Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir (frh.) :
    Hæstv. forseti. Ég neyðist til að halda áfram ræðu minni þar sem ekki hefur verið orðið við þeirri frómu ósk að þessari umræðu verði frestað til næsta fundar.
    Áður en ég fer lengra finn ég mig knúna til að upplýsa hæstv. ráðherra Hagstofu aðeins um, þó það væri ekki nema eitt smáinnlegg úr þeirri umræðu sem fór fram í sjónvarpinu í Þingsjá milli hans, fréttamannsins og hv. þm. Kristínar Einarsdóttur. Á mörgum stöðum var komið inn á þetta atriði í viðræðuþættinum og auðvitað væri freistandi að rifja hann upp frá orði til orðs, því ég er með útskrift af honum hér, en ég ætla að sleppa því að svo stöddu a.m.k. en grípa hér niður þar sem hæstv. ráðherra Hagstofu segir í framhaldi af svörum sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir hefur gefið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þetta er, eins og ég segi, alveg fráleit og óskiljanleg afstaða`` --- þ.e. að taka þurfi þessi tvö frv. samtímis --- ,,vegna þess, eins og ég hef margítrekað, að þetta eru tvö sjálfstæð mál og auðvitað`` --- nú vil ég biðja hæstv. ráðherra sem situr hér í hliðarsal að taka eftir --- ,,og auðvitað``, segir hann, ,,ber að ræða þau í samhengi enda hefur það verið gert. Hins vegar er aðeins verið að tala um það að fyrra málið sé tilbúið til afgreiðslu, það geti farið upp í efri deild til að hægt sé að hefja umræðuna þar meðan hitt málið fylgir þar, nokkrum dögum á eftir ef til vill, þannig að það er ekkert farið að segja að þessi mál verði ekki að lokum afgreidd saman út úr þinginu. Það er bókstaflega ekkert sem mælir gegn því.``
    Ég veit ekki hvernig hægt er að misskilja þessi orð, hæstv. forseti. Eins og ég sagði, ég er hér með þessa útskrift og get rakið fleira ef hæstv. ráðherra óskar eftir því. En mér finnst þetta í raun og veru segja það sem segja þarf, þetta er það sem við höfum haldið fram. Ég var nú í góðum tilgangi að reyna að
gefa hæstv. ráðherra Hagstofu smá knúpp í hnappagatið og taka undir þessi orð hans og samfagna því að hann væri kominn að þeirri niðurstöðu að þessi tvö mál skyldu afgreidd samtímis út úr þinginu. ( Gripið fram í: Má ég biðja ræðumann að lesa þetta aftur, ráðherrann heyrði það ekki.) Jú, jú, hann sat hérna í hliðarsal og hlustaði og hann veit að enginn hefur verið að segja ósatt í þessu máli. Hann ítrekaði það sjálfur að það væri ekkert því til fyrirstöðu að ræða málin samtímis.
    Hæstv. forseti. Þetta var smá útúrdúr af gefnu tilefni. Oft getur verið dálítið erfitt þegar slíta þarf ræðu í sundur að byrja að nýju. Ég ætla samt að reyna að gera það, hér er um svo þýðingarmikið mál að ræða. Ég tel að nauðsynlegt sé að koma inn á sem flesta þætti sem snúa að þessu stóra máli málanna í heiminum í dag. Það er svo stórt að það kemur kannski næst því sem er að gerast milli austurs og vesturs. Og það sem þar er að gerast, þegar múrinn opnaðist, hefur opnað augu þeirra í austri kannski ekki síður en okkar í vestri fyrir því að stóra vandamálið er einmitt mengunin. Og þeir fá nú væntanlega

tækifæri í austrinu til að læra eitthvað af okkur í vestrinu í þeim efnum.
    En ég var komin þar í máli mínu, ef ég man rétt, að ég var að rifja upp hvernig unnið hafði verið að frv. um samræmda yfirstjórn umhverfismála sem nefnd samdi og skipuð var af þáv. hæstv. forsrh. Þorsteini Pálssyni. Ég var að rifja upp að nefndin sú lagði ríka áherslu á að hafa samráð við hagsmunaaðila og að ná sem víðtækastri samstöðu meðan verið var að semja það frv. Og þetta frv. er nú reyndar til afgreiðslu í allshn. Nd. þar sem þm. Sjálfstfl. í Nd. hafa endurflutt það, það er 4. mál þingsins vel að merkja svo það hefur komið fyrr inn á borð þingmanna en þau mál sem við erum að fjalla um hér í dag og hæstv. ráðherra hefur haft mörg orð um að verið sé að tefja og sé búið að taka þrjá mánuði. En það frv. er sem sagt árangur þeirrar samstöðu sem reynt var að ná í þessum málum til að það væri, ef maður getur orðað það svo, raunhæft frv. sem væri hægt að reikna með að færi hér í gegnum hv. Alþingi eftir þennan tólf ára biðtíma sem hefur nokkrum sinnum borið hér á góma í ræðum okkar. Því miður verður að segjast eins og er að þveröfugt við viðleitni þeirrar nefndar hefur ekki verið leitað slíks samráðs eða reynt að ná þessari samstöðu við þau frv. sem hafa verið samin að tilhlutan ríkisstjórnar hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar til að málið gæti fengið afgreiðslu hér í þinginu.
    Ég kom inn á það í máli mínu að umhverfismálin heyra undir átta ráðuneyti og ég ætla aðeins að rifja upp hvaða ráðuneyti þetta eru. Fyrst er að nefna heilbr.- og trmrn. en undir það heyra hollustumál og mengunarvarnir, sbr. lög nr. 109/1984 og reglugerðir nr. 45/1972 og nr. 390/1985, heilsugæsla, heilbrigðismál og heilsuvernd, sbr. lög nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, eiturefni og hættuleg efni, sbr. lög nr. 85/1968 með síðari breytingum og svo geislavarnir, sbr. lög nr. 117/1985.
    Undir menntmrn. falla lög um náttúruvernd nr. 41/1971, friðunarmál, sbr. lög um dýravernd nr. 21/1957 og fuglafriðun nr. 33/1966.
    Þá er það landbrn. og þar er stóri þátturinn gróðurverndin, sbr. lög um
Landgræðslu ríkisins nr. 17/1965 og lög um Skógrækt ríkisins nr. 5/1955.
    Svo er það samgrn., undir það heyra mengunarvarnir á sjó, sbr. lög nr. 32/1986 og málefni Siglingamálastofnunar ríkisins.
    Þá er það félmrn., þar eru það skipulagsmálin, sbr. skipulagslög nr. 16/1964 og embætti skipulagsstjóra og skipulagsstjórnar ríkisins, vinnuverndarmál, sbr. lög nr. 41/1980, um starfsemi Vinnueftirlits ríkisins.
    Auk þess eru svo eftirtalin ráðuneyti sem fara með viðamikla málaflokka sem tengjast umhverfismálum beint eða óbeint: Sjútvrn., þar er það friðun fiskimiða, sbr. lög nr. 44/1948. Iðnrn., það eru ýmis sérlög um verksmiðjur, sbr. lög nr. 76/1966, varðandi álbræðslu í Straumsvík, flúornefnd, lög nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, og lög nr. 18/1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Og svo er

utanrrn. en öll umhverfismál á umráðasvæði varnarliðsins heyra undir það. Það er því heilmikið í þessum átta ráðuneytum sem varðar þau mál sem við höfum hér verið að fjalla um.
    Ég var búin að fara hér nokkuð vítt yfir sviðið, hæstv. forseti. Mér fannst einhvern veginn að ekki væri hægt að standast það að hugsa svolítið upphátt um þessi mál almennt, hvernig þau snúa að okkur Íslendingum og umheiminum. Þetta eru mál sem okkur koma við og þetta eru mál sem öllum heiminum koma við. Eins og ég var búin að segja fyrr í ræðu minni í dag er það ekki síst það sem snýr að lífríki sjávar og loftið, sem hefur engin landamæri, sem skiptir miklu máli að sé góð samstaða um, að búið sé betur að þessum málum en verið hefur.
    Ég get ekki hætt að rifja upp svolítið úr fortíðinni, fara svolítið aftur í tímann vegna þess að það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir 25 árum var mér gefin bók sem ég skal viðurkenna að mér fannst þá vera nokkuð öfgakennd. Þetta var á þeim árum þegar menn voru að byrja að nota alls konar eiturefni til að dreifa í kringum sig ef pöddur eða flugur urðu á vegi þeirra. Þá voru menn ósparir á að nota DDT til að drepa flugurnar í gluggunum. Við áttum svona sprautur flestar húsmæður og notuðum þær ef flugurnar voru eitthvað að ónáða okkur eða óhreinka gluggana. En svo áskotnaðist mér þessi bók, hún er gefin út 1965 og er eftir bandarískan höfund, Rachel Carson. Níels Dungal skrifar inngangsorð að þessari bók og ég ætla, hæstv. forseti, að leyfa mér að lesa þessi inngangsorð. Þau eru örstutt en segja ansi mikið um þau mál sem við erum hér að fjalla um. En þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hér er á leiðinni bók, sem vart á sína líka í bókaheiminum. Þetta er engin skáldsaga, heldur tekinn fyrir stór þáttur af líffræðivísindum, sérstaklega ýmiskonar skaðdýr, sem valda alvarlegum uppskerubresti víða um heim. Á þessari öld og raunar nokkru fyrr hafa efnafræðingar þeirra landa, sem lengst eru komin í þeim vísindum, lagt hart að sér að finna leiðir til þess að útrýma ófögnuðinum, hver á sínu sviði, sérstaklega þar sem svo illa var komið, að akrarnir eyðilögðust algjörlega af einhverju skordýri.
    1874 fann þýzkur efnafræðingur upp efnið DDT, en enginn vissi, að það var voldugt skordýraeitur fyrr en 1939, er svisslenzki efnafræðingurinn Paul Muller rannsakaði efnið ítarlega og benti á að það mætti nota til þess að halda ökrunum hreinum fyrir áður ólæknandi sjúkdómum. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin og sá heiður, sem þeim fylgdi, hjálpaði til að flytja hina nýju þekkingu um DDT ört í kringum allan hnöttinn.
    Smám saman lærðu menn að DDT er hættulegt eitur og fólk þarf að forðast að það komist inn í líkamann. Sumir geta andað því að sér, en aðrir fá það ofan í sig með mat, því að lyfið er svo mikið notað af bændum og garðræktarmönnum, að allir geta fengið það ofan í sig með káli, ávöxtum o.fl.
    En reynslan sýnir að það er erfitt að vara sig á að fá DDT ofan í sig. Rachel Carson segir frá því

hvernig akrar af alfalfa eru stráðir með DDT. Síðan er alfalfa hakkað niður í mjöl handa hænsnum. Hænurnar verpa eggjum, sem í er DDT. Eða þá að heyið er gefið kúnum. Í heyinu eru þá venjulega eftir 7--8 hlutar af milljón af DDT. Það kemur fram í mjólkinni í 3 hlutum af hverri milljón, sem kýrin hefir fengið af alfalfa.`` --- Ég er alveg sannfærð um það, hæstv. forseti, að hann hlustar með athygli á þessi orð sem fjalla um landbúnaðinn og mjólkina því eftir því sem ég best veit er hann góður bóndi. Ég skal ekki segja hvort hann er með kúabú en alla vega þekkir hann áreiðanlega vel til þessara vandamála. --- ,,En ef smjör er framleitt úr þessari mjólk, getur DDT aukist til muna, farið allt upp í 65 pr. milljón.
    Annað sem við megum ekki gleyma, er hve gætilega þarf að fara með pencillin, ef það er gefið kúm. Kýrnar fá stundum júgurbólgu, sem pencillin getur læknað, en þá þarf að gæta þess vel, að ekki sé seld mjólk með pencillini í. Því að í hverju þjóðfélagi hefur viss fjöldi manna ofnæmi fyrir pencillini og veikist stundum mjög illa og jafnvel hættulega, ef hann neytir mjólkur með pencillini.
    Þetta eru tvö dæmi þess, hvernig framfarirnar á sviði efnafræði og læknavísinda geta haft skaðleg áhrif, ef almenningur er ekki fræddur um þær hættur sem ýmsum efnum eru samfara.
    Þessi bók bendir annars vegar á hið mikla ósamræmi, sem er á milli framfara þeirra, sem orðið hafa á svo mörgum sviðum, einkum í viðureigninni við skordýr, sem eyðileggja akra, aldintré og stundum jafnvel húsdýr eða alifugla
í stórum stíl, og sýnir hins vegar hve lítið hefir verið sinnt hættunni, sem mönnum getur stafað af eyðingu þeirra með eiturefnum.
    Hér á Íslandi er farið að nota mörg af þessum lyfjum, svo sem DDT við lús í mönnum og skepnum, parathion og malathion gegn skordýrum í gróðurhúsum, einkum blaðlús og ýmsum kvikindum, sem lifa á plöntunum, en bæði þessi efni eru eitur, sem þarf að fara mjög varlega með, ef ekki á illa að fara. ,,Bladan`` (E 605) er líka mikið notað og er mjög hættulegt eitur, en þó að vart hafi orðið eitrana hér af þessum lyfjum, er ekki vitað að þau hafi valdið bana, en slíkt getur komið fyrir hvenær sem er, ef ekki er fyllstu varúðar gætt.
    Þessi bók á erindi til allra þeirra, sem gera sér ljóst að menningarframfarir 20. aldarinnar hafa ekki aðeins gert okkur lífið hagkvæmara og heilsubetra, heldur einnig skapað nýjar hættur, sem hingað til hafa verið óþekktar. Og hún ætti að láta okkur skiljast hve nauðsynlegt er að fylgjast vel með öllu nýju, sem maðurinn fer að neyta eða vera í snertingu við, og kunna að forðast það, ef nauðsyn krefur.``
    Undir þetta ritar Níels Dungal og þetta er skrifað fyrir 25 árum. Mér er ekki grunlaust um að það sé ekki fyrr en á allra síðustu árum sem farið er að koma í ljós að ýmis eiturefni eru í matvælum af völdum notkunar á skordýraeitri. Og komin eru upp vandamál hér, t.d. hjá garðyrkjubændum, vegna skordýra sem hafa flust inn með ýmsu innfluttu

grænmeti og öðru slíku og þannig mætti lengi telja. Við höfum ekki haft á okkur nægan andvara í þessum efnum fyrr en nú á síðustu árum, kannski innan áratugar eða svo.
    En ég get ekki staðist freistinguna því ég veit að mönnum mun þykja fróðlegt að heyra 1. kafla þessarar bókar sem er ekki nema tvær litlar blaðsíður. Hann er eins og framhald af þessum formála og gefur ákaflega skýra mynd af því sem við megum eiga von á ef við höfum ekki vara á, ef við gætum okkar ekki. Ég ætla þess vegna, hæstv. forseti, að leyfa mér að hlaupa yfir þennan litla kafla sem er, eins og ég sagði, ekki nema rétt tæpar tvær blaðsíður og ég vona að menn þrauki það.
    Þegar ég var að fara yfir þau mál sem snúa að umhverfismálum rifjaðist dæmisagan, sem þessi bók byrjar á, upp fyrir mér því hún er varnaðarorð sem á fullan rétt á sér í dag. Dæmisagan eða kaflinn heitir ,,Ævintýrið um hið ókomna`` og sagan er látin gerast í borg í Ameríku. Sú staðsetning er aðeins tekin sem dæmi og tekið fram að hún geti gerst hvar sem er. Og þá ætla ég að hefja lesturinn, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það var einu sinni borg í Ameríku, þar sem allt líf virtist lifa í sátt við umhverfi sitt. Borgin var inni í miðju landi og allt í kringum hana voru blómleg sveitabýli með kornakra og aldingarða á ávölum hæðum, þaðan sem drifhvít blómblöð komu svífandi eins og ský á vorin yfir akrana. Á haustin klæddust eik og hlynur og birki skæru litaskrúði, sem lýsti móti dökkum bakgrunni barrtrjánna. Þá gögguðu refirnir í hæðunum og dádýrin rásuðu hljóð yfir engin, nærri hulin í móðu haustmorgunsins.`` --- Þetta er falleg lýsing. --- ,,Með fram vegunum óx lárviður, elri og trönuberjarunnar, stórir burknar og allskyns villiblóm, sem glöddu augu vegfarenda næstum árið um kring. Jafnvel á veturna var fagurt um að litast með fram vegunum þegar mergð fugla kom til að eta berin á runnunum og fræbelgina á þyrrkingsgróðrinum, sem stóð upp úr snjónum. Sveitin var í sannleika víðkunn fyrir hið auðuga fuglalíf sitt, og þegar farfuglarnir áttu þar skamma viðdvöl vor og haust, kom fólk langar leiðir að til að skoða þá. Aðrir komu til að veiða í ánum, sem komu tærar og svalar ofan úr hæðunum og mynduðu skuggasæla hyli, þar sem silungurinn vakti. Þannig hafði þetta verið alla tíð frá því að fyrstu landnemarnir reistu hús sín og kornhlöður og grófu brunna sína.
    Svo fór einhver undarleg óáran að gera vart við sig í sveitinni og allt tók að breytast. Einhver bölvun hafði lagzt yfir byggðina: Dularfullir sjúkdómar herjuðu í kjúklingahjörðunum, búféð veiktist og dó. Skuggi dauðans lagðist alls staðar yfir. Bændurnir töluðu um mikil veikindi í fjölskyldum sínum. Í borginni tóku nýir og áður óþekktir sjúkdómar að gera vart við sig og læknarnir stóðu undrandi og ráðalausir gagnvart þeim. Nokkur skyndileg og óskýranleg dauðsföll áttu sér stað, ekki aðeins meðal fullorðinna, heldur einnig meðal barna, sem veiktust skyndilega í miðjum leik og voru dáin eftir nokkra klukkutíma.

    Undarleg þögn ríkti alls staðar. Fuglarnir --- hvert höfðu þeir farið? Margir töluðu um þá, í senn undrandi og uggandi. Í görðunum bak við húsin stóðu fóðurstallar fuglanna auðir. Þeir fáu fuglar, sem sáust, voru í dauðateygjunum; það var ákafur skjálfti í þeim og þeir gátu ekki flogið. Raddir vorsins voru þagnaðar. Þeir vormorgnar, þegar loftið titraði af söng þrastanna, kurri dúfnanna, tísti músarrindlanna og öðrum fuglaröddum --- þessir morgnar voru nú hljóðir; yfir ökrum, skógum og mýrum ríkti þögnin ein.
    Á bæjunum lágu hænurnar á eggjum, en engir ungar komu úr þeim. Bændurnir kvörtuðu undan því, að ekki væri hægt að ala upp grísi --- gylturnar áttu fáa grísi, og þeir lifðu aðeins fáa daga. Eplatrén blómstruðu, en engar býflugur tylltu sér á blómin, svo að þau frjóvguðust ekki og báru engin aldin.
    Gróðurinn með fram vegunum, sem áður hafði verið svo fallegur, var nú brúnn og visinn, eins og eldur hefði herjað hann. Og þar var allt hljótt og hvergi kvikt að sjá. Jafnvel í ánum var ekki lengur neitt kvikt. Veiðimenn voru hættir að vitja þeirra, því að allur fiskur í þeim var dauður.
    Í þakrennunum og milli þakhellnanna sáust hvítar duftskellur hér og þar; nokkrum vikum áður hafði þetta duft fallið eins og snjór á þök og grasbletti, akra og ár.
    En það voru hvorki gjörningar né óvinaárás, sem kæft höfðu raddir vorsins í þessari ólánssömu sveit. Fólkið hafði gert það sjálft.``
    Og síðan segir: ,,Þessi borg er ekki til í raun og veru en það er hægðarleikur að finna þúsundir borga, sem líkt er ástatt fyrir í Ameríku eða annars staðar í heiminum. Ég þekki enga sveit, sem orðið hefur fyrir öllum þessum hörmungum, sem ég hef lýst. En sérhver þessara hörmunga hefur uppáfallið einhvers staðar og margar þeirra sums staðar. Óhugnanleg vofa hefur læðzt að oss, og þessar ímynduðu hörmungar, sem ég hef lýst hér, geta hæglega orðið að veruleika, sem vér eigum öll eftir að kynnast.
    Hvað er það, sem þegar hefur þaggað niður raddir vorsins í ótalmörgum borgum? Bók þessi er tilraun til að skýra það.``
    Þetta er, eins og ég sagði í upphafi, 1. kaflinn í bók sem heitir ,,Raddir vorsins þagna`` og var gefin út af Almenna bókafélaginu fyrir 25 árum. ( Gripið fram í: Passar.) Passar, já. ( JGS: Fáum við ekki að heyra meira?) Ég væri alveg til í að lesa meira, hv. 5. þm. Norðurl. e. ( JGS: Maður hefði gott af að heyra meira.) Ég er nú aðeins að byrja mína fyrstu ræðu svo að ég get alveg tekið framhaldið síðar ef svo ber undir. Ég er ánægð að heyra að hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur hlustað með athygli og ekki síst vegna þess að ég veit að hann er það nálægt þessum málum sem hér hefur einmitt verið fjallað um og ég las upp úr þessari bók. Hann er væntanlega í nánum tengslum við náttúruna, við gróðurinn og hefur þess vegna skilið hvað hér var á ferðinni.
    En svona er það nú. Ég held að það fari ekkert á milli mála að við höfum öll áhyggjur af þessum

málum og við viljum standa sem best að því hvernig skipan þeirra verður í stjórnkerfi okkar í framtíðinni. Við viljum samræma yfirstjórn þessara mála en það er varla hægt að lá okkur það, þeim þingmönnum sem ekki eru sammála því, að hér sé verið að finna lausn á þessu máli með því að afgreiða þetta frv. sem hér er til umræðu og á dagskrá meðan ekki fylgir fylgifrv. sem ég held að allir séu, í hjarta sínu a.m.k., sammála um að eigi einnig að vera á dagskrá.
    Mér dettur í hug að það kom fram í máli hæstv. ráðherra Hagstofu í þessum títtnefnda umræðuþætti í sjónvarpinu, Þingsjá, að hann hafði áhyggjur af því að vegna þess að sjálfstæðismenn væru búnir að tefja þetta mál mikið yrði fólkið í landinu afhuga umhverfismálum. Ég held að þetta sé mikill misskilningur hjá hæstv. ráðherra. Ég held að því sé alveg þveröfugt farið og það kom meira að segja fram í máli eins af gestum okkar á fundi allshn. Hann sagðist hafa verið nokkuð á ferðinni um landið að undanförnu og þar hefði komið fram mikil gagnrýni einmitt á hvaða meðferð þetta mál hefur fengið hér í þinginu, að afgreiða ætti þetta frv. án þess að fylgifrv. fylgdi þar með.
    Stundum hefur verið talað um það að í nútímanum hafi unga fólkið ekki áhuga á þessum málum, láti sig ekki varða hvernig við förum með landið okkar og hvernig við umgöngumst það. En við þekkjum það öll að t.d. skáldin okkar hafa mikið látið sig varða landið sitt og gróðurinn og það lýsir sér í þeirra skáldskap, ég tala nú ekki um í ljóðum okkar ágætu ljóðskálda. Það er stundum sagt að íslensk skáld geti ekki lengur ort um landið. En þetta er vissulega misskilningur og í því sambandi dettur mér í hug bók sem Hörpuútgáfan gaf út á sínum tíma og heitir ,,Til landsins``. Það er Ísland í ljóðum 17 nútímaskálda sem Jóhann Hjálmarsson valdi. Þetta var nú hvorki meira né minna en í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Það er mjög gaman að lesa þessi fallegu ljóð sem eru auðvitað mismunandi eftir því hver yrkir. Hér er t.d. ljóð eftir ljóðskáldið sem nýlega fékk verðlaun, Stefán Hörð Grímsson. Hann yrkir um vorið og um bifreiðina sem hemlar hjá rjóðrinu. Og Tómas yrkir fallegt ljóð sem heitir ,,Morgunljóð úr brekku``, þar sem hann er að hugsa um lækinn og blómin. Og ég er að hugsa um, hæstv. forseti, að gera þessi orð hans að mínum lokaorðum í þessari umferð.
    En áður en ég geri það ætla ég að ítreka þær spurningar sem ég bar hérna fram fyrr í dag af því að það er svo langt um liðið og það er varla hægt að ætlast til þess að hæstv. forsrh. muni allt sem hér hefur verið sagt. Ég spurði hann: Hvers vegna í ósköpunum liggur svona á að afgreiða þetta mál í þessari viku? Hvers vegna má það ekki bíða eftir fylgifrv.? ( Gripið fram í: Er þetta fyrirspurn til forsrh.?) Já, til hæstv. forsrh. og ég hef ekkert á móti því að hæstv. ráðherra Hagstofu svari þessi einnig. En það er hæstv. forsrh. sem ber ábyrgð á þessu frv. sem við erum að fjalla um og mælir fyrir því. Þess vegna spyr ég hann. Það er erfitt að skilja hvaða máli skipta

ein eða tvær vikur. Það er ekki komið að þinglausnum fyrr en í apríl. Það hljóta að vera alla vega tveir mánuðir og vel það þangað til. Ef við fengjum að fresta þessu
máli og ljúka við að fjalla um þýðingarmesta þáttinn, sem er fylgifrv., vesalings barnið sem var skilið eftir í Nd. foreldralaust, ef við fengjum að taka það hér í faðm okkar og afgreiða það með, þá ættum við kannski von á því að það yrði meiri reisn yfir afgreiðslu þessa máls hér í gegnum hv. Alþingi.
    En svona til gamans ætla ég að ljúka þessu með því að rifja upp hvernig eitt af okkar ástsælu skáldum er með hugann við umhverfi sitt þegar það yrkir Morgunljóð úr brekku. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Heyr morgunljóð úr brekku,
ég er silfurlindin litla,
og leik mér við að skoppa
og hoppa
niður kletta.
Og blómin flykkjast saman
um bakka mína á vorin
og bara ef þau sjá mig
þau flýta sér að spretta.
Og taki ég að syngja
þau hlusta hrifin á mig
og heila vendi flétta
til dýrðar minni snilli.
Þó læst ég hvorki skilja,
hvað þau skrafa sín á milli
né skeyti um þeirra hylli,
svo sjálfsagt finnst mér þetta.
Því af lindum þeim, sem detta
og syngja á svona stöðum,
hef ég sólbjartasta róminn.
Um slíkt er engum blöðum
að fletta
segja blómin.

Heyr morgunljóð úr brekku,
ég er lítil lind, sem tindrar,
í ljósi hvítra daga,
og það er öll mín saga.
Mest langar mig að geyma
allt glitskrúð vorsins bjarta
og gríp hvert ský á lofti,
sem auga mínu sindrar.
Ég brýt það óðar af mér,
sem ekki er mér að kenna,
því enn verð ég að renna
og flýti mér að streyma.
En seinna, er dalinn þrýtur
og sól og degi hallar,
mér syngur annar strengur,
þá niða ég ei lengur,
en fel mig niðri í hyljum
og hlusta skelfd í giljum
á hafið, sem mig kallar
og tæmir lindir allar.

Og þung og köld er röddin,
sem þaggar silfurljóðið,
en það er alveg sama:

Ég verð að renna á hljóðið.

    Og við skulum vona að skáld framtíðarinnar hafi tækifæri til að upplifa slíkar unaðsstundir í brekkum í blómskrúði við hreina og tæra læki og falleg ský á himni.