Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Fyrst, vegna þeirra ummæla hæstv. forsrh. sem hér féllu um vexti er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því hvað fram kemur í þessari gagnmerku skýrslu Seðlabankans sem hæstv. ráðherrar vitna stundum til. Þar segir mjög greinilega að raunvextir hafi á síðasta ári verið tæpir 5%, rúmlega 4,7%, ef ég man rétt, miðað við framfærsluvísitölu. En ef raunvextirnir hefðu verið miðaðir við lánskjaravísitöluna hefðu þeir orðið hærri.
    Sannleikurinn er sá að Seðlabankinn telur hina nýju lánskjaravísitölu ekki lengur vera neinn viðmiðunargrundvöll. Þess vegna hvarf hann að því að miða við framfærsluvísitölu. Með öðrum orðum, í þessari afstöðu Seðlabankans kemur fram býsna hörð gagnrýni á þá ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að breyta grundvelli lánskjaravísitölunnar. Sú vísitala mælir minni breytingar á sl. ári vegna þess að kaupbreytingar voru mjög óverulegar. Verðlagshækkanir voru á hinn bóginn miklu meiri og af augljósum ástæðum leiðir það til þess að mat á raunvöxtum verður af þeim sökum lægra ef miðað er við framfærsluvísitölu. Þetta ætti hæstv. forsrh. að kynna sér með því að lesa af athygli þessa skýrslu og þann harða dóm yfir stefnu hans í peningamálum sem í henni felst. Hæstv. forsrh. ætti líka að lesa það sem segir í skýrslunni að raunvextir sjávarútvegsins hækkuðu um nálægt 30%, 25--30% á sl. ári. Og hann ætti að leiða nokkuð hugann að því hvers vegna það gerist undir ríkisstjórn félagshyggjunnar.
    En þetta voru nú, herra forseti, ekki aðalatriði þess máls sem ég ætlaði að gera stuttlega að umræðuefni. Það kom fram hér í umræðunni að enn væri óleyst af hálfu ríkisstjórnarinnar, í tengslum við gerð kjarasamninga og ákvörðun fiskverðs, það verkefni sem lengi hefur verið á döfinni og kallast aflamiðlun. Það liggur fyrir og kom fram í þeim bréfaskriftum sem hæstv. forsrh. gerði hér
grein fyrir að aðilar að Verðlagsráði sjávarútvegsins geta náð samstöðu um fiskverðsákvörðun á svipuðum grundvelli og hinar almennu kjarabætur, eða almennu kjarasamningar réttara sagt, eru í þjóðfélaginu. En um leið upplýsir hæstv. ráðherra að enn strandi á hæstv. ríkisstjórn. Aðilarnir að Verðlagsráði sjávarútvegsins hafa komið sér saman ef hæstv. ríkisstjórn gæti leyst innri ágreining sín á milli. Og hæstv. forsrh. staðfestir hér að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki getað leyst úr þessu vandamáli. Hvernig má það nú vera? Hefur hæstv. ríkisstjórn haft svo skamman tíma til að taka á þessu viðfangsefni? Nei. Það er ekki að koma upp í tengslum við kjarasamningana núna. Það kom upp í tengslum við ákvörðun fiskverðs fyrir ári síðan. Þá lofaði hæstv. ríkisstjórn að beita sér fyrir því að hér yrði komið á fót aflamiðlun undir sjútvrn. Það er heilt ár síðan þeim aðilum sem hlut eiga að máli í Verðlagsráði sjávarútvegsins var gefið fyrirheit um þetta. Reyndar var það fyrir ári síðan lykilatriði að lausn fiskverðsákvörðunar. Hæstv. ríkisstjórn hefur haft heilt ár til að taka á þessu verkefni, en vegna

innri ágreinings ekki getað leyst það. Og nú kemur það aftur upp í tengslum við kjarasamninga og fiskverðsákvarðanir og enn situr hæstv. ríkisstjórn ráðalaus vegna innri ágreinings. Eiga menn að horfa upp á það að mál haldi áfram í þessum farvegi? Hér eru miklir hagsmunir í húfi og á það að ganga í fleiri klukkutíma til viðbótar að það sé ekki hægt að staðfesta samkomulag sem fyrir hendi er vegna innri ágreinings í hæstv. ríkisstjórn?
    Það væri, herra forseti, æskilegt að hæstv. sjútvrh. sæi sér fært að vera um stutta stund viðstaddur þessa umræðu. Ég man ekki betur en hann hafi gefið um það mjög ákveðnar yfirlýsingar á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna fyrir fáum mánuðum síðan að ríkisstjórnin ætlaði að taka á sig rögg þrátt fyrir margra mánaða drátt og koma þessu máli í höfn. Ég man ekki betur en hann hafi þá sagt að það yrði í síðasta lagi um áramótin sem þessi verkefni yrðu færð til sjávarútvegsins þannig að hæstv. ríkisstjórn gæti staðið við það loforð sem gefið var fyrir ári síðan. Ég man ekki betur en hæstv. sjútvrh. hafi talað með svo skýrum hætti eins og hans er von og vísa og vandi af hans hálfu að tala skýrt.
    Nú er hæstv. sjútvrh. genginn í salinn. Þá er rétt að ég beri fram til hans þá fyrirspurn hvort það sé rangminni að hann hafi á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna fyrir fáum mánuðum lýst því yfir að ríkisstjórnin ætlaði að taka á sig rögg og koma ársgömlu loforði um aflamiðlun til framkvæmda og að þetta verkefni yrði flutt frá utanrrn. til sjútvrn. um sl. áramót. Og hvers vegna gat það ekki gerst þá? Hvers vegna hefur ríkisstjórnin verið ráðalaus í þessu máli í heilt ár? Hvers vegna lætur hæstv. sjútvrh. það viðgangast¿ Ætlar hæstv. ráðherra að láta það viðgangast að hæstv. ríkisstjórn vegna innri ágreinings komi í veg fyrir að staðfest verði samkomulag í Verðlagsráði sjávarútvegsins sem getur orðið ef hæstv. ríkisstjórn kemur sér saman?
    Hæstv. forsrh. var að vísa hér í bréfaskipti ríkisstjórnar og Verkamannasambands Íslands. Auðvitað má öllum ljóst vera að hér er hæstv. ríkisstjórn að slá bréfum frá Verkamannasambandinu fyrir sig sem skildi vegna
innri ágreinings í þessu efni, vegna getuleysis að taka á þessu máli sem hefur legið fyrir henni í heilt ár. Það er engin afsökun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að veifa hér bréfi frá Verkamannasambandinu þó að það sé góðra gjalda vert. Það er á valdi hæstv. ríkisstjórnar að leysa þetta mál og það er fullkomið ábyrgðarleysi að láta það dragast í einhverja klukkutíma til viðbótar að ganga frá svari sem gerir það að verkum að þeir aðilar sem eiga aðild að Verðlagsráði sjávarútvegsins geti sætt sig við niðurstöðuna og það samkomulag sem liggur í loftinu geti komið til framkvæmda. Annað er fullkomið ábyrgðarleysi, annað lýsir getuleysi hæstv. ríkisstjórnar til að taka á þessu verkefni og er það deginum ljósara eftir að hún hefur legið með það í heilt ár. En ég vildi gjarnan heyra viðhorf hæstv. sjútvrh. í þessu efni og hvað dvelur yfirlýsingar hans í þá veru að málið

verði flutt til sjútvrn. frá og með síðustu áramótum og hvers vegna hæstv. ríkisstjórn getur ekki komið sér að þessu verki.