, og það er nú líkast til nokkur önnur aðstaða, að búa við það að geta hafið umræðu hér strax á vordögum um breytingar, hv. þm., á þessum lögum, daginn eftir að þau hafa verið samþykkt eða svo gott sem.
    Jæja. Um fyrirvara mína um það sem ég tel að þyrfti að breyta í frv.: Það er í fyrsta lagi 9. gr. þar sem rætt er um skerðingu botnfisksaflamarks vegna sérveiða. Í þessari grein er lagt til að hægt verði að skerða bolfisksaflamarkið vegna sérveiða, t.d. vegna loðnuveiða, ef loðnuveiðarnar brygðust. Það yrði 20% aflaskerðing eða verðskerðing. Mér finnst alveg fráleitt að hægt sé að festa það í lög að sérveiðiskipin geti gengið inn á aflamark bolfisksflotans ef eitthvað sérstakt kemur upp á hjá þeim, t.d. eins og aflabrestur sem gæti alltaf komið fyrir hjá loðnuskipunum vegna þess að loðnan er nú sá fiskurinn sem lifir hvað styst sem við göngum í veiði í. Það má alltaf búast við því að þar í komi aflabrestsár. En að allur þessi floti
geti þá gengið inn í bolfisksaflahlutinn og skert hann. Ég er alveg mótfallinn þessu og tel þetta mjög mikil rangindi. Ef loðnuflotinn eða annar sérveiðifloti vill koma sér upp aflatryggingarkerfi eiga þeir að gera það af eigin rammleik, t.d. eins og loðnuflotinn, með því að byggja upp aflatryggingarsjóð, verksmiðjurnar og skipin, og taka á móti skakkafalli með greiðslu úr sínum eigin sjóði en ekki að sækja það yfir í þorskstofninn eða bolfiskinn. Þetta finnst mér mjög nauðsynlegt að hv. þingdeild og hv. sjútvn. taki mjög vel til athugunar, að fella þetta atriði burtu.
    Þá er um álag og vigtun á fiski sem fluttur er óunninn á erlendan markað. Í nefndinni urðu miklar umræður um þennan þátt, ég vil ekki segja að um þetta hafi verið deilur í lokin, menn náðu nálægt því samkomulagi um það að álag væri 20% og 15% í sambandi við gámafiskinn, en menn náðu ekki landi

í sambandi við vigtunina og sumir hverjir efuðust þó nokkuð mikið um að hægt væri að koma því í kring að afli sem væri fluttur út ferskur í gámum væri vigtaður. Ég er á þeirri skoðun að það sé algjört ranglæti að gera það ekki. Ég er á þeirri skoðun að það sé ekki miklum erfiðleikum háð að koma því í kring. Afla sem landað er til fiskvinnslustöðva hér heima, það er skylda að vigta þar hvern ugga eftir ákveðnum reglum á hafnarvog, en að gefa einhverja undanþágu á því að afli sem er seldur til erlendra fiskvinnslustöðva sé ekki vigtaður fyrr en hann kemur á erlenda grund og þá með ýmsum vafasömum aðferðum, það finnst mér alveg fráleitt. Alveg fráleitt.
    Og þá er það 11. gr., og víðar, um aflahlutdeild sem fylgi skipi við eigendaskipti og flutning á milli byggða. Í frv. er þetta á þann veg að aflahlutdeildin fylgir skipi án nokkurra kvaða. Eins og frv. er núna er mjög auðvelt að kaupa upp trilluflotann, færa hann allan yfir á togara eða á hvern annan veg. Ég efast um að trillumennirnir fari nokkurn tíma að kaupa upp togarana. Hætt er því við að þróunin verði á þann veg ef frv. verður samþykkt í þeirri mynd sem það er, að hægt sé að framselja aflaréttinn til frambúðar, verði ekki langur tími liðinn þar til þær verða ekki margar eftir trillurnar vítt og breitt um landið sem bundnar eru við kvóta. Á sama máta hefur sú þróun átt sér stað á undanförnum árum að togararnir hafa verið að kaupa upp bátaflotann, togaraflotinn hefur verið að stækka, sem ég lít á að sé mjög óhagstæð þróun, þróun sem er svipuð og hefur átt sér stað í Noregi, þ.e. að togararnir af Vesturlandinu í Noregi hafa meira og minna lagt undir sig aflamöguleika norska bátaflotans. Útkoman er að verða sú, sem við vitum um, að þorskstofninn við Noreg er hruninn, kannski af fleiri ástæðum en þeim að togaraflotinn þar hefur stækkað, en m.a. vegna þeirrar þróunar sem er nákvæmlega sama þróun og hefur verið hér.
    Ég ætla nú aðeins, þegar ég nefni Noreg, að minna á það í sambandi við umræður um þessa stefnu að á fyrri árunum --- a.m.k. 1984, ég held 1983 líka, --- var sóttur til Noregs höfðingi einn mikill til þess að segja okkur hvernig við ættum að stjórna fiskveiðunum, Íslendingur sem hafði fengið embætti við, ja, ég held það hafi verið við háskóla í Bergen og var talinn hinn mesti fræðingur í þeim málum. Það var talið alveg nauðsynlegt að við fengjum að heyra þær kenningar sem uppi voru í Noregi um það hvernig átti að stjórna fiskveiðum. Ég hef ekki heyrt þennan ágæta mann nefndan núna upp á síðkastið enda eru fréttirnar frá Noregi á þann veg að þær eru kannski ekki alveg til fyrirmyndar fyrir okkur. Reynslan þaðan er kannski ekki góð, en sem betur fer hefur verið tekið mark á reynslunni í þessu tilfelli. Við erum hætt í ráðgjafarnefnd og umræðu um þessi mál að fá þennan leiðbeinanda til þess að segja okkur fyrir verkum um það hvernig við eigum að stjórna okkar fiskveiðum. Og menn eru líka hættir að tala um Nýja-Sjáland sem fyrirmynd okkar í því hvernig við eigum að stjórna fiskveiðum.
    Þá nefni ég það að ég hafi fyrirvara við 17. og

18. gr. frv. Það eru aðalmiðstýringargreinarnar í frv., endahnúturinn á miðstýringuna. Í frv. er lagt til í upphafi að sjútvrh. verði falið að ákveða hvað megi fiska mikið. Honum er stjórnsýslulega falið að undirbúa lögin og hann hefur lagt hér fram frv. að lögum. Síðan býr hann til reglugerðir. ( Gripið fram í: Er það ekki búið?) Þetta er verkefni ráðherrans. Og síðan úthlutar hann á hvern einn bát, eftir veiðarfærum, eftir svæðum og á ýmsa vegu, og ráðherra getur, eins og hér stendur, ,,bundið leyfi og úthlutun þess þeim skilyrðum er þurfa þykir``. Ekki er nú bundið fast þar. (Gripið fram í.) Það er sagt ,,er þurfa þykir``, það er kannski ekki eins og honum dettur í hug en það er nálægt því. Og áfram er ráðherra að fylgjast með því hvernig afli er sóttur í sjó. (Gripið fram í.) Því miður, hv. þm., get ég ekki alveg sagt um tíma. Ef þm. þarf að skreppa frá skal ég reyna að halda ræðu minni áfram þar til hann skilar sér aftur.
    Ég sé ekki ástæðu til að telja hérna upp allt það sem ráðherra getur ákvarðað, en svona aðeins til að sýna þingmönnum hvar stendur í frv. að ráðherra skuli ákvarða þetta eða hitt get ég sýnt þeim gulu strikin þar sem ég hef undirstrikað. Hér er dálítið af gulu. Alls staðar er sagt: Ráðherra getur gert þetta og ráðherra getur gert hitt. Það er dálítið mikið af því hérna. Sem sagt, vald ráðherra yfir þessari atvinnugrein er algjört.
    Síðan kemur að 17. og 18. gr. sem ég gerði ákveðinn fyrirvara við. Þær eru um eftirlit ráðuneytisins á þessum ákvörðunum öllum saman. Það er alveg sérstakt í íslenskri stjórnsýslu, og jafnvel þótt víðar væri leitað, að það sé sami eftirlitsaðili og sá aðili sem ákveður einhverja sérstaka framkvæmd. Hvergi í kerfinu, ekki í skattakerfinu, né neins staðar, eru það ráðuneytin sjálf sem annast þessa hluti, heldur eru það stofnanir sem eru óháðar ráðuneytunum og eru ekki undir beinni pólitískri stjórn. Það þarf ekki að leita til sömu aðila um kærur í sambandi við skatt og þeirra sem ákvarða skattinn og það eru aðrir aðilar en ráðuneytið sem sjá um innheimtu skattsins. Það eru sjálfstæðar stofnanir og þannig er talið að þetta eigi að vera þar sem er svona óvilhallt réttarfarskerfi.
    Ég legg þess vegna til að 17. gr. verði felld niður og við það að hún verður felld niður þarf að koma á fót sérstakri stofnun, óháðri ráðuneytinu, sem annist þennan þátt. Ég gæti vel hugsað mér að það væri stofnun eins og Fiskifélag Íslands eða hver önnur stofnun á svipuðum grunni.
    Þetta eru mínir fyrirvarar. Þingflokkur minn er með nokkuð ákveðnari og harðari fyrirvara í sambandi við þetta og ætla ég aðeins að fara yfir þann þátt og, með leyfi forseta, lesa tilkynningu frá þingflokki Alþb. sem send var hæstv. ríkisstjórn áður en það frv. sem hér er til umræðu var lagt fram, og Alþb. hefur samþykkt framlagningu frv. út frá þessari tilkynningu. Þessi tilkynning er þannig:
    ,,Þingflokkur Alþb. tekur undir bókun Skúla Alexanderssonar í ráðgjafarnefnd um mótun fiskveiðistefnu varðandi tillögur að frv. um

fiskveiðistjórn. Jafnframt vill þingflokkurinn benda sérstaklega á eftirfarandi atriði:
    1. Að athugað verði hvort nauðsynlegt er að útfæra betur í lögunum það grundvallaratriði þeirra, sbr. 1. gr., að tímabundinn og takmarkaður afnotaréttur myndi aldrei einstaklingsbundna og stjórnarskrárvarða eign.
    2. Að í lögunum verði ákvæði sem draga úr útflutningi á óunnum fiski.
    3. Að gætt verði byggðasjónarmiða og vísast í því sambandi til stefnuyfirlýsingar sem samþykkt var á síðasta landsfundi flokksins.
    4. Sett verði ákvæði í lögin sem girða fyrir röskun stærðarhlutfalla milli smábáta og báta og báta og togaraflota.
    5. Þá telur þingflokkurinn að sjávarútvegsráðuneytið eigi hvorki að annast eftirlit með framkvæmd laganna né að úrskurða vegna brota á þeim.``
    Þá var einnig um það rætt í þingflokki Alþb., þó það sé ekki nefnt hér í þessum punktum, að þingflokkurinn væri mótfallinn því að nokkrar sérstakar kvaðir og bönn væru sett á veiði smábáta undir sex rúmlestum.
    Þá segir þingflokkurinn og: ,,Þingflokkurinn samþykkir að frumvarpsdrögin, eins og þeim var skilað frá ráðgjafarnefndinni, með öllum fyrirvörum og bókunum, verði lögð fram á Alþingi. Þingmenn Alþýðubandalagsins áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingarttillögum og munu síðan meta afstöðu sína til samþykktar frv. á Alþingi þegar fyrir liggur við afgreiðslu málsins hverjar af athugasemdum þingflokksins ná fram að ganga. --- 12. febr. 1990.``
    Eins og hv. þm. heyra er þessi tilkynning að mörgu leyti í svipuðum anda og fyrirvari minn þegar frumvarpsdrögin voru afgreidd úr ráðgjafarnefndinni. Þó eru ákveðin atriði sem þingflokkurinn leggur aukna áherslu á. Það er í fyrsta lagi að afnotaréttur samkvæmt kvóta myndi aldrei einstaklingsbundna né stjórnarskrárvarða eign. Hæstv. sjútvrh. undirstrikaði þetta í framsöguræðu sinni, að hann liti svo á að það gerðist ekki með frv., ef að lögum yrði. Þennan þátt vil ég alveg sérstaklega undirstrika. Það hljóta að verða grundvallaratriði að kvótaúthlutun, þótt hún eigi sér stað ár eftir ár og með ótímabundnum lögum, myndi aldrei einstaklingsbundinn afnotarétt af fiskimiðum okkar landsmanna.
    Í öðru lagi er það fimmti liðurinn þar sem segir í tilkynningu þingflokksins: ,,Þá telur þingflokkurinn að sjútvrn. eigi hvorki að annast eftirlit með framkvæmd laganna né úrskurða vegna brota á þeim.`` Þarna er bætt við. Ég benti á eftirlitsþátt ráðuneytisins og tel það grundvallaratriði að ráðuneytið komi þar hvergi nærri, en þingflokkurinn bendir einnig á að ráðuneytið skuli ekki koma að úrskurði í þessum málum.
    Ég tek undir þessa stefnu flokksins, en þó tel ég eftirlits- og rannsóknarþáttinn höfuðatriði. Ég get að vissu leyti fallist á það að einhver stofnun sé búin til í ráðuneytinu til að úrskurða, en að ráðuneytið sjálft skuli vera eftirlits- og rannsóknaraðili á þeim lögum og reglugerðum sem það samþykkir og almenningur á að fara eftir er alveg fráleitt að mínu mati. Hitt er

líka rangt, en af tvennu illu er þó betra að búa við úrskurðinn en það að þeir séu líka rannsóknaraðilinn í málinu. Vitaskuld eiga þessir þættir alls ekki heima í fagráðuneyti, hvorugur þátturinn.
    Ég hef orðið heldur langorðari en ég ætlaði. Ég gaf hér loforð í ræðustólnum áðan að ég mundi ekki ljúka ræðu minni fyrr en hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson væri kominn aftur í salinn. Ekki sé ég hann hér og verð því að halda þessu eitthvað áfram ef ég á að standa við það loforð, og síst af öllu vil ég ganga bak orða minna hér. ( Gripið fram í: Hann treystir á það.) Ég geri ráð fyrir
því að hann treysti á það. Það er náttúrlega hægt að fitja upp á ýmsum þáttum í sambandi við þessi mál, t.d. það sem er að gerast í dag og menn eru í nokkrum vandræðum með í Verðlagsráði sjávarútvegsins. Þar er mér sagt að vandamálin séu á þann veg að það sé gert að kröfu að úthlutun gámasöluleyfa verði flutt úr utanríkisviðskiptaráðuneytinu yfir til sjútvrn. Maður hefur svo sem heyrt þetta fyrr, en ég hef alltaf litið á þetta sem pínulítið grín, að ráðherrar væru þarna fyrst og fremst að togast á, láta almenning sjá það að þeir væru ekki alltaf sammála um hvað þeir væru að gera, heldur þyrfti að hafa eitthvert leikbrúðustand í gangi. Að bæta nú við völd sjútvrn., að það fái einnig að hafa í höndum úthlutun gámaútflutningsins, efast ég um að sé af hinu rétta nema sjútvrn. tæki sig nú til og losaði sig við eitthvað af þeim völdum og ráðum sem það hefur nú milli handanna. En meðan ástandið er eins og það er í dag, og enn þá eigum við nokkurra mánaða tíma eftir undir kvótalögunum frá 1987, finnst mér alveg ástæðulaust af sjútvrn. að sækjast eftir meiru en það hefur.
    Hitt er náttúrlega alveg nauðsynlegt að aðilar eins og fulltrúar frá Verkamannasambandinu, fulltrúar frá sveitarfélögum, fái að fylgjast með þessari úthlutun ( Gripið fram í: Á gámafiski?) á gámaútflutningnum. En að farið verði að færa úthlutunina úr viðskrn. yfir í sjútvrn. ( HBl: Það er í utanrrn.) Það er viðskiptautanríkisráðuneytið. Þannig er það. Það finnst mér svolítið sérstakt.
    Ekki er úr vegi að nefna aðeins, meðan beðið er eftir hv. þm., þegar verið er að takast á um fiskverð, hvaða áhrif kvótinn hefur á fiskverðið. Hvað skyldi hver útgerðarmaður þurfa að fiska mikið á móti verðmæti kvótans sem er bundið í skipinu hans? Hann þarf að fiska nokkuð mikið. Það verður að setja þessi dæmi upp á þann veg að hann geti selt kvótann sem hann ræður yfir fyrir 100 kr. kg --- þannig var það fyrir áramótin, er sjálfsagt komið í 110--115 kr. núna. Þetta fjármagn þarf hann að vaxta. Það þarf að vera með bæði lánskjaravísitölu og eðlilegum vöxtum.
    Ég hef nú fengið upplýsingar um það að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson er ekki næstur á mælendaskrá. Þess vegna mun ég nú mælast til þess eindregið við næsta ræðumann sem tekur við á eftir, þegar ég fer hér úr ræðustól, að taka við þessu loforði mínu að halda áfram ræðu sinni þar til Guðmundur H. Garðarsson mætir til ræðuhaldsins.

    Ég undirstrika það svo að ég legg mikla áherslu á að frv. verði vel skoðað í sjávarútvegsnefndum og menn leggi sig fram í því að laga það og breyta því ef ekki næst meiri hluti fyrir því að falla alveg frá kvótastefnunni sem er þó höfuðatriðið fyrir sjávarútveg á Íslandi á næstu árum. Og vitaskuld alla efnahagsstefnu Íslendinga.