Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Frsm. meiri hl. allshn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. allshn. sem er á þskj. 632 og er á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og haft til athugunar umsagnir þær er allshn. Nd. bárust um það. Til viðræðna um efni frv. komu Hermann Sveinbjörnsson, stjórnarformaður Hollustuverndar ríkisins, Leifur Eysteinsson, framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins, Páll Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í heilbr.- og trmrn., Sveinbjörn Dagfinnsson, ráðuneytisstjóri í landbrn., Eyþór Einarsson, formaður Náttúruverndarráðs, Þóroddur Þóroddsson, framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs, Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri, Jón Sveinsson, aðstoðarmaður forsrh., Snorri Sigurðsson, fagsviðsstjóri Skógræktar ríkisins, Ólafur Pétursson, forstöðumaður mengunarvarnasviðs Hollustuverndar ríkisins, Þórhallur Halldórsson, forstöðumaður heilbrigðiseftirlits Hollustuverndar ríkisins, Franklín Georgsson, forstöðumaður rannsóknarstofu Hollustuverndar ríkisins, Daníel Viðarsson, forstöðumaður eiturefnasviðs Hollustuverndar ríkisins, Auður Antonsdóttir, formaður Félags ísl. náttúrufræðinga, Sigurbjörg Gísladóttir, varaformaður Félags ísl. náttúrufræðinga, Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins, Páll Flygenring, ráðuneytisstjóri í iðnrn., Árni Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í menntmrn., Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í samgrn., Ragnhildur Hjaltadóttir, skrifstofustjóri í samgrn., Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri, Sigurgeir
Sigurðsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri í félmrn. og Jón Gunnar Ottósson, forstöðumaður rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins að Mógilsá.
    Í máli flestra viðmælenda nefndarinnar kom fram að þörf er á samræmingar- og eftirlitsaðila umhverfismála innan stjórnsýslunnar. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru á því í meðförum Nd.``
    Undir þetta rita Jón Helgason, Guðmundur Ágústsson, Skúli Alexandersson og Jóhann Einvarðsson.
    Eins og sjá má á nál. voru margir aðilar kallaðir fyrir nefndina og beðnir álits á frv., hvort stofna skyldi umhverfisráðuneyti. Þá lágu fyrir nefndinni umsagnir fjölmargra aðila, bæði umsagnir er nefnd sú er vann frv. leitaði eftir, svo og umsagnir sem bárust hv. allshn. Nd. Ekki verður sagt að málið hafi fengið óvandaða meðferð hér í þinginu. Ég minnist þess tæpast að nokkurt mál hafi fengið eins vandaða meðferð hér í þinginu og einmitt þetta mál.
    Jafnhliða umfjöllun um það frv. sem hér er til umræðu var fjallað um fylgifrv., 128. mál þingsins. Var það óhjákvæmilegt svo nefndarmenn gætu betur gert sér grein fyrir umfangi og starfssviði hins nýja ráðuneytis. Náðist um það samstaða í nefndinni að fjalla um málin saman svo ekki þyrfti, þegar fylgifrv. kæmi til deildarinnar, að kalla sömu aðilana fyrir

aftur. Má því segja að þrátt fyrir þá töf sem hefur orðið á afgreiðslu fylgifrv. í Nd. sé Ed. ekkert til fyrirstöðu að afgreiða þetta mál og stofna þar með hið nýja ráðuneyti.
    Meiri hl. allshn. er þeirrar skoðunar, þar sem umfjöllun um frv. er lokið í nefndinni, að taka beri það á dagskrá í þingdeildinni. Deilur urðu að vísu innan nefndarinnar um hvort bíða ætti með frv. þetta til þess tíma er fylgifrv. kæmi til Ed. og afgreiða málin samtímis úr deildinni. Stjórnarandstaðan lagði á það áherslu með þeim rökstuðningi að til lítils væri að stofna umhverfisráðuneyti ef verkefnin væru engin. Má það til sanns vegar færa og staðfesti formaður þeirrar nefndar er samdi frv. að hugsun nefndarinnar hafi verið sú að frv. þessi fylgdust að. Hins vegar sagði þessi sami formaður, Jón Sveinsson, aðstoðarmaður hæstv. forsrh., að ekkert væri því til fyrirstöðu að afgreiða frv. hvort í sínu lagi. Yrði þá reglugerð um Stjórnarráð Íslands breytt á þann veg að umhverfisráðuneytið fari fyrst í stað með ákveðin verkefni sem ekki væri bundið í lög að heyrðu undir önnur ráðuneyti. Átti hann þar við að ráðuneytið tæki fyrst í stað að sér samræmingu umhverfismála innan ráðuneytanna, stefnu í umhverfismálum, fræðslu á sviði umhverfismála, alþjóðasamskipti á þessu sviði og fleiri verkefni, þar á meðal skipulagningu ráðuneytisins sjálfs.
    Á það má minna að í næstu viku er Norðurlandaráðsþing og efast meiri hlutinn ekki um að væntanlegur umhverfisráðherra hafi ærinn starfa við mótun stefnu Norðurlanda í umhverfismálum, þrátt fyrir að fylgifrv. verði ekki samþykkt þá.
    Umhverfismál eru mikill málaflokkur og koma inn á flest svið þar sem einhver starfsemi er í gangi. Þegar stofnað er umhverfisráðuneyti er hins vegar stór spurning hvaða mál og málaflokkar skuli undir ráðuneytið falla.
    Í fylgifrv. því sem er með frv. þessu eru tilgreindir málaflokkar er fari til umhverfisráðuneytisins en aðrir, eins og t.d. eftirlit með ástandi og lífríki sjávar, ekki. Þetta vandamál eða takmörkun er þekkt og því hefur í skýrslu er nefnd hefur verið eftir Gro Harlem Brundtland jafnhliða öflugu umhverfisráðuneyti fagráðuneytum verið gert að skyldu að efla umhverfisþáttinn
innan sinna ráðuneyta. Byggist sú skipan mála á samræmingarhlutverki í umhverfisráðuneyti og að það hafi með höndum skipunarvald til fagráðuneyta, jafnhliða fræðsluhlutverki og erlendum samskiptum á þessu sviði.
    Ég vildi að þessi síðasti þáttur kæmi hér fram til leiðréttingar á þeim óvana sumra aðila að vitna til Brundtland-skýrslunnar er færð eru rök fyrir því máli að stofna ekki umhverfisráðuneyti.
    Við verðum að viðurkenna að við erum tíu árum á eftir tímanum með stofnun umhverfisráðuneytis og skýrslan á ekki við eins og sakir standa, þ.e. Brundtland-skýrslan, en eins og ég sagði þá byggir hún á þeirri forsendu að fyrst skuli koma umhverfisráðuneyti og síðan eigi fagráðuneytin að efla

umhverfisþátt innan sinna eigin ráðuneyta.
    Að lokum vil ég þakka nefndarmönnum öllum fyrir mjög gott samstarf í nefndinni og málefnaleg vinnubrögð. Vonast ég eftir að sá andi sem ríkti megi endurspeglast í umræðunni hér á eftir.