Persónuafsláttur látins maka
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég vekja athygli hv. alþm. á því að það fyrirkomulag sem hér er spurt um hefur verið við lýði í rúman áratug. Það hefur nokkuð borið á því í umræðu að ýmsir hafa talið að það væri nýtt ákvæði í skattalögum að binda persónuafsláttinn við almanaksárið hjá eftirlifandi maka. Það ákvæði hefur hins vegar verið í lögum með þessum hætti síðan árið 1978. Á árinu 1978 voru gerðar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt til að gera það kleift að eftirlifandi maki gæti nýtt persónuafslátt fráfallins maka á andlátsári hans.
    Það sem e.t.v. kann að valda því að þetta atriði hefur verið umrætt að undanförnu er að við upptöku staðgreiðslunnar árið 1988 hækkaði persónuafsláttur mjög mikið og þess vegna hefur smátt og smátt verið að koma í ljós sá mismunur sem reglurnar og ákvæðin frá 1978 kunna að hafa í för með sér. Ég vil þó vekja á því sérstaka athygli hér, vegna þess að ég hef orðið var við að þau ákvæði skattalaganna hafa farið fram hjá ærið mörgum, að skv. 66. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt getur skattstjóri lækkað tekjuskattsstofn ef mannslát hefur haft í för með sér röskun á stöðu og högum eftirlifandi maka og er þá tekið tillit til allra þátta, m.a. hvernig persónuafsláttur fráfallins maka nýtist þeim eftirlifandi. Og það er alveg ljóst að það eru mörg dæmi um það að skattstjórar nýti þessa heimild 66. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt til þess að létta skattbyrði á einstaklingum eða fjölskyldum þegar mannslát hefur orðið í fjölskyldunni. Þetta er atriði sem ég vildi vekja sérstaka athygli á vegna þess að ýmsir einstaklingar eða aðrir sem fjallað hafa um þetta mál virðast ekki hafa áttað sig á því að í núgildandi skattalögum er gert ráð fyrir því beinlínis að skattstjórar meti tilvik af þessu tagi og breyti þá álagningu og auðveldi fólki að nýta þá möguleika, m.a. hvað persónuafsláttinn snertir, sem fyrir hendi eru til þess að létta byrðina ef andlát verður í fjölskyldunni.
    Ég vil hins vegar geta þess sérstaklega hér að mér finnst vera tími til þess kominn að kanna rækilega hvort ekki eigi að breyta reglunum á þann veg að heimildin gildi óháð því hvenær andlát á sér stað innan ársins. Ég sé í sjálfu sér enga sanngirni í því að heimildin til að nýta persónuafslátt styttist eftir því hvenær á árinu fráfall makans verður. Ég hef því ákveðið að láta vinna í fjmrn. og hjá ríkisskattstjóra athugun á þessu máli og tillögur um breytingar á umræddu lagaákvæði og mun innan tíðar gera Alþingi og ríkisstjórn grein fyrir þeim tillögum. Það er því ljóst að ég hef í hyggju sem fjmrh. að beita mér fyrir breytingum á þessu ákvæði en vil ítreka það sem ég sagði hér
áðan að þar til þær breytingar taka gildi hafa skattstjórar skv. 66. gr. núgildandi tekjuskatts- og eignarskattslaga heimild til þess að taka tillit til breytinga sem verða á fjölskyldu- og tekjuháttum vegna fráfalls maka.