Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. er hjálpfús maður og tekur að sér óbeðinn að leggja öðrum mönnum til orð. Um þetta mál hef ég fyrst og fremst tvennt að segja. Það er verið að leysa með farsælum og fullnægjandi hætti hið svokallaða varaflugvallarmál fyrir okkur Íslendinga og fyrir alla flugumferð hér á þessu svæði. Og það með bæði einfaldari, ódýrari og skjótvirkari hætti heldur en kappsamir menn um hernaðarflugvöll geta boðið upp á, þar sem ljóst er og yfirlýst reyndar að til slíkra framkvæmda yrði fyrst stofnað, eða að þær hæfust fyrst eftir allmörg ár. En innan þriggja ára eða á næstu þremur árum verða a.m.k. tveir íslenskir flugvellir fyrir utan suðvesturhornið þannig í stakk búnir að þeir fullnægja öllum kröfum alþjóðlegra flugvalla í sínum stærðarflokki. Og innan fárra ára til viðbótar munu væntanlega fleiri bætast við.
    Í öðru lagi hefur sú afstaða mín lengi legið fyrir og er ekkert nýmæli í því að ítreka hana hér en skal þó gert, að bygging hernaðarflugvallar samrýmist ekki ákvæðum stjórnarsáttmálans um engar nýjar meiri háttar hernaðarframkvæmdir. Það er augljóst mál og engin deila um það. Okkur utanrrh. greinir hins vegar á að því er virðist í þeim efnum að ég tel það ótvírætt að um undirbúning undir slíkar framkvæmdir gildi hið sama. Ég geri ekki greinarmun á því að heimila aðgerðir sem eru aðdragandi og undirbúningur að slíkum framkvæmdum. Enda er það að sjálfsögðu rangt séu menn andvígir því að framkvæmdin sjálf fari fram. Og um það getur ekki verið deila að ákvæði stjórnarsáttmálans rúma ekki þessa hernaðarframkvæmd. Þá er að sjálfsögðu rangt að leyfa einhverjar þær aðgerðir sem eru undirbúningur undir slíkar
framkvæmdir og væri í rauninni verið að hafa þá menn að fíflum sem ætlast væri til að legðu peninga í slíkt. Ég er þess vegna sömu skoðunar og ég hef verið og hef margsinnis lýst yfir að ég tel það að heimila slíka forkönnun, það að heimila undirbúning undir framkvæmdir sem ekki samrýmast ákvæðum stjórnarsáttmálans, sömuleiðis brot á honum.